132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Hreyfanleiki starfsfólks og þjónustu eftir stækkun ESB.

[10:58]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og hv. þingmönnum fyrir málefnalega umræðu þó svo að ég verði nú að segja eins og er að ég á erfitt með að átta mig á því — og það hlýtur að vera ákveðin vanþekking á málefninu — þegar hv. þingmenn Siv Friðleifsdóttir og Björgvin G. Sigurðsson kjósa að tala um þetta sem Evrópusambandsdekur. Ég vona að ég þurfi ekki að hlusta á slíkt aftur. (Gripið fram í.)

En hvað sem því líður þá er gaman að heyra hér að minnst er á það sem ætti að vera augljóst, að frelsi það sem felst í innri markaði EES-samningsins er líka fyrir Íslendinga. Ég held að það sé vilji fyrir því í Alþingi að við framlengjum að minnsta kosti ekki þau höft sem hér eru. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson gleymdi að minnast á það, af því að hér ræddi hann um starfsmannaleigur, að það ýtir undir starfsemi stafsmannaleigna að vera með þessi höft og það kemur fram í þessari skýrslu. Það hefði verið kannski nær að ræða meira um það á þessum vettvangi þegar þeir aðilar sem mest hafa rætt málið hér hafa verið með stór orð um þau mál.

Fyrir liggur að eftirspurn eftir vinnuafli ræður fjöldanum en ekki reglugerðarverkið eins og komið hefur fram m.a. hjá hæstv. ráðherra. Ég er alveg sammála því, svo að því sé algjörlega til haga haldið, að besta leiðin til þess að fá fólk til að samlagast þjóðfélaginu er að það hafi atvinnu. Það hefur verið línan hjá okkur Íslendingum og það er vel. Það liggur alveg fyrir að þau þjóðfélög sem hafa farið þá leið eru ekki með þau vandræði sem við horfum á t.d. í Frakklandi.

Virðulegi forseti. Við tölum oft um þetta sem varnarstöðu. En ég vil vekja athygli á því að ef við getum ekki mannað þau störf sem hér eru þá missum við störfin úr landi. Þegar við missum störf úr landi koma þau ekki til baka.

Ég vil að lokum, virðulegi forseti, vitna í Peter Hodgson sem er ráðherra rannsóknar- og tæknimála í ríkisstjórn Nýja-Sjálands. Hann sagði, með leyfi forseta:

„Við lítum ekki á útlendingaeftirlitið sem varðstöð heldur sem ráðningarstofu sem laðar til landsins hæfileikafólk sem eykur hagvöxt.“

Við mættum kannski (Forseti hringir.) aðeins hafa þetta meira í huga í umræðum um þessi mál.