132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Vandi á leikskólum vegna manneklu.

[13:55]
Hlusta

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka málshefjanda fyrir að vekja athygli á málefnum leikskólanna. Ég þekki það vel af öðrum vettvangi þar sem ég sit í borgarstjórn Reykjavíkur og eins og menn vita þá er þetta mál á ábyrgð sveitarfélaganna.

Í leikskólunum starfar frábært fólk og veitir frábæra þjónustu. Þrátt fyrir að mikilvægt sé að við ræðum þetta mál á þessum vettvangi þá hefur mér komið nokkuð á óvart hve fulltrúar stjórnarandstöðunnar hafa ráðist harkalega á R-listann í þessu máli, sérstaklega þar sem þeir eru hér ekki til svara. (Gripið fram í.) En eins og menn þekkja, og málshefjandi minntist á sitt sveitarfélag, Kópavog, þá er líka í Reykjavík neyðarástand á mörgum leikskólum. Því miður hafa menn brugðist seint við og á margan hátt illa við þessum mikla vanda. (Gripið fram í.) Við hljótum þá að spyrja okkur þegar stjórnmálaafl kemur fram og allir, a.m.k. frá þessu stjórnmálaafli hér, eru sammála um að kjörin séu það sem skiptir máli, þá lofa þessir sömu aðilar fjárveitingum í gjaldfrjálsan leikskóla á sama tíma og foreldrar fá ekki pláss fyrir fyrir börnin sín í leikskólum á viðkomandi stöðum.

Ég held hins vegar að ekki sé ástæða til að ráðast of mikið á R-listann hér. Við vitum að menn hafa ekki náð þessum árangri sem raun ber vitni. Hér var minnst á Kópavog. Kópavogur er sveitarfélag þar sem leikskólabörnum (Gripið fram í.) hefur fjölgað um rúmlega 500 á síðustu tíu árum á meðan fækkað hefur um samsvarandi fjölda í Reykjavík. Þetta er málefni sveitarfélaganna. Ég veit að sveitarstjórnarmenn hafa mikinn metnað á þessu sviði og munu reyna hvað þeir geta til að vinna bug á þessum vanda. Ég held að menn séu sammála um að við verðum að gera allt til að viðhalda því góða starfi sem unnið er á vettvangi leikskólans því svo sannarlega er þar frábært starfsfólk (Gripið fram í.) sem vinnur mjög gott starf eins og hv. þm. Össur Skarphéðinsson þekkir af eigin raun.

(Forseti (JóhS): Ég vil biðja hv. þingmenn að halda frammíköllum í algeru lágmarki þegar ræðutími er svo takmarkaður sem raun ber vitni.)