132. löggjafarþing — 19. fundur,  10. nóv. 2005.

Vegagerð um Stórasand.

43. mál
[15:22]
Hlusta

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Halldóri Blöndal fyrir svarið. Ég var samt ekki nógu ánægður með það, mér fannst hann ekki tala nógu skýrt. Ég var að reyna að fiska eftir hans eigin afstöðu til flugvallarmálsins. Hann benti hér á hlut sem mér hafði reyndar yfirsést en það er að þeir landsbyggðarþingmenn sem eru á þessari þingsályktunartillögu eru allir þingmenn Norðausturkjördæmis.

Ég spyr því enn og aftur: Eru þessir þingmenn að draga upp eins konar hvítan uppgjafarfána í þessu máli? Eru þeir að reyna að koma með eitthvert útspil sem segir eitthvað á þá leið: Gott og vel, við ætlum ekki að berjast fyrir því að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni, en gegn því að við drögum uppgjafarfána að húni viljum við fá þennan veg um Stórasand?

Ég held að það væri mikill akkur í því að fá það skýrt fram hjá hv. þm. Halldóri Blöndal. Hann er jú þingmaður með mikla reynslu og fyrrverandi samgönguráðherra og hefur verið í fararbroddi í sínu kjördæmi um áratuga skeið. Það væri mikill akkur í því að fá að heyra frá honum skýrt og skorinort hvort hann hyggst berjast fyrir því að flugvöllurinn verði áfram í Vatnsmýrinni eða hvort hann hefur ákveðið að láta það mál hreinlega falla í hendur yfirvalda í Reykjavíkurborg á hverjum tíma, jafnvel að láta þá sem nú fara með völd í Reykjavík eða þá sem hugsanlega taka við völdum í Reykjavík taka ákvörðun um það hvort landsbyggðin eigi að hafa þennan flugvöll, hvort að þjóðin öll eigi að hafa þennan flugvöll í Vatnsmýrinni áfram eða ekki.