132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Skólagjöld við opinbera háskóla.

[15:41]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur mjög skýra stefnu í þessum málum. Við viljum efla háskólanámið og styðjum ríkisstjórnina að því leytinu til í allri eflingu sem við sjáum að er að eiga sér stað á háskólastiginu. Við viljum hins vegar ekki að það sé gert á þann hátt sem sjá má í fjárlögunum. Við getum séð það t.d. að einkaháskólarnir eru að fá forgjöf og fjárveitingar umfram opinberu háskólana á sama tíma og opinberu háskólarnir fá ekki einu sinni samningsbundin framlög í rannsóknarsamninga sína. Háskólinn í Reykjavík fær 200 millj. kr. til rannsókna og hann er ekki með rannsóknarsamning þannig að forgangsröðun stjórnvalda í þessum efnum hefur verið mjög ábótavant.

Hv. frummælandi segir réttilega að þrengt sé að rekstri skólanna og auðvitað er það svo að skólarnir eru farnir að hugleiða: Ættum við að fara fram á að fá að leggja á skólagjöld? Vinstri hreyfingin – grænt framboð er mótfallin skólagjöldum hvort sem er í grunnnámi í háskólum eða í framhaldsnámi. Við teljum einsýnt að Háskóla Íslands þurfi að styrkja þannig að hann fái að taka inn þann fjölda doktorsnema sem hann telur sig hafa bolmagn til. Það er verið að tala um 60 doktorsnema í staðinn fyrir þá 12 sem þeir hafa möguleika á að sinna núna. Þetta teljum við vera eitthvað sem vantar upp á og það sárlega og slíkt þarf að gerast núna í þessari fjárlagavinnu. Við teljum að horfa þurfi á þetta heildstætt. Við höfnum því að íslenskir háskólastúdentar séu ekki samkeppnishæfir við erlenda háskólastúdenta. Við höfum verið að veita fólki afar yfirgripsmikla menntun og við þurfum að standa vörð um hana. En við þurfum að standa vörð um hana á þann hátt að allir geti stundað hana alveg burt séð frá efnahag og fjárhagslegri stöðu. Það er í okkar huga lykilatriði.