132. löggjafarþing — 20. fundur,  14. nóv. 2005.

Vatnalög.

268. mál
[20:10]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Vegna þess sem kom fram hjá hv. þingmanni þess efnis að það hljóti að felast einhver breyting í eignarhaldi á vatni í frumvarpinu þá er rétt að rifja það upp með hvaða hætti málum var skipað við samþykkt vatnalaga árið 1923 og eins og hér hefur margsinnis komið fram í umræðunni höfðu sameignarsinnar sigur að nafninu til en séreignasinnar að efni til.

Hvað merkir nú þetta? Þetta felur það í sér að á yfirborðinu lítur það þannig út að allt vatn sé í sameign en raunin er önnur. Öll þekkt not á vatni tilheyra fasteign og þar með umráðarétti eigenda hennar.

Það sem hér er lagt til í þessu frumvarpi breytir því engu um efnisinnihald réttinda landeigenda. Hins vegar eru hlutirnir sagðir eins og þeir eru í raun en enginn sem lesa mun hin nýju vatnalög þarf að fara í grafgötur með eignarréttinn eða þekkja dómafordæmin og túlkanir fræðimanna til þess að skilja hvar eignarrétturinn liggur.