132. löggjafarþing — 21. fundur,  15. nóv. 2005.

Samningur milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Túnis.

284. mál
[17:58]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir fyrir tillögu til þingsályktunar um heimild til handa ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd fríverslunarsamning milli ríkja Fríverslunarsamtaka Evrópu og Túnis, sem undirritaður var 17. desember síðastliðinn.

Samningurinn við Túnis kveður á um tollfrjáls viðskipti með iðnaðarvörur og sjávarafurðir og unnar landbúnaðarvörur. Þegar samningurinn öðlast gildi munu EFTA-ríkin afnema alla tolla og aðrar takmarkanir á innflutningi vöru sem samningurinn tekur til, en Túnis mun afnema tolla á ákveðnu aðlögunartímabili sem hefst 1. júlí 2008. Í samningaviðræðum EFTA-ríkjanna og Túnis var rík áhersla lögð af Íslands hálfu á fríverslun með sjávarafurðir sem reyndist vera eitt erfiðasta atriðið í samningaviðræðunum. Sjávarútvegur í Túnis nýtur ríkrar tollverndar og hafa stjórnvöld þar í landi fram til þessa ekki verið reiðubúin til að semja um fríverslun með sjávarafurðir. Þannig nær samningur Evrópusambandsins við Túnis ekki til viðskipta með sjávarfang.

Samninganefnd EFTA náði þó samkomulagi um fríverslun með sjávarafurðir en niðurstaðan varð sú að fallist var á að Túnis fengi langan aðlögunartíma. Ákvörðun um tilhögun aðlögunartímans verður í höndum sameiginlegrar nefndar sem skal fimm árum eftir gildistöku samningsins taka ákvörðun um tímaáætlun um afnám tolla í áföngum. Miðað er við að öllum tollum á sjávarafurðir skuli hafa verið aflétt eigi síðar en átján árum eftir gildistöku samningsins. Á aðlögunartímabilinu skal EFTA-ríkjunum þó veittur árlegur tollkvóti fyrir sjávarafurðir sem nemur 100 tonnum á hverju ári með 10% tolli. Vonir standa til að þessi samningsniðurstaða tryggi nægan markaðsaðgang til Túnis fyrir íslenskar sjávarafurðir. Rétt er að taka fram að mjög lítill útflutningur er á sjávarafurðum frá Íslandi til Túnis og er hann í dag vel innan hins árlega tollkvóta.

Samningurinn við Túnis er mjög mikilvægur ekki síst til að tryggja samkeppnisstöðu fyrirtækja á EFTA-svæðinu í Norður-Afríku. Evrópusambandið stefnir nú að því að koma á sameiginlegu efnahagssvæði við ríki í norðanverðri Afríku þannig að sömu upprunareglur gildi á öllu svæðinu og mögulegt verði að framleiða vörur í ákveðnum áföngum hvar sem er á svæðinu.

Það er mikilvægt að EFTA hafi aðgang að þessu markaðssvæði og hafa samtökin því fylgt í fótspor ESB og gert samhliða samninga við þau ríki á þessu svæði sem ESB hefur samið við. Þetta er í samræmi við það markmið stjórnvalda að tryggja að útrásarfyrirtæki EFTA-ríkjanna búi við jafngóða ef ekki betri stöðu og ríki Evrópusambandsins. Þannig hefur EFTA áður gert samninga við Marokkó, Jórdaníu, Líbanon, Ísrael, sjálfstjórnarsvæði Palestínumanna og nú Túnis. Í samningum við þessi ríki hefur EFTA þó lagt ríkari áherslu á hagsmuni EFTA-ríkjanna en gert hefur verið í samningum við ESB eins og hagsmuni Íslands og Noregs í sjávarútvegi og er samningur EFTA-ríkjanna og Túnis því víðtækari en samningur Evrópusambandsins.

Eins og áður segir voru samningarnir við Túnis erfiðir, ekki síst vegna þeirrar verndar sem sjávarútvegur hefur notið þar í landi. Ísland og Noregur lögðu ríka áherslu á að samningar næðust um fríverslun með sjávarafurðir sem er sú samningsniðurstaða sem lögð er fyrir Alþingi í dag. Samningarnir tóku átta ár og reyndu mjög á EFTA-samstarfið. Á tímabili leit út fyrir að samstarf EFTA-ríkjanna væri í hættu þar sem Svisslendingar hugðust gera tvíhliða samning við Túnis sem skaðað hefði samstarf EFTA-ríkjanna. Að lokum tókst þó að ná samningum með því að gefa Túnis þann langa aðlögunartíma í fríverslun með sjávarafurðir sem áður er greint frá. Samhliða fríverslunarsamningnum gerðu EFTA-ríkin hvert og eitt tvíhliða landbúnaðarsamning um tollalækkanir fyrir ýmsar óunnar landbúnaðarvörur eins og tíðkast hefur við gerð fríverslunarsamninga.

Viðskiptin milli Íslands og Túnis eru ekki mikil í dag enda eru tollar almennt háir þar í landi. Ljóst er að mikil tækifæri eru fyrir hendi, ekki síst eftir að fríverslun hefur verið komið á milli EFTA-ríkjanna og Túnis. Reynslan sýnir að viðskipti aukast gjarnan í kjölfar fríverslunarsamninga sem Ísland hefur gert í félagi við hin EFTA-ríkin og hefur slík samningagerð því virkað hvetjandi á viðskipti eins og að hefur verið stefnt.

Að samningi við Túnis meðtöldum og samningi við Líbanon sem Alþingi samþykkti 10. maí síðastliðinn en sem bíður enn fullgildingar Líbana hafa EFTA-ríkin nú komið á fríverslunarsamningum við 14 ríki á yfirráðasvæði með tæplega 290 milljónir íbúa til viðbótar samningum þeirra við Evrópusambandið. Í næsta mánuði er ráðgert að undirrita samning milli EFTA-ríkjanna og Suður-Kóreu.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til síðari umr. og hv. utanríkismálanefndar.