132. löggjafarþing — 22. fundur,  16. nóv. 2005.

Framlagning stjórnarfrumvarpa.

[12:10]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Það er ágæt nýbreytni og vel til fundið hjá hv. formanni Samfylkingarinnar að kveðja sér hljóðs um störf þingsins og tala um störf þingsins en ekki eitthvað allt annað.

Hins vegar eru áhyggjur formanns Samfylkingarinnar af þingstörfum með öllu ástæðulausar vegna þess að þingstörfin ganga ágætlega og það eru engar líkur á öðru en það takist að halda starfsáætlun þingsins og það hefur ekki verið uppþot eða öngþveiti eins og hv. þingmaður talaði um fyrir jólin í mörg, mörg ár. Það hefur tekist að afgreiða fjárlög snemma í desember og ljúka öðrum málum með mjög sómasamlegum hætti vel fyrir jól eins og við þekkjum sem hér höfum verið síðustu ár en hv. þingmaður er sem kunnugt er ekki í þeim hópi sem hefur verið hér síðustu árin.

Mörg frumvörp hafa komið fram, mörg hafa verið afgreidd í ríkisstjórn eða eru til meðferðar í þingflokkum. Síðast í gær var ákveðið í framhaldi af því samkomulagi sem gert var á vinnumarkaðnum að ríkisstjórnin mundi leggja fram tvö mikilvæg frumvörp í kjölfarið á því sem kæmu þá hér til afgreiðslu. Ég á ekki von á öðru en um slík mál verði góð samstaða eins og reyndar um margt annað sem hér er á ferðinni.

Það er ánægjulegt að þingmaðurinn, málshefjandi, skuli hafa svo miklar áhyggjur af því að okkur líði ekki vel í ríkisstjórninni en það er misskilningur. Þetta gengur ágætlega og við kvörtum ekki undan okkar hlutskipti.