132. löggjafarþing — 22. fundur,  16. nóv. 2005.

Framlagning stjórnarfrumvarpa.

[12:16]
Hlusta

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég skil ekki þetta upphlaup út af störfum þingsins. Það er alveg ljóst að þau mál sem búið er að leggja áherslu á t.d. í félagsmálanefnd að fari fram, eru meira og minna samkomulagsmál. Ég á eftir að sjá það að Samfylkingin og Vinstri grænir leggist fyrir þau mál. Ég trúi því ekki fyrr en á tekur að menn ætli að leggjast fyrir samkomulagsmálin sem varð til þess að það var hægt að viðhalda samningunum milli aðila vinnumarkaðarins. Að sjálfsögðu fáum við þau mál hér inn og reynum að vinna þau hratt og vel og ég á von á því að stjórnarandstaðan aðstoði við vinnuna í nefndinni við þessi samkomulagsmál. Það er alger óþarfi, virðulegi forseti, að vera að fara af hjörunum eins og staðan er núna.

Ég veit ekki betur en Samfylkingin hafi verið að flytja hérna mál í gær um að það ætti að stytta hléin sem þingmenn taka frá störfum þó allir viti að við erum ekkert í fríi þó að við séum ekki í þinginu, við erum að vinna annars staðar. Ef í harðbakkann slær verðum við bara að lengja þingið. Þá fellur 9. desember. Þá er okkur engin vorkunn að vinna aðeins lengur í þinginu. Þá klárum við þau mál sem eru svona mikilvæg þó að starfsáætlun hljóði upp á 9. desember eins og hún er núna. Ég vil sjá það að hv. formaður Samfylkingarinnar gangi hér út 9. desember ef ekki er búið að klára t.d. mál um starfsmannaleigurnar. Ég trúi því ekki. Það er algerlega ótímabært, virðulegi forseti, að vera að fara af hjörunum hér núna.