132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Fangaflug bandarísku leyniþjónustunnar.

205. mál
[13:04]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Hv. fyrirspyrjandi spyr hvort utanríkisráðuneytinu sé kunnugt um að flugvélar á vegum bandarísku leyniþjónustunnar með fanga eða meinta hryðjuverkamenn sem hvorki njóta verndar né meðhöndlunar samkvæmt alþjóðasáttmálum hafi farið um íslenska lofthelgi eða notað Keflavíkurflugvöll. Ef svo er, hver væru viðkomandi flugnúmer, hvaðan væri flogið og hvort og hvaða upplýsingar voru veittar um farm og á hvers vegum flugið væri.

Ég vil taka það skýrt fram strax að utanríkisráðuneytinu er ekki kunnugt um flug um íslenska lofthelgi eða Keflavíkurflugvöll af því tagi sem talað er um í fyrirspurninni. Bandarísk stjórnvöld hafa ekki sótt um yfirflugs- eða lendingarleyfi fyrir slíkar flugvélar. Flutningar á föngum sem ekki samræmast alþjóðalögum og skuldbindingum Íslands væru augljóslega í óþökk íslenskra stjórnvalda.

Ég vil rifja upp fyrir þingheim að borgaraleg flugumferð um nær allan heim grundvallast samkvæmt alþjóðasamningum á því að ekki þarf sérstök leyfi til að fljúga um lofthelgi ríkja í friðsamlegum tilgangi með vörur eða fólk, þar með talið fanga. Erlend borgaraleg loftför hafa samkvæmt þessu víðtæka heimild til flugs um íslenska lofthelgi. Íslensk stjórnvöld krefjast ekki frekar en stjórnvöld annarra ríkja upplýsinga um farþega einkaflugvéla sem fara um íslenska lofthelgi eða millilenda hér. Þess má geta að 1.500–2.000 einkaflugvélar fara um Keflavíkurflugvöll á ári hverju og sæta þar hefðbundinni afgreiðslu og eftir atvikum tollskoðun eða landamæraeftirliti.

Um vélar á vegum erlendra stjórnvalda, svokallaðra ríkisloftfara, gildir almennt sú regla að sækja ber um yfirflugs- og lendingarleyfi. Í umsóknum um yfirflugsheimildir og lendingarleyfi ber einungis að greina frá ef hergögn eða hættulegur varningur er um borð en ekki er skylt að greina frá því hvaða fólk kann að vera um borð.

Þegar fyrirspurn þingmannsins barst mér var staðgengill sendiherra Bandaríkjanna boðaður á fund í utanríkisráðuneytinu og honum afhent fyrirspurnin í enskri þýðingu og beðið um svör frá bandarískum stjórnvöldum við því sem þar er spurt um og að þeim snýr. Á fundi í utanríkisráðuneytinu nokkru síðar með fulltrúum bandaríska sendiráðsins í Reykjavík var lýst vonbrigðum með að svör lægju þá ekki fyrir og beðið um skýr og skjót viðbrögð. Síðar þann dag fór sendiherra Íslands í Washington með sömu skilaboð í bandaríska utanríkisráðuneytið. Þar var jafnframt tekið fram að íslensk stjórnvöld gengju út frá því að fangaflutningar sem þessir hefðu ekki átt sér stað enda væri þá brotið gegn alþjóðlegum skuldbindingum Íslands. Óformlega hafa þau svör borist frá Bandaríkjastjórn að Bandaríkin virði fullveldi og lögsögu Íslands í einu og öllu, geri ekki ráð fyrir að Keflavíkurflugvöllur verði notaður í þeim tilgangi sem um er spurt og loks að kæmi slíkt til álita mundu bandarísk stjórnvöld fyrst eiga um það samráð við íslensk stjórnvöld.

Að mínum dómi eru þessi svör því miður alls ekki fullnægjandi enda er þeirri spurningu ósvarað hvort umræddir flutningar hafi átt sér stað eða ekki. Bandarískum stjórnvöldum hefur verið gerð grein fyrir þessari afstöðu minni og ítarlegri svara krafist. En eins og kunnugt er hafa fleiri lönd krafist svara hjá Bandaríkjamönnum um þessi mál auk þess sem skyld mál hafa einnig verið til umræðu og umfjöllunar á Bandaríkjaþingi.

Þingmaðurinn spyr einnig hvort ráðherra telji meðferð fanga sem hvorki njóta verndar og réttinda sem venjulegir borgarar né sem stríðsfangar, eins og gilda mun um fanga í Guantanamo-fangabúðunum á Kúbu, vera brot á alþjóðalögum. Hann spyr hvort íslensk stjórnvöld muni meina flugvélum með fanga eða meinta hryðjuverkamenn sem þannig eru meðhöndlaðir aðgang að íslenskri lofthelgi og afnot af íslenskum flugvöllum ef svo væri.

Hvað þessa spurningu varðar liggur fyrir, m.a. eftir umræður á Alþingi síðast í mars á þessu ári, að íslensk stjórnvöld leggja áherslu á að Bandaríkjamenn sem aðrir fari í einu og öllu eftir gildandi mannúðar- og mannréttindalögum. Hér er m.a. um að ræða alþjóðasamning um bann við pyndingum og annarri ómannúðlegri meðferð og Genfarsamningana, en í þeim felast grundvallarreglur alþjóðlegra mannúðarlaga á stríðstímum og reglur um meðferð stríðsfanga.

Þá hafa íslensk stjórnvöld tekið bæði formlega og óformlega upp málefni fanganna í Guantanamo við bandarísk stjórnvöld og lýst áhyggjum vegna stöðu fanganna. Af þessu er ljóst að íslensk stjórnvöld mundu ekki heimila flug af því tagi sem um er talað í fyrirspurninni um íslenska lofthelgi eða leyfa slíkum flugvélum afnot af íslenskum flugvöllum.