132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Veggjöld.

150. mál
[13:57]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er augljóslega freistandi hverju sinni að fara veggjaldaleiðina til að koma fram stórbrotnum vegaframkvæmdum. En um leið er það ákaflega háskaleg þróun af því að í því felst mismunun milli íbúa á mismunandi svæðum. Menn hljóta því að kalla eftir því að fyrir liggi almenn stefnumörkun áður en menn viðra hugmyndir eins og þá að leggja Sundabrautina og nota til þess veggjöld. Á kannski að nota veggjöld í Héðinsfjarðargöngunum? Er það hugmyndin? Ég veit það ekki. Það verður að fara fram almenn stefnumörkun á þessu sviði áður en umræða um einstakar framkvæmdir fer fram.

Það er ástæða til að ítreka fyrstu spurningu hv. fyrirspyrjanda. Það hefur ítrekað verið bent á að fram verði að koma almenn stefnumörkun um veggjöld af samgöngumannvirkjum. Án þess, þegar sá kostur er nýttur við eina framkvæmd en ekki aðra, verður svæðum og íbúum mismunað og það er háskaleg þróun.