132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Herflugvélar yfir Reykjavík.

202. mál
[14:33]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Frú forseti. Ég tek undir þær athugasemdir sem hér komu fram hjá hv. þm. Merði Árnasyni um herflugvélar sem flugu hér yfir þann 16. september.

Mér finnst þetta ekki aðeins óæskilegt heldur vil ég halda því fram að það ætti hreinlega að banna herþotum að koma og lenda á Reykjavíkurflugvelli. Ég er einnig hugsi yfir þeim mikla fjölda af einkaþotum sem lenda á Reykjavíkurflugvelli. Hvers vegna segi ég þetta? Jú, ég er þeirrar skoðunar að innanlandsflugvöllurinn verði að vera áfram í Vatnsmýrinni og hluti af því að mynda sátt um að völlurinn verði þar sé að hann þjóni innanlandsfluginu og sé varaflugvöllur, t.d. fyrir sjúkraflug, þyrlusjúkraflug. Við eigum við að minnka aðra umferð sem mest. Lending herflugvéla á alls ekki að eiga sér stað. Einkaþotunum vil ég ráðstafa þannig að þær lendi í Keflavík og séu þar. Þeir sem nota þær keyrðu bara þar á milli.

Ég vildi nota síðustu sekúndurnar og spyrja hæstv. samgönguráðherra um kennsluflugið og snertiflugið, snertilendingarnar sem einu sinni var talað um að ættu að fara úr Vatnsmýrinni: Hefur það gengið eftir?