132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Herflugvélar yfir Reykjavík.

202. mál
[14:34]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Þetta er orðin næsta kómísk umræða. Er það kannski innlegg í kosningabaráttu Frjálslynda flokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar í Reykjavík sem hv. þm. Magnús Þór Hafsteinsson segir að það sé framlag okkar til NATO og varnarbandalags, að kalla hingað til Reykjavíkur sveitir erlendra herflugvéla og leyfa þeim að fara í lágflugi yfir miðborg Reykjavíkur og æra fólk og skelfa börn? Hundar stökkva út um allar þorpagrundir af ótta. Heldur hv. þingmaður að þetta kunni að verða til þess að Reykvíkingar flykkist að baki flokki hans í næstu kosningum? Ég held varla. Ég held að hv. þingmaður eigi með einhverjum hætti öðrum að tjá ást sína á þátttöku okkar í varnarbandalaginu.

Hins vegar vil ég segja að ég hef aldrei heyrt skondnari rök en hæstv. samgönguráðherra færði áðan fyrir því að flugvöllur ætti áfram að vera í Reykjavík. Það er vegna þess að hann á að vera varaflugvöllur fyrir orrustuvélar sem geta hvergi lent. Heyr á endemi. Er þá ekki betra að setja upp alþjóðlegan varaflugvöll t.d. á Þingeyri eða annars staðar, hæstv. samgönguráðherra?