132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Breikkun Suðurlandsvegar.

227. mál
[14:58]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Hv. þm. Björgvin Sigurðsson hefur með einhverjum undarlegum hætti leitað allra leiða til þess að draga í efa þá geysilega góðu og miklu samgöngubót sem verið er að vinna að á Suðurlandsvegi. Það kom greinilega fram í ræðu hans, þegar hann mælti fyrir þessari fyrirspurn, og í blaðaviðtölum og greinum sem hann hefur sett fram talar hann um samgöngumistök og samgönguslys. Ég verð að viðurkenna að þar sem um er að ræða þingmann úr umræddu kjördæmi þá er ég mjög undrandi á þeim málflutningi hans að reyna að draga úr þeim endurbótum og vekja óhug og áhyggjur fólks vegna þessara mannvirkja.

Engu að síður vil ég svara hv. þingmanni sem spyr í fyrsta lagi: „Var gert ráð fyrir því við hönnun á breikkun Suðurlandsvegar að víraleiðari yrði notaður til að skilja á milli akreina þar sem vegurinn verður þríbreiður (2+1)?“

Svar mitt er: Vegurinn var hannaður með það fyrir augum að hægt væri að skipta honum eftir akstursstefnu með víravegriði, 14 metra breiður. Þegar ljóst varð að fé til verksins var af skornum skammti var ákveðið að ekki skyldi sett upp víravegrið að sinni. Því var þó breytt á byggingarstigi og víravegrið sett á veginn. Þetta er staðreynd málsins og það var ákvörðun mín að gengið skyldi til verka með þeim hætti sem hér segir og gert ráð fyrir frá upphafi að vegurinn yrði 14 metra breiður.

Í annan stað er spurt: „Hver er meðalbreidd vegaxla á þríbreiðum vegum með víraleiðara í Svíþjóð og hver er meðalhallinn niður af vegunum á hverja 6 metra út?“

Svar mitt er: Breidd vegaxlar er hálfur metri þeim megin sem tvær akreinar liggja í sömu átt en einn metri þeim megin sem akreinin er ein. Hliðarflái vegarins er 1:3, þ.e. á hverjum 6 metrum út er hæðarmunur 2 metrar.

Í þriðja lagi er spurt: „Hver er meðalbreidd vegaxla á þríbreiðum vegum með víraleiðara í Svíþjóð og hver er meðalhallinn niður af vegunum á hverja 6 metra út?“

Svar mitt er: Í Svíþjóð eru, samkvæmt sænskum staðli, nýir 2+1 vegir byggðir 14 metra breiðir með axlarbreidd 0,5 metrar þeim megin sem tvær akreinar liggja á sömu átt en einn metra þeim megin sem akreinin er ein. Hliðarflái vegarins er mismunandi, hann er 1:6 á vegum í hæsta gæðaflokki en 1:4 í þeim næsta. Þessi flái nær um það bil 5–10 metra út frá vegarkanti en ekki endilega niður að jarðbyrði.

Í fjórða lagi er spurt: „Liggur fyrir áætlun um hvenær breikkun Suðurlandsvegar lýkur?“

Svar mitt er: Í vegáætlun frá 2005–2008 er 311 millj. kr. fjárveiting árið 2007 áætluð til breikkunar á veginum. Miðað er við að þá verði sá hluti vegarins á Hellisheiði sem er tvær akreinar breikkaður og síðan frá Litlu kaffistofu niður á Sandskeið eftir því sem fjárveitingin endist. Þá á eftir að breikka veginn frá Lögbergsbrekku að Vesturlandsvegi og liggur ekki fyrir tímasetning á þeirri framkvæmd en að þessum mikilvægu framkvæmdum öllum er verið að huga, bæði hjá Vegagerðinni og í ráðuneytinu og við munum leggja ríka áherslu á að okkur megi takast að gera endurbætur á þessum fjölförnu leiðum um Suðurlandsveg og um Vesturlandsveg með sama hætti og við leggjum ríka áherslu á að tvöfalda Reykjanesbrautina, hina mikilvægu leið til millilandaflugvallarins héðan frá höfuðborgarsvæðinu.

Þetta er mitt svar, virðulegi forseti, og ég vænti þess að það sé nokkur huggun harmi gegn fyrir hv. þingmenn að mikið er lagt upp úr því að uppbygging vegarins sé í góðu samræmi við gildar reglur.