132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Breikkun Suðurlandsvegar.

227. mál
[15:03]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Frú forseti. Fjölförnustu stofnleiðir að og frá höfuðborginni eru Reykjanesbraut, Suðurlandsvegur og Vesturlandsvegur. Það hefur verið forgangsverkefni að taka á þeim umferðarvandamálum sem í kringum þær hafa skapast og þarf ekki að hafa mörg orð um þann árangur sem náðst hefur með tvöföldun Reykjanesbrautar. Vel miðar með Vesturlandsveg og þær samgöngubætur með breikkun Suðurlandsvegar sem náðust í vetur hljóta að vera fagnaðarefni. Þar var mikil samstaða þingmannahópsins í ágætu samstarfi við hæstv. ráðherra og Vegagerðina.

Víraleiðari á síðustu stundu kann að hafa breytt forsendum og er auðvitað mál sem þarf að fara yfir. Ég tel það vera áherslumál að ljúka þessu verki. Við endurskoðun samgönguáætlunar næsta haust hlýtur það að vera eitt af forgangsmálunum að taka Suðurlandsveg vegna þeirrar miklu umferðar sem þar er, ekki síst vegna sumarbústaða og fjölgun íbúa. Geri ég ráð fyrir að haldið verði áfram með uppbygginguna 2+1 með möguleika á tvöföldun.