132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Siglufjarðarvegur um Almenninga.

243. mál
[15:18]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Það eru gömul sannindi og ný að jarðsig eru á Almenningum á Siglufjarðarvegi en vegurinn þar er býsna góður. Ég keyri þennan veg oft, hann er greiðfær öllum bílum og er með bundnu slitlagi. Eins og hæstv. ráðherra hefur sagt er viðhald vegarins ekkert miklu meira en meðalviðhald, a.m.k. segja menn í Vegagerðinni það.

Ég tel að þessari fyrirspurn sé ekki beint til höfuðs Héðinsfjarðargöngunum, enda hefur Vinstri hreyfingin – grænt framboð lýst yfir stuðningi sínum við Héðinsfjarðargöng. Og svo er það þannig að Siglfirðingar horfa til austurs, þeir horfa til aukinnar samvinnu við allt Eyjafjarðarsvæðið og ekki síst við byggðir við utanverðan Eyjafjörð í mörgum málum. Við fögnum að sjálfsögðu stuðningi vinstri grænna við þá framkvæmd og ég vil taka undir þann málflutning sem hv. þingmenn hafa viðhaft hér í sölum Alþingis hvað það mál varðar.