132. löggjafarþing — 23. fundur,  16. nóv. 2005.

Umferð vélknúinna farartækja í ósnortinni náttúru.

241. mál
[18:17]
Hlusta

umhverfisráðherra (Sigríður A. Þórðardóttir) (S):

Frú forseti. Það er rík hefð og réttur fyrir því að almenningur geti farið um vötn. Er það m.a. bundið í vatnalög þar sem segir í 115. gr., með leyfi forseta: „Öllum er rétt að fara á bátum og skipum um öll skipgeng vötn.“

Í náttúruverndarlögum er vísað til þess að þetta ákvæði gildi um umferð um ár og vötn. Þrátt fyrir þessa skýru og opnu heimild eru möguleikar á takmörkunum þar á. Hér má nefna hljóðvistarákvæði laga nr. 7 frá 1998, um hollustuhætti og mengunarvarnir, og hávaðareglugerð nr. 933 frá 1999. Því verður ekki neitað að ákveðinn galli felst í því að ekki sé minnst á óbyggð svæði, einungis byggð, þar með talið sumarhúsabyggð. Þar er tilgreindur hámarkshávaði frá umferð upp á 45 desíbel en með fráviksheimild allt upp í 70 desíbel. Á nokkrum friðlýstum svæðum eru settar takmarkanir á umferð vélknúinna báta svo sem á Vestmannsvatni. Það kann hins vegar að vera ástæða til að setja slíkar reglur á fleiri afmörkuðum svæðum, svo sem vegna náttúruverndar og grenndarsjónarmiða og nærgætni við íbúa eða frístundabyggð. Þó verður auðvitað að hafa í huga rétt manna til umferðar á bátum svo sem þeim sem nýttir eru til hefðbundinna nytja eins og veiða. Jafnframt ber ætíð að hafa í huga ævafornan almannarétt um för á vötnum sem hlýtur þó að takmarkast að einhverju leyti af öðrum hagsmunum og rétti almennings til að upplifa og njóta náttúru og útivistar án þess að skerða möguleika annarra til hins sama.

Hvað snertir akstur utan vega hefur óneitanlega verið svo að hann hefur verið vandamál, ekki síst á hálendinu þar sem landið er mjög viðkvæmt. Reglur hafa reynst vera ónákvæmar þar sem kveðið hefur verið á um að akstur utan vega þar sem náttúruspjöll geti hlotist af sé bannaður. Reynslan hefur sýnt að erfitt hefur verið að fylgja eftir ákvæðum reglugerða og fá dóma fyrir meint brot. En til að skýra þessi ákvæði var reglugerðin endurskoðuð síðastliðið vor og ný reglugerð sett um takmarkanir á umferð í náttúru Íslands. Markmið hennar er að tryggja að umgengni um náttúruna sé með þeim hætti að ekki hljótist af náttúruspjöll og stuðla að verndun hinnar viðkvæmu náttúru Íslands. Meginreglan er sú að bannað er að aka vélknúnum ökutækjum utan vega í náttúru Íslands en þó er heimilt að aka vélknúnum ökutækjum á jöklum, svo og snæviþakinni og frosinni jörð svo fremi að ekki skapist hætta á náttúruspjöllum.

Akstur útlendinga á eigin bílum, eða bílaleigubílum, hefur aukist umtalsvert á undanförnum árum. Því miður eimir enn eftir af því að í auglýsingum sé beint eða óbeint gefið til kynna að akstur utan vega hér á landi sé sjálfsagður. Til að sporna við þessu hefur Umhverfisstofnun gefið út bækling sem hefur verið dreift á bílaleigur og í ferjuna Norrænu. Jafnframt hafa landverðir reynt að upplýsa og fræða fólk, bæði um gildandi reglur og líka um hversu viðkvæmt svæði sé um að ræða. Þá hefur Umhverfisstofnun fundað með ríkislögreglustjóra og í framhaldi af þeim fundi og með hliðsjón af skýrari reglum var eftirlit lögreglu með akstri utan vega aukið umtalsvert í sumar. Auk þess stóð Ferðafélag Fljótsdalshéraðs fyrir umfangsmikilli og vandaðri kynningu í sumar á því að akstur utan vega er bannaður. Félagið gerði þetta í samvinnu og með dyggum stuðningi mjög margra aðila, svo sem lögregluyfirvalda, Umhverfisstofnunar, bílaleigna, tryggingafélaga og umhverfisráðuneytisins. Ég tel að það hafi verið mjög til fyrirmyndar hvernig félagið stóð að þessari kynningu sinni og lét útbúa alls konar efni til að dreifa til ferðamanna.