132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:21]
Hlusta

utanríkisráðherra (Geir H. Haarde) (S) (andsvar):

Frú forseti. Í ræðu minni er fjallað um uppbygginguna sem á sér stað í Írak og henni fagnað. Allir lýðræðislega sinnaðir menn hljóti að sjálfsögðu að fagna því að þrátt fyrir erfiðleikana og átökin í Írak skuli nú vera að takast að byggja þar upp lýðræðislegt stjórnkerfi þar sem almenningur í landinu fær að velja sér forustumenn ólíkt því sem áður var þar í landi og því miður víðar í þeim heimshluta.

Mér dettur ekki í hug að bera blak af brotum á mannúðarlögum eða alþjóðlegum samningum um meðferð fanga. Ég segi eins og áðan: Ég hef ekki staðfest dæmi í höndum um að slíkt hafi átt sér stað. Það liggja fyrir alls kyns fullyrðingar um það og Bandaríkjamenn verða sjálfir að hrekja það slyðruorð af sér og bera af sér þær sakir. En ef þeir eru sekir um slíkt er það vissulega þeim til mikillar minnkunar.

Það sem skiptir hins vegar mestu máli varðandi Írak er, eins og ég sagði áðan, að þar takist að byggja upp lýðræðislegt stjórnkerfi, samþykkja nýja stjórnarskrá, hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um hana og efna síðan til þingkosninga síðar á þessu ári. Þetta er atburðarás sem fáir hefðu trúað að gæti orðið raunin á svona stuttum tíma. Það er verkefni allra lýðræðislega sinnaðra manna að reyna að hjálpa til við slíka þróun í heiminum en ekki að grafa undan henni.