132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[17:01]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Við ræðum skýrslu hæstv. utanríkisráðherra um utanríkismál. Ég vil fyrst í ræðu minni víkja að nokkrum spurningum sem ég vil leggja fyrir ráðherrann varðandi ákveðin atriði.

Það er í fyrsta lagi varðandi landbúnaðarmálin. Hv. þm. Helgi Hjörvar kom aðeins inn á þau orð í skýrslunni sem lúta að því að verið sé að taka upp viðræðurnar við Evrópusambandið um viðskipti með búvöru á grundvelli EES-samningsins.

Þegar sá samningur var gerður á sínum tíma voru ákveðnir kaflar undanþegnir. Við gerðumst ekki aðilar t.d. að kaflanum sem laut að sameiginlegu dýraheilbrigði og verslun með hrátt kjöt og reyndar lifandi dýr. Það var m.a. á þeim forsendum að við töldum mikla hagsmuni í húfi að reyna að halda íslenskum búfjártegundum, sauðfé, nautgripum og hrossum, svo dæmi séu tekin, sjúkdómsfríum og forðast innflutning á hættulegum sjúkdómum sem viðgangast í stofnum erlendis en mundu valda miklum usla ef þeir kæmu hingað. Auk þess líka eru miklir útflutningshagsmunir í húfi því að við vitum að útflutningur á kjöti t.d. til Bandaríkjanna er háður því að við getum sýnt fram á að hér sé fullkomlega heilbrigt kjöt, ekki sé hætta á að hérna hafi á neinn hátt borist t.d. riðusmit eða Creutzfeldt-Jacobs sjúkdómur eða neitt slíkt í íslenskar matvörur. Bandaríkin eru mjög ströng á þessu og innflutningur frá mörgum Evrópusambandsríkjum er ekki heimill til Bandaríkjanna ef grunur leikur á um að þessir sjúkdómar séu þar. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að við erum ekki aðilar að þeim þætti í samningnum við Evrópusambandið.

Ég vil því spyrja ráðherrann: Er ætlunin að fara að taka þessa þætti upp, þ.e. að rýmka á innflutningi á hráu kjöti, á lifandi dýrum sem gætu m.a. aukið þá smithættu sem ég nefndi og ógna þeirri hreinleikamynd íslenskra landbúnaðarafurða sem skiptir okkur miklu máli? Ég þykist minnast þess að hæstv. landbúnaðarráðherra hafi lýst því yfir í ræðu á síðasta vetri að ekki stæði til af hálfu landbúnaðarráðherra að slaka neitt þar á. Ég vil heyra þetta alveg skýrt hjá hæstv. utanríkisráðherra hvort meiningin sé að fara að slaka á varðandi þann kafla sem lýtur að verslun með dýr og landbúnaðarafurðir og eftirlit með dýraheilsu sem við hingað til höfum verið undanþegin. Ég mundi telja það mjög alvarlegt ef svo væri.

Þá vil ég líka inna hæstv. utanríkisráðherra enn frekar eftir því hvernig staðan er í viðræðum við WTO í sambandi við landbúnaðinn. Eins og fram hefur komið mjög rækilega þegar verið er að kynna þær kröfur sem þar eru uppi er verið að krefjast þess að felldir verði niður að stórum hluta framleiðslutengdir styrkir eða stuðningur til landbúnaðarframleiðslu, magntengdur stuðningur sem við höfum jöfnum höndum flokkað sem stuðning við búvöruframleiðsluna og einnig sem stuðning við neytendur. En það er einmitt þessi magntengdi stuðningur sem við höfum eða íslensk stjórnvöld hafa gjarnan stuðlað að og staðið fyrir gagnvart íslenskum landbúnaði sem á samkvæmt þeim hugmyndum sem liggja fyrir í viðræðum við WTO að skera niður. Gerist það mun það hafa verulegar afleiðingar fyrir þá pólitík sem rekin hefur verið gagnvart íslenskum landbúnaði. Því er mjög mikilvægt að þarna sé ekki verið að hugsa í sitt hvora áttina hvað varðar stuðning við landbúnaðinn.

Lögð er áhersla á frjáls viðskipti með landbúnað og þegar menn ræða um frelsi í viðskiptum með landbúnað getur það verið býsna flókin umræða.

Ég leyfi mér að vitna í grein sem Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur Bændasamtakanna, skrifar í Bændablaðið um miðjan október, með leyfi forseta, þar sem verið er að ræða þessi mál:

„Viðræður um viðskipti með landbúnað eru einn þáttur af mörgum í þeim samningum en um leið afar mikilvægur. Hagsmunir eru mjög flóknir og alhæfingar því varasamar.“

Þarna er verið að vitna til þess að mjög mikilvægt sé að opna á allan flutning á landbúnaðarvörum á milli landa.

Áfram segir í greininni:

„Þannig njóta mörg af allra fátækustu ríkjum heims sérkjara í viðskiptum við ríkar þjóðir eins og ESB sem m.a. felast í tollfrelsi á búvörum. Þessum þjóðum stendur viss ógn af því að bæta á markaðsaðgang annarra ríkja að þessum mörkuðum svo dæmi séu tekin. Þá er það næsta víst að það eru alþjóðleg fyrirtæki“ — og ég vek athygli forseta á því — „sem eru fyrst og fremst að hagnast á þessu aukna frelsi. Bændur víða um heim gerast í vaxandi mæli ráðsmenn eða leiguliðar stórfyrirtækja og þeim eru skömmtuð kjör úr hnefa þeirra. Aukið frelsi í viðskiptum með búvörur mun styrkja frekar þá þróun.“

Ég vek sérstaklega athygli á því, frú forseti, að þetta er nú ekki svo einhlítt eða þegar verið er að lofa fullkomnu frelsi, frelsi sem nýtist fyrst og fremst hinum sterku, hinum ríku, þeim sem eru að leggja undir sig störf og verkefni annarra og erum við kannski að fá að hluta til þessa þróun hingað upp á Ísland þar sem ríkir lögaðilar safna undir sig jörðum undir því yfirskini að þykjast ætla að framleiða búvöru sem stórrekstur á þann hátt. (HBl: … menningarmiðstöð fyrir austan.) Ég er meira að segja viss um, frú forseti, að hv. þm. Halldór Blöndal, sem grípur hér fram í, mundi ekki vilja sjá íslenskan landbúnað verða að hreinum verksmiðjubúskap í höndum örfárra aðila og bændur úti um allt land mundu verða lagðir niður sem slíkir og verða orðnir leiguliðar á jörðum sínum, sem gæti orðið hér á landi ef sú stefna yrði tekin sem verið er að innleiða að hluta til í umræðunni í WTO.

Ég vil spyrja hæstv. utanríkisráðherra: Hvernig standa þær viðræður hvað þetta varðar og hvernig er þá tekið mið af því í íslenskri landbúnaðarpólitík?

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um eitt atriði enn, þ.e. varðandi þjónustu sendiráða erlendis. Því miður gerðumst við aðilar að svokölluðu Schengen-samkomulagi sem þýddi að við framseldum ákveðinn hluta af utanríkisþjónustu okkar til þeirra ríkja sem eru aðilar að því. Það fólst m.a. í því að íslensk sendiráð önnuðust ekki lengur að gefa út vegabréfsáritanir í heimsókn til Íslands heldur fólu það að mig minnir dönskum sendiráðum. Þetta var tekið úr íslensku sendiráðunum. Ég get rakið mýmörg dæmi um það hversu torvelt og hversu mikil skriffinnska það hefur reynst fyrir fólk sem vill sækja Ísland heim og þarf að fá áritun að þurfa að fara í gegnum önnur sendiráð en íslensk til þess að fá þá áritun. Tökum London, ég þekki dæmi þar að það er margra vikna bið að fá áheyrn hjá danska sendiráðinu til þess að mega sækja um áritun til Íslands. Ég þekki dæmi frá Moskvu þar sem sama er uppi og ég get nefnt fleiri dæmi víða um heim sem ég þekki til og mér hefur verið tjáð hversu torvelt og mikil skriffinnska það er og seinvirkt að fá áritun til Íslands vegna þess að áritunin fer í gegnum í flestum tilvikum dönsk sendiráð.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki séu áætlanir um að taka þessa þjónustu alfarið aftur til íslenskra sendiráða, a.m.k. í þeim löndum þar sem við höfum íslensk sendiráð, þau annist útgáfu vegabréfsáritana til landsins. Mér finnst það ótækt að fela slíka mikilsverða þjónustu, hluta af fullveldi landsins erlendum sendiráðum. Við vorum að auka fjármagn til sendiráðanna á fjáraukalögum um nærri 300 millj. kr. og ég vona að það sé fjármagn til þess að sendiráðin geti innt þetta af hendi. Engu að síður er þetta mikilvægt og ég spyr hæstv. ráðherra um þetta mál.

Það var mjög athyglisvert að heyra ræðu hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur um stefnu Framsóknarflokksins í Evrópumálum. Ég á því láni að fagna að þekkja marga góða framsóknarmenn, a.m.k. sem voru eitt sinn framsóknarmenn, ég býst við að margir þeirra séu hættir að vera framsóknarmenn núna. Þeim hefur síður en svo hugnast sú stefnubreyting sem er að verða í Framsóknarflokknum, m.a. það hversu dælt hann er að gera sér við hugsanlega inngöngu í Evrópusambandið. Ég heyri ekki betur en að hv. þingmaður væri einmitt að leggja áherslu á að aukinn þrýstingur væri, aukinn áhugi, nálgunaráhugi innan Framsóknarflokksins við Evrópusambandið, sem þýddi í rauninni bara aðildaráhugi.

Ég velti því fyrir mér hvað fer að verða eftir af hinum gömlu gildum Framsóknarflokksins. Formaður Framsóknarflokksins var annar aðilinn sem tók ákvörðun um innrásina í Írak. Það hefur verið aðalsmerki íslensku þjóðarinnar eftir að hún hlaut sjálfstæði að vera ekki aðili að hernaðarátökum og allra síst þeir framsóknarmenn sem ég þekki og voru eitt sinn framsóknarmenn mundu hafa stutt innrásina í Írak. Og nú þegar til viðbótar koma inngönguvæntingar í Evrópusambandið er mér spurn: Er kapphlaupið um miðjuna eða að vera hægra megin við miðjuna svona mikið hjá Framsókn að þetta er líka að falla? Að Framsóknarflokkurinn og Samfylkingin muni hafa kapphlaup um aðildarumsóknir að Evrópusambandinu á næstunni.

Ég hef minnst á innrásina í Írak og það hefur komið fram í umræðum að stjórnmálamenn og leiðtogar víða um heim sem voru meira að segja hallir undir og studdu innrásina í Írak á sínum tíma hafa jafnvel beðist afsökunar og harmað aðild að henni. Það hafi verið gert af misskilningi og á röngum forsendum. Við heyrum að Bush Bandaríkjaforseti á verulega undir högg að sækja og hefur aldrei verið óvinsælli en nú einmitt vegna innrásarinnar í Írak. Þá hlýtur maður að bíða eftir því að íslenskir forustumenn í stjórnmálum, hæstv. forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, sem stóð að því að styðja viljayfirlýsingu um innrásina í Írak og hæstv. utanríkisráðherra og núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins sem hlýtur að axla ábyrgð fyrirrennara síns á innrásinni í Írak. Hvenær er að vænta að þeir biðji þjóðina afsökunar á þeim hryllilega gjörningi að styðja innrásina í Írak?