132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[18:14]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst þarf hv. þingmaður að vita hvernig ég vildi gera hlutina og ekki leggja mér orð í mun eða gera mér upp skoðanir. Ég talaði aldrei um og hef aldrei talað um að EES-samningurinn yrði okkur til bölvunar og vandræða. Ég var þeirrar skoðunar að heppilegra hefði verið fyrir Ísland að ganga frá samskiptum sínum við Evrópusambandið með öðrum hætti, þ.e. að reyna að fá fram einfaldari samning um viðskipti og samvinnu sem hefði í öllum aðalatriðum getað byggt á viðskiptaþáttum EES-samningsins en hefði ekki falið í sér það mikla framsal á ákvörðunarvaldi og ekki þá miklu sjálfvirku yfirtöku ákvarðana, tilskipana og reglna frá Evrópusambandinu sem EES-samningurinn, því miður, hefur fólgna í sér. Ég var þeirrar skoðunar og er þeirrar skoðunar enn að það sé mjög hæpið að EES-samningurinn hafi staðist eða standist íslensku stjórnarskrána. Ég vek athygli hv. þingmanns á því að flestir fræðimenn eru að verða í vaxandi mæli þeirrar skoðunar að sennilega hafi hann ekki gert það eða geri það a.m.k. ekki í dag.

Ég held sem sagt að ástandið hér gæti verið alveg prýðilegt ef farin hefði verið sú leið að reyna að leita eftir því við Evrópusambandið að ná fram einfaldari samningum um viðskipti og samvinnu sem hefðu hentað betur okkar aðstæðum. Ég sé enga ástæðu til að óttast annað en að það hefði getað gefist ágætlega. Ég kannast ekki við að Sviss hafi farið á hausinn þó að þeir hafi ekki gengið í Evrópusambandið og þó að þjóðin hafi fellt EES-samninginn. Þeir hafa þar af leiðandi þróað sín samskipti á öðru spori. Þeir hafa gert tvíhliða samninga um einstök mál við Evrópusambandið og það hefur gengið alveg þokkalega. Þeir hafa reynst hafa mjög sterka samningsstöðu reyndar í því máli.

Það var ekki ætlun mín að tala óvirðulega um samningsmarkmiðin sem slík. Ég er einfaldlega að segja að ég hef ekki skilið þetta mikla tal og þessa miklu áherslu sem menn leggja á vinnu við að skilgreina samningsmarkmið Íslands af þeirri ástæðu að samningssvigrúmið er svo lítið. Það er um svo lítið að semja. Þetta gengur í aðalatriðum út á það að ganga í Evrópusambandið eða gera það ekki. Þeir sem hafa verið að gera skýrslur undanfarin ár og meta áhrifin af inngöngu Íslands í Evrópusambandið hafa talið sig geta gert það. Þeir eru í raun að segja með niðurstöðum sínum: Það er svo lítið sem breytist í gegnum einhverjar samningaviðræður af því að samningssvigrúmið er svo lítið að við getum í öllum aðalatriðum lagt mat á það hvað (Forseti hringir.) sé fólgið í því, þ.e. kosti þess og galla að ganga í Evrópusambandið eða gera það ekki.