132. löggjafarþing — 24. fundur,  17. nóv. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[18:18]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi aðstæður þegar EES-samningurinn var í undirbúningi þá verða menn að hafa í huga að það var síður en svo sjálfgefið eins og málin þróuðust að Ísland veldi þann kost að ganga alla leið og byggja á EES-samningnum, m.a. vegna þess að þegar lagt er af stað eru þetta samningar milli hóps EFTA-ríkja, svokölluð tveggja stoða leið. Síðan raskast það jafnvægi allt saman með því að ljóst verður að Austurríki, Svíþjóð og Finnland stefna inn í Evrópusambandið. Reyndar gátu menn jafnvel búist við að Noregur gerði það líka. Þá fannst mér merkilegt að ekki skyldi athugað betur hvort Ísland ætti þá ekki strax a.m.k. að hafa svona plan B og það hefði að mínu mati átt að vera að leita eftir einfaldari samningum um viðskipti og samvinnu. Reyndar var það lengi stefna Sjálfstæðisflokksins, vel að merkja, að það skyldi gert eða þangað til hann sneri við blaðinu eftir að hann komst í ríkisstjórn 1991, keypti kannski Viðeyjarstjórnina því verði að kúvenda í þeim efnum.

Varðandi samningsmarkmið og slíka hluti þá vil ég leggja áherslu á tvennt í því efni. Það fyrra er að samningssvigrúmið er svo lítið. Ég tel að það sé svolítið villandi að gera svona mikið úr því — eins og framsóknarmenn og samfylkingarmenn gera að mínu mati aðallega út úr vandræðum sínum því þeir verða eitthvað að gera mennirnir í þessu Evrópumáli. Það er bara eitthvað á sálinni — að það sé svo gríðarleg vinna að skilgreina samningsmarkmiðin af því að samningssvigrúmið er svo lítið. Þetta snýst um að ganga eða ganga ekki inn.

Hið síðara er að það er mikill misskilningur að menn geti farið í aðildarviðræður og samningaviðræður við Evrópusambandið bara í einhverju gríni án þess að hugur fylgi máli. Halda menn að Evrópusambandið taki vel á móti mönnum sem koma og segja í Brussel: „Við ætlum að fá ykkur til að semja við okkur um mögulega aðild okkar. Svo ætlum við að sjá hvað það er, hvort það er nógu gott.“ (Forseti hringir.) Nei, menn fara ekki í samningaviðræður við Evrópusambandið nema þeir ætli að ganga þar inn, að því auðvitað tilskildu að niðurstaðan verði þolanleg.