132. löggjafarþing — 25. fundur,  18. nóv. 2005.

Lenging fæðingarorlofs.

134. mál
[11:04]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Katrín Júlíusdóttir hefur beint til mín fyrirspurn í nokkrum liðum um lengingu fæðingarorlofs.

Í fyrsta lagi spyr þingmaður hvort að til greina komi að lengja fæðingarorlof enn frekar, t.d. í 12 mánuði þar sem móðir fengi fimm mánuði, faðir fimm mánuði og sameiginlega fengju foreldrar tvo mánuði.

Ég kýs, hæstv. forseti, að svara þessari spurningu þannig að auðvitað tel ég lengingu fæðingarorlofs koma til greina. Hins vegar tel ég ekki tímabært að leggja drög að frekari lengingu. Fyrir því eru ýmsar ástæður. Ég vil fyrst nefna að það eru ekki nema um fimm ár síðan lögin um Fæðingarorlofssjóð voru samþykkt á Alþingi. Fljótlega eftir að þau voru komin til fullrar framkvæmdar reyndist nauðsynlegt að leggja til ýmsar breytingar á þeim. Ég nefni sérstaklega að útgjöld sjóðsins voru mun meiri en upphaflega hafði verið gert ráð fyrir.

Við þessu þurfti að bregðast og það hefur gert með ýmsum hætti eins og þingmönnum er kunnugt. Ég tel mikilvægast að nú verði haldið þannig á málum að fjármál sjóðsins komist í jafnvægi og við öðlumst reynslu af nýlegum breytingum á lögum um sjóðinn áður en við tökum frekari skref til breytinga. Rétt er að árétta að áhrifin af þeirri breytingu sem gerð hefur verið á viðmiðunartímabili launa koma ekki að fullu fram fyrr en á fyrri helmingi ársins 2006 þannig að við eigum enn eftir að sjá hver raunveruleg áhrif þeirra breytinga verða.

Í öðru lagi spyr þingmaðurinn um kostnaðinn sem mundi leiða af þeirri breytingu sem fyrsta spurning þingmannsins fjallar um.

Óskað hefur verið eftir mati Tryggingastofnunar ríkisins á þessu atriði en stofnunin fer með daglegan rekstur Fæðingarorlofssjóðs. Í svari stofnunarinnar kemur fram að niðurstaðan fari eftir þeim forsendum sem byggt er á að sjálfsögðu. Stofnunin telur eðlilegast að byggja á reynslu af framkvæmd laganna. Hún leiðir í ljós að algengast er að mæður nýti sinn sjálfstæða rétt og sameiginlega réttinn til viðbótar en flestir feður nýti eingöngu þann þriggja mánaða sjálfstæða rétt sem þeir hafa. Sé gengið út frá þessari forsendu og óbreyttu kerfi, þ.e. að konur hafi sjálfstæðan rétt til þriggja mánaða orlofs, það sama gildi um karla og að sameiginlegur réttur sé þrír mánuðir, áætlar Tryggingastofnun að heildarkostnaður Fæðingarorlofssjóðs vegna fæðingarorlofs foreldra sem eiga barn árið 2005 yrði rúmir 5,4 milljarðar kr. Sé hins vegar miðað við að hvort hjóna um sig öðlist rétt til fimm mánaða orlofs og sameiginlegur réttur verði tveir mánuðir telur Tryggingastofnun að árlegur heildarkostnaður verði tæpir 7,5 milljarðar kr. Breytingin, hæstv. forseti, mundi þannig leiða til rúmlega 2 milljarða árlegrar útgjaldaaukningar fyrir Fæðingarorlofssjóð.

Tryggingastofnun vekur á því athygli að þar sem breyting hafi orðið á viðmiðunartímabili útreiknings um síðastliðin áramót þá hafi við þessa útreikninga aðeins verið hægt að miða við fæðingarorlof foreldra sem eiga börn á þessu ári. Gert er ráð fyrir 7% mótframlagi í lífeyrissjóð við útreikningana. Það er tekið fram að útgjaldaauki vegna fæðingarstyrks sé ekki með í þessum tölum.

Í þriðja lagi er spurt um núverandi kostnað ríkis og sveitarfélaga vegna dagvistunarúrræða fyrir börn að 12 mánaða aldri.

Ekki liggur fyrir, hæstv. forseti, að ríkið beri neinn kostnað við dagvistunarúrræði fyrir börn á þessum aldri. Kostnaður sveitarfélaga sem rekja má til dagvistarúrræða liggur ekki fyrir þar sem í ársreikningum þeirra eru eingöngu birtar upplýsingar um heildarkostnað vegna dagvistunar í heimahúsum. Samkvæmt ársreikningum fyrir árið 2004 var heildarkostnaður vegna þessa úrræðis um 223 millj. kr. Samkvæmt upplýsingum sem fengnar eru frá hlutaðeigandi, Reykjavíkurborg, eru börn hjá dagforeldri frá lokum fæðingarorlofs þar til þau eru um það bil 20 mánaða gömul. Gróflega má því áætla að allt að 60% af heildarkostnaðinum séu vegna dagvistunar barna að 12 mánaða aldri hjá dagforeldri eða um 134 millj. kr.