132. löggjafarþing — 26. fundur,  21. nóv. 2005.

Hollustuhættir og mengunarvarnir.

314. mál
[16:43]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég get ekki heyrt betur en þetta mál sé allt til bóta en ég hefði gjarnan viljað heyra frá hæstv. ráðherra hvernig hún hefur hugsað sér þetta eftirlit. Er þetta reglubundið eftirlit sem hún er að leggja hérna til eða er þetta eftirlit sem sést bara einu sinni og síðan ekki meir? Eru einhverjir tilkynningarskyldir ef verður slys? Ég held að þetta sé mjög jákvætt og við vitum að það hafa orðið slys á leiksvæðum barna og oft ítrekað sams konar slys og ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Á þetta við t.d. um íþróttavelli eða svæði þar sem íþróttir eru iðkaðar? Eru þetta bara leikvellir? Þegar talað er um leiksvæði, á þetta við um leiksvæði í kringum skóla og leikskóla? Ég vil spyrja hæstv. ráðherra aðeins nánar út í þetta.

Ég held hins vegar, virðulegi forseti, að þetta sé mjög jákvætt og nauðsynlegt og ég fagna því að það á að fara að taka á og auka eftirlit með leikvallatækjum og leiksvæðum almennt því að við vitum alveg að þarna hefur pottur verið brotinn og það þarf að taka á ýmsu, t.d. má nefna fótboltamörk sem hafa dottið niður og börn hafa slasast alvarlega og svo er einnig um ýmis önnur leiktæki. Ég fagna því að það á að fara að taka á þessum þáttum en hefði gjarnan viljað fá nánari útskýringu á þessu. Hverjir eru þessir faggiltu aðilar? Er það Neytendastofa eða fleiri sem mundu vera með þetta eftirlit? Hverjir eiga að sinna þessu og hvar nákvæmlega?