132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[15:00]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er mjög flókið mál eins og hv. þingmaður veit. Það er ekki einfalt að sjá til enda akkúrat núna. Þess vegna höfum við skipað sérfræðinganefnd sem er að kynna sér hvernig staðið er að þessum hlutum erlendis. Við erum að úthluta takmörkuðum gæðum. Það er augljóst. Og þegar sú sérfræðinganefnd hefur lokið sínu starfi eða er komin lengra með sitt starf þá mun ég skipa nefnd sem þá endanlega mun gera tillögu til ráðherra um það hvernig á málum skuli taka.

En það er mjög mikilvægt að þetta litla frumvarp verði að lögum núna sem allra fyrst vegna þess, eins og ég kom inn á áðan, að vísað er til þeirra í raforkulögunum. Núna ríkir um það alger óvissa hvernig eigi að fara í rannsóknir vegna vatnsaflsvirkjana og það er bara ekki gott, með fullri virðingu fyrir skoðunum vinstri grænna í þessum efnum sem ekkert vilja virkja. En þetta er nú svona.