132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[15:01]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er nú ekki meiri vá fram undan en sú að gert er ráð fyrir því, eftir því sem ég skil best, að þessi mál verði tilbúin til umfjöllunar á hv. Alþingi á næsta vetri. Ég hefði því haldið að mikið væri í gangi í alls konar virkjunum og öðru slíku. Því ætti ekki að vera nein sérstök vá fyrir dyrum.

Hæstv. ráðherra svaraði því ekki hvort hún ætlaði að sjá til þess að menn fengju að horfa yfir sviðið í heilu lagi og fengju í hendurnar önnur frumvörp því að auðvitað hljóta menn í ríkisstjórninni að tala saman. Þó um sé að ræða umhverfisráðuneytið að þessu leyti þá eru menn í sameiningu í þessum ráðuneytum að endurskoða allan vatnalagabálkinn. Það er óþolandi að menn skuli ekki fá að sjá hvaða niðurstöður eru þar á leiðinni áður en lokið er við endurskoðun á þessum lögum.