132. löggjafarþing — 27. fundur,  22. nóv. 2005.

Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu.

288. mál
[16:26]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það eru tvær hliðar á öllum málum. Nú eru mikil umsvif á Austurlandi bæði uppi á hálendinu og niðri í byggð. Við höfum fengið fréttir af því hvernig staðið hefur verið að ráðningu starfsmanna uppi á Kárahnjúkavirkjun. Er það jákvætt? Ég vil spyrja hæstv. iðnaðarráðherra hvort hún sé stolt af því hvernig Impregilo hefur staðið að ráðningum starfsmanna og hvernig verkin hafa gengið fyrir sig.

Er það jákvætt ef þessi þróun hvað varðar ráðningu starfsmanna inn á svæðið hefur svo neikvæð áhrif á allt atvinnulíf, á alla launaþróun í landinu? Ef til lengri tíma er verið að brjóta verkalýðshreyfinguna í þessu landi niður, er það jákvætt? Er það jákvætt að fá svo marga starfsmenn inn á svæði að lítil samfélög eiga í mestu erfiðleikum með að þjónusta þessa aðila og þá vil ég nefna opinberar stofnanir, t.d. heilbrigðisstofnanirnar, lögreglu, Vinnueftirlitið og sveitarfélögin sem hafa fengið mjög takmarkaðan stuðning á þessu uppbyggingartímabili?

Ég vil bara endurtaka það að við skulum spyrja að leikslokum. Auðvitað vona ég eins og allir að þetta fari vel, að það náist að vinna þannig úr málum að þessi risaverksmiðja sem að mínu mati var óheillaspor að reisa, að áhrifin verði sem jákvæðust til lengri tíma litið. En það má ekki stinga höfðinu í sandinn eins og hæstv. iðnaðarráðherra gerir og neitar (Forseti hringir.) að horfast í augu við að þetta hefur líka mikla vaxtarverki (Forseti hringir.) og erfiðleika í för með sér á þessu svæði.