132. löggjafarþing — 28. fundur,  23. nóv. 2005.

Svörun í þjónustusíma.

247. mál
[12:39]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þá fróðlegu reynslusögu sem hér var sögð en svar mitt er eftirfarandi. Hið einfalda og stutta svar við fyrirspurn hv. þingmanns er nei. Hvorki hafa verið settar né kemur til álita að setja þjónustukvaðir á fyrirtæki eða þjónustuaðila með almannaskyldur eða ráðandi markaðshlutdeild þar sem kveðið yrði á um hámarksbiðtíma eftir svörum í þjónustusíma. Ég tel að slíkt komi engan veginn til álita einfaldlega vegna þess að það er sannfæring mín að veiti fyrirtæki ekki góða þjónustu lifi þau ekki af á markaði. Neytendur fara þá yfir til samkeppnisaðila með viðskipti sín eða að nýir aðilar koma inn á markaðinn sem veita betri þjónustu. Ég tel ekki koma til álita að setja slíkar stífar reglur á atvinnulífið. Markaðurinn sér um þetta sjálfur.

Hv. þingmaður vísar til fyrirtækja eða þjónustuaðila með ráðandi markaðshlutdeild. Í því sambandi er rétt að vekja athygli á þeirri meginreglu í samkeppnisrétti að ekkert bannar fyrirtækjum að vera markaðsráðandi. Þau mega hins vegar ekki misnota markaðsráðandi stöðu sína. Þannig er kveðið á um, í 11. gr. samkeppnislaga, nr. 44/2005, að misnotkun á markaðsráðandi stöðu sé bönnuð og að misnotkunin geti m.a. falist í að beint eða óbeint sé krafist ósanngjarns kaup- eða söluverðs, settar séu takmarkanir á framleiðslu, markaði eða tækniþróun o.s.frv. Þessi ákvæði eiga sér samsvörun í Evrópurétti. Það þurfa ekki að koma til sérstakar reglur um hvernig fyrirtæki og stofnanir svara í síma.