132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[14:00]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Við 2. umr. fjárlaga fyrir árið 2006 vil ég í upphafi máls míns víkja að hinni miklu skattastefnu ríkisstjórnarinnar og þeim röngu áherslum sem þar eru uppi að mínu viti. Áherslum sem auka á misskiptingu þegna landsins. Stefnu sem verður til þess að hækka ráðstöfunartekjur þeirra verulega sem eru með há laun, þ.e. 500.000 á mánuði eða meira, en færa láglaunafólki örfáar krónur sem virka jafnvel þannig vegna lágs persónuafsláttar sem ekki hefur haldið raungildi sínu að fólk með lægstu tekjur, 100.000 á mánuði, greiðir allt að 9.000 í skatt til ríkissjóðs. Fjölgun tekjuskattsgreiðenda í tíð núverandi ríkisstjórnar er að finna í hópi eldri borgara, öryrkja og láglaunafólks. Ríkisstjórnin vinnur að því með stefnu sinni að breikka bilið milli þjóðfélagshópanna. Hleður undir þá sem hæstar hafa tekjur en vegur að lífskjörum þeirra sem eru tekjulægri. Ég held að mikil þörf sé á að endurskoða stefnuna í skattamálum, þó að ég þykist vita að fjármálaráðherra og ríkisstjórnin séu mér ekki sammála í því. En ég tel að sú útfærsla sem er í skattalækkunarstefnu ríkisstjórnarinnar þjóni ekki þeim markmiðum að auka jöfnuð í þjóðfélaginu og þjóni ekki heldur nægilega þeim markmiðum að koma til móts við þá sem lægri tekjur hafa í þjóðfélaginu sem ég held að sé mjög nauðsynlegt í núverandi stöðu, hæstv. forseti.

Við vitum um mikla óánægju verkalýðshreyfingarinnar um hvernig mál hafa þróast hér á landi. Talað er um að meðaltalskaupmáttur hafi aukist verulega en það er auðvitað svo að meðaltalskaupmátturinn tekur mið af þeim launabreytingum sem hafa orðið í þjóðfélaginu. Við vitum að þeir sem hafa hærri launin hafa verið að bæta við sig og það er launaskrið sums staðar í fyrirtækjum og einkum á þeim stöðum þar sem greitt er hærra kaupið. Hinir föstu samningar verkalýðshreyfingarinnar hafa jafnan gert það að verkum að í slíku ástandi dregst kaupmáttur verkamanna meira saman en meðaltölur sýna. Það hefur gerst hjá okkur núna og margir í verkalýðshreyfingunni telja að láglaunafólkið sitji mjög verulega eftir í launabótum. Ég hygg, hæstv. forseti, að það sé rétt.

Þess vegna er það að mínu mati mjög verðugt verkefni núverandi ríkisstjórnar að endurskoða skattastefnu sína, m.a. með það að markmiði — í stað þess að fara í flata prósentulækkun í tekjuskattinum upp á 1% á næsta ári og 2% árið 2007 — að skoða hvort ekki mætti koma til móts við láglaunafólk, aldraða og öryrkja á almennum vinnumarkaði með öðruvísi útfærslum í þessum skattalækkunum. Það er skoðun mín og okkar í Frjálslynda flokknum að miklu nær hefði verið, sérstaklega eins og ástandið er núna, að setja þá fjármuni sem gert er ráð fyrir í skattalækkunum á næsta ári sem eru 4 milljarðar kr. vegna 1% skattalækkunar yfir í að hækka persónuafsláttinn. Ég tel að með þeim 4 milljörðum hefði verið hægt að hækka persónuafslátt á bilinu 2.600–2.800 kr. á mánuði fyrir hvern einstakling. Og þá hefðum við verið að tala um nokkurn veginn sömu fjárhæð, eða um 4 milljarða kr. vegna þess eins. Með sama hætti hefði auðvitað verið hægt að taka næstum því tvöfalt það í janúar 2007 ef menn hefðu valið þá leið.

Ég hygg að verkalýðshreyfingin hefði metið það talsvert ef menn hefðu farið slíka leið í skattalagabreytingum og þannig búið til meiri jöfnuð í þjóðfélaginu. Það hefði örugglega komið þeim betur sem lægri hafa launin sem og öldruðum og öryrkjum að fá þá hækkun á persónuafsláttinn heldur en að fá þessa prósentutengdu flötu skattalækkun sem ríkisstjórnin vill fara. Við hefðum getað sleppt því að fella niður hátekjuskattinn, hæstv. forseti, og ekki setja þá forgangsröðun á undir þessum kringumstæðum að lækka sérstaklega tekjuskatt þeirra sem eru með upp undir hálfa milljón á mánuði eða meira í tekjur. En það er forgangsröðun ríkisstjórnarinnar.

Nýverið gerðu aðilar vinnumarkaðarins og ríkisstjórnin með sér samkomulag um eingreiðslu í desember til launþega upp á 26.000 kr. Eftir umræður í þinginu fyrir viku ákvað ríkisstjórnin að greiða atvinnulausum, öryrkjum og öldruðum einnig sömu upphæð, þ.e. 26.000 kr. En þá kemur spurningin: Hvernig virkar sú upphæð til raunverulegs kaupauka hjá öldruðum og öryrkjum, hópum sem fá greiðslur frá almannatryggingum í formi samsettra lágmarksbóta þar sem allar viðbótartekjur skerða lágmarksbætur aldraðra og öryrkja um 45%, með svokallaðri skerðingarreglu sem nær einnig til mánaðargreiðslna hvers einstakling vegna viðbótargreiðslu úr lífeyrissjóði?

Hæstv. fjármálaráðherra sagði í fjölmiðlum að kostnaður ríkissjóðs væri um 700 millj. kr. vegna þessa. Ef við skoðum hverjar rauntekjur verða hjá einstaklingi sem fær umrædda 26.000 kr. greiðslu en verður fyrir 45% skerðingu á bótum almannatrygginga, þarf síðan að borga 37,73% í skatt og við skulum síðan gera ráð fyrir að það sem þá stendur eftir verði notað til að kaupa vörur, annaðhvort jólagjafir eða matarvörur, við getum gengið út frá því í dæminu sem ég er með fyrir framan mig, að sú eyðsla sé til helminga. Þá lítur dæmið þannig út, hæstv. forseti: Þegar einstaklingur sem hefur bætur frá Tryggingastofnun fær þessar 26.000 kr. í hendur verður fyrst skerðing á bótunum um 45% sem þýðir að raunveruleg greiðsla þegar búið er að taka tillit til skerðingarinnar er upp á 15.820 kr. Þá kemur tekjuskattur. Þegar tekjuskatturinn er settur á það sem eftir er, þessar 15.820 kr., 37,73% tekjuskattur, þá standa eftir 9.879 kr. Við skulum nú gera ráð fyrir að viðkomandi ellilífeyrisþegi eða öryrki fari með þessar 9.879 kr. út í búð og ákveði að kaupa fyrir það annars vegar helminginn jólagjafir og helminginn mat. Þá greiðir hann væntanlega eins og allir aðrir landsmenn 14% virðisaukaskatt af matvörunni og 24% virðisaukaskatt af jólagjafavörunni. Hver er þá raunkostnaður ríkissjóðs af því að hafa afhent mönnum sem eru á bótakerfinu 26.000 kr.? Mér sýnist að eftir verði 8.000 kr., hæstv. forseti, sem verður raunkostnaður ríkissjóðs á einstaklinginn þegar hann er búinn að lenda í þeirri meðferð sem er innbyggð í tryggingakerfi okkar. Fyrst með 45% skerðingu, því næst með 37,73% skatti og síðan að ráðstafa fjárhæðinni, sem verður að teljast mjög líklegt því þetta fólk hefur ekki mikla fjármuni. Þá kemur vaskurinn til viðbótar upp á tæpar 2.000 kr. Ég held, hæstv. forseti, að fjármálaráðherra skuldi það að gefa okkur nákvæmari skýringar á þeirri framsetningu með 700 milljónirnar sem hann taldi vera kostnað ríkissjóðs.

Þess vegna vil ég beina eftirfarandi þremur spurningum til hæstv. fjármálaráðherra sem var hér í salnum fyrir stuttu. — Veit hæstv. forseti hvar fjármálaráðherrann er? Ef hæstv. forseti getur upplýst mig um að fjármálaráðherrann sé að hlusta á ræðu mína einhvers staðar annars staðar nægir mér það alveg. Ég þarf ekki að sjá andlitið á honum til að bera þær upp.

(Forseti (SP): Hæstv. fjármálaráðherra mun vera í húsinu en forseti hefur gert ráðstafanir til að vekja athygli hans á ræðu hv. þingmanns.)

Velkominn, hæstv. fjármálaráðherra. Ég ætla að beina til ráðherra þremur spurningum vegna þess kaupauka sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að setja út til aldraðra, öryrkja og atvinnulausra. Og þær eru eftirfarandi. Í fyrsta lagi:

Munu umræddar kjarabætur til eldri borgara og öryrkja koma til skerðingar á bótum almannatrygginga?

Önnur spurningin er: Ef fjármálaráðherra lítur á þessa uppbót eldri borgara og öryrkja sem laun, munu þær þá ekki aðeins skerða tekjutrygginguna heldur einnig grunnlífeyrinn? Munu þessar bætur skerða grunnlífeyrinn? Það gæti komið til þess ef ekkert stæði eftir af bótunum annað en grunnlífeyririnn.

Í þriðja lagi. Hvað telur ráðherra að komi mikið til baka í ríkissjóð í gegnum annars vegar tekjuskatt og virðisaukaskatt og hins vegar skerðingarreglu Tryggingastofnunar ef hún er notuð á þessar greiðslur?

Þetta voru þær þrjár spurningar sem ég óskaði eftir að fjármálaráðherra hlustaði sérstaklega á. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir að hafa brugðist svo við, jafnléttur á fæti og hann er að mæta hér í salinn.

Mér finnst orðið meira en tímabært að endurskoða þessa reglu hjá Tryggingastofnun, þ.e. þá 45% skerðingarreglu sem látin er bitna á öldruðum og öryrkjum, og ég vil segja oft með mjög ósanngjörnum hætti eins og dæmið sýndi sem ég tók áðan. Ég vil einnig, hæstv. forseti, minna stjórnarliða á að sex sinnum höfum við í Frjálslynda flokknum á jafnmörgum þingum flutt mál um tryggan lágmarkslífeyri fólks sem gengur út að að afnema alla skerðingu á bótum almannatrygginga ef tekjur úr lífeyrissjóði eru undir 50.000 kr. á mánuði. Síðan lögðum við til þrepaða skerðingu fyrir tekjur úr lífeyrissjóði frá 50.000–100.000 kr. á mánuði þegar aftur væri komið í þá 45% skerðingu sem nú er unnið eftir varðandi bætur Tryggingastofnunar. Það væri mikil kjarabót, hæstv. forseti, að slíku. Það mundi þýða að þeir sem lægstar hafa afkomutekjur hér á landi yrðu ekki fyrir þeirri bröttu skerðingu sem verður núna þegar fyrsti þúsundkallinn skerðir bætur með 45% reglu, þ.e. í hvert skipti þegar eldri borgari eða öryrki fær þúsund kr. til viðbótar, annaðhvort í laun eða sem bætur úr lífeyrissjóði missir hann 450 kr. af bótunum frá Tryggingastofnun. Þetta finnst mér ósanngjörn regla, hæstv. forseti.

Það hlýtur að vera skynsemi í að búa til einhverjar þrepaskiptingu í þessar skerðingarreglur. Þannig að þeir sem lægstar hafa tekjurnar og eru í raun og veru með tekjur undir lágmarksframfærslukostnaði, eins og hann er skilgreindur í þjóðfélaginu, fái leiðréttingu á stöðu sinni. Þarna er um að ræða hópa í þjóðfélaginu sem höfðu á árum áður oft litlar tekjur og eignuðust lítil réttindi í lífeyrissjóði. Því miður er það þannig með marga öryrkjana að þeir eiga engin réttindi í lífeyrissjóði.

Hæstv. forseti. Úr því að ég er byrjaður að fara hér yfir dæmi eins og ég gerði áðan varðandi 26.000 kr. þá vil ég taka annað dæmi úr heimi þess fólks sem lifir við örorku. En það snýr að Öryrkjabandalagi Íslands sem rekur verndaðan vinnustað í Hátúni. Á árinu 2004 greiddu vinnustaðir Öryrkjabandalags Íslands, verndaðir vinnustaðir í Hátúni, til hins opinbera 23,9 millj. kr. í formi virðisaukaskatts, staðgreiðslu og tryggingagjalds. Á því ári fengu þessir vinnustaðir í framlag frá ríkinu 13 millj. kr., úr ríkissjóði. Það sem má kalla arð af þessum vinnustöðum til hins opinbera er þá mismunurinn á þeim styrk sem þessir vernduðu vinnustaðir fengu og þess sem vinnustaðirnir inntu af hendi til ríkissjóðs, en það voru 10,9 millj. kr. ríkissjóði í hag. Í þessum tölum er ekki tekið tillit til skerðingar á tekjutryggingu og öðrum tekjutengdum liðum örorkubóta fatlaðra starfsmanna sem ég var að fara hér yfir áðan í dæminu um desemberuppbótina.

Hæstv. forseti. Ég vona að þessi dæmi nægi til að hv. þingmenn átti sig á því að þarf ýmislegt að skoða í þeim heimi sem aldraðir og öryrkjar lifa í. Það hlýtur að vera skylda okkar og sómi að takast á við það hér á hv. Alþingi.

En víkjum að allt öðru sem skiptir miklu máli fyrir þjóðina. Þótt það komi ekki fram í fjárlagafrumvarpinu þá má sjá á minnisblaði frá dómsmálaráðuneytinu að ef staða Landhelgisgæslunnar er skoðuð um miðjan þennan mánuð þá virðist stefna í að verulegt tap verði á rekstri hennar á þessu ári. Jafnvel þó að við gerum ráð fyrir að einhver bati verði á rekstrinum í lok þessa árs er líklegt að tapið verði allt að 100 millj. kr. Okkur ber skylda til að reyna að hafa sem réttastar tölur í fjárlögum hvers árs. Og því spyr ég hver verði líkleg niðurstaða í rekstri Landhelgisgæslunnar á þessu ári og hvort ekki þurfi að taka tillit til þess þegar við erum að semja fjárlög fyrir næsta ár. Mér sýnist að á þessu ári verði mjög líklegt að niðurstaðan af rekstrinum verði tap upp á 70–90 millj. kr. hjá Landhelgisgæslu Íslands. Ef það er svo hlýtur að vera hægt að upplýsa okkur í fjárlaganefnd um þetta áður en við klárum málið í 3. umr. því þá ber okkur auðvitað skylda til að koma með breytingartillögu sem lagfærir þessa stöðu. Því við eigum ekki vitandi vits að fara með tölur á milli ára sem síðan lenda beint inn í fjáraukanum á næsta ári. Við eigum að reyna að setja það inn í fjárlögin sem við teljum réttast og eðlilegast. Og ef við sjáum fram á að ekki sé hægt að hagræða enn frekar í rekstri Landhelgisgæslunnar, sem hefur leitast við að spara í rekstri sínum eins og frekast er unnt, m.a. með að taka nánast alla olíu í Færeyjum og hefur þar af leiðandi sparað um 15–16 millj. kr. á ársgrundvelli, þá sýnist mér að einboðið sé hjá okkur í fjárlaganefnd að taka á þessu máli fyrir 3. umr. Þetta þurfum við auðvitað að fá upplýst og einnig hversu rétt minnisblaðið sem barst frá dómsmálaráðuneytinu er eða fá skýringar ef þetta er ekki rétt. Að öðrum kosti sýnist mér, hæstv. forseti, að okkur beri skylda til að taka á þessu máli.

Það er kannski eitthvað fleira sem þarf að koma inn. Það er óhjákvæmilegt í 2. umr. um fjárlögin 2006 að gera að umtalsefni vöxtinn í starfsemi utanríkisþjónustunnar á þessu ári. Í fjáraukanum var sótt um 50 millj. kr. aukalega í almennan rekstur fyrir aðalskrifstofu. Í fjárlögum fyrir næsta ár er sótt um 135 millj. kr. hækkun á starfsemi aðalskrifstofu utanríkisráðuneytisins. Eftir því sem ég best veit þá hefur utanríkisráðuneytið ekki orðið við þeirri hagræðingarkröfu sem sett hefur verið fyrir ráðuneyti á undanförnum árum, þegar sett hafa verið upp fjárlög. Sendiráðin fengu 276 millj. kr. í fjáraukanum, eða munu fá sýnist mér, þegar hann verður afgreiddur. Ætli samkvæmt venju verði ekki aftur tekið til við aukningu í fjáraukanum á næsta ári, fyrir árið 2006 ef að líkum lætur. Hæstv. forseti. Ég held að það sé kominn tími til að við tökumst á við þann vanda og þá miklu útþenslu sem hefur orðið í utanríkisráðuneytinu á undanförnum árum. Vissulega er utanríkisráðuneytið með mörg verkefni sem ber að líta til og styðja, eins og verkefni við þróunaraðstoð og önnur þau störf sem verða til að stuðla að friði og uppbyggingu í heiminum og aðstoð við svæði og ríki sem eiga undir högg að sækja.

En það er samt einn liður í viðbót, hæstv. forseti, undir utanríkisráðuneytinu sem ég staldraði við og vil spyrja sérstaklega um. Það er liðurinn Alþjóðastofnanir. Hann hefur hækkað úr 862 millj. árið 2004 í 1.401 millj. eins og hann lítur út í fjárlagafrumvarpinu fyrir 2006, eða um 540 millj. á tveimur árum. Þetta er mikil aukning og mikil útþensla. Hæstv. fjármálaráðherra eða formenn fjárlaganefndar mættu gjarnan gefa okkur skýringu á hvað þarna er á ferðinni, ef þeir vita það. Eru þetta fjárveitingar sem tengjast því að við erum að berjast fyrir sæti í öryggisráðinu? Er þetta það sem um er að ræða í þessari miklu aukningu varðandi alþjóðastofnanir? Eða er þetta eitthvað annað? Ég óska eftir að þeir sem betur vita en sá sem hér stendur fari einhverjum orðum um þetta.

Byggðavandinn er því miður enn til staðar. Í nýrri skýrslu hæstv. iðnaðar- og byggðamálaráðherra, Valgerðar Sverrisdóttur, um raforkumál sem hér hefur verið dreift, má sjá að orkuverð í dreifbýli á Vestfjörðum hefur hækkað mest eða um allt að 24%. Þarna er að sjálfsögðu um að ræða meðaltal. En það er alveg ljóst að dreifbýlisbyggðir á Vestfjörðum hafa fengið skell við breytingu á raforkulögunum. Þar með ætti nú hæstv. ráðherra byggðamála að geta viðurkennt að það nafn sem ég gaf þessari löggjöf, þ.e. „axarskaftaaðgerð“ hafi sennilega átt við nokkur rök að styðjast. Þetta verklag, hæstv. forseti, vegur að byggðunum, byggðum sem eru í vörn fyrir. Það var ekki ástæða til af hæstv. iðnaðarráðherra sem jafnframt er ráðherra byggðamála að beita sér fyrir því að lögin hefðu þær afleiðingar sem þau virðast hafa miðað við það sem lesa má í lok töflu sem er aftast í skýrslunni um hækkun orkuverðs í dreifbýli.

Nú þarf hæstv. ráðherra byggðamála og orkumála, hæstv. iðnaðarráðherra, að takast á við að tryggja að þessi kostnaður lækki aftur og hann verði þá í samræmi við það sem mig minnir að hæstv. ráðherra hafi sagt hér í þingsal, að breytingin á raforkulögunum mundi ekki kalla á aukinn kostnað notenda nema að mesta lagi upp á 1–3%. Ég held að hæstv. ráðherra vitni samt í í andsvari að ef einhver kostnaður yrði, mundi hann hlaupa á nokkrum hundraðköllum hjá notendum. Hæstv. forseti. Ég held að það sé tími til kominn fyrir iðnaðar- og byggðamálaráðherrann að takast á við að lagfæra þetta mál. Það er að vísu í fjárlagafrumvarpinu gert ráð fyrir 100 millj. til viðbótar í niðurgreiðslur. Ég veit ekki hvernig menn ætla að deila því út svo það komi þannig niður að ákveðinn hópur landsmanna sem býr í hinum dreifðu byggðum fari ekki með verulega skarðan hlut frá borði. En með einhverjum ráðum verður að fara þannig að að þessi sérstaka lagasetning bitni ekki verr á ákveðnum þjóðfélagsþegnum en öðrum, þ.e. eftir því hvort þeir búa í dreifbýli eða þéttbýli.

Það er því miður ennþá svo, hæstv. forseti, að íbúum á Vestfjörðum fækkar enn. Það er mikil nauðsyn á því að snúa vörn í sókn í þeim landshluta. Ef fjármagn þarf til þess, verður að gera ráð fyrir því í fjárlögum og þess vegna er ég mjög hlynntur því að einhverjir tekjustofnar séu markaðir til að takast á við byggðavandann. Í minni hlutanum höfum við lagt þar til sérstaka fjárveitingu því nægur er nú vandinn fyrir. Byggðastofnun sem virðist ekki geta sinnt störfum sínum samkvæmt lögum þarf auðvitað að takast sérstaklega á við þetta. Byggðir sem eiga undir högg að sækja þurfa ekki á frekari áföllum að halda, allra síst af völdum okkar sem störfum hér á hv. Alþingi. Ég veit það og hef heyrt það ofan í hv. þingmenn að þeir eru sammála því að það verði að tryggja rekstur Byggðastofnunar og tryggja það hlutverk stofnunarinnar að hún geti staðið með hinum dreifðu byggðum. Ég fagna því auðvitað og treysti því að sameiginlega munum við hér taka á því máli sem snýr að Byggðastofnun því nógur er vandi byggðanna samt.

Það getur ýmislegt orðið dreifðum byggðum til hagsbóta, m.a. bættar samgöngur. Það skiptir miklu máli fyrir landshluta eins og t.d. Vestfirði, að byggðirnar þar verði tengdar saman með varanlegum lausnum í vegagerð eins og jarðgöngum. Það á sennilega enginn landshluti eins erfitt varðandi fólksfækkun og stöðu og Vestfirðirnir hafa átt á undanförnum árum. Þess vegna þarf að takast á við þetta mál með öllum þeim ráðum sem við eigum. Ég tel, hæstv. forseti, að það þurfi að breyta fiskveiðistjórnuninni svo sjávarbyggðirnar fái lifað af. Og líka til þess að nýir menn komist að inn í útgerðina, sjávarútveginn. Það er einfaldlega svo að ef nýliðar fá ekki tækifæri og annað hlutskipti en að vera leiguliðar annarra sem oft á tíðum arðræna störf þeirra með ofurháu gjaldi á aflaheimildum, hafa tekjur af dugnaði þeirra og frumkvæði, þá held ég að það verði áfram fækkun í sjávarbyggðunum.

Hæstv. forseti. Ég vík að þessu máli vegna þess að mér finnst þetta vera orðin spurning um vöxt eða fall byggða og að við verðum að taka á þeim vanda með öllum tiltækum ráðum. Ef fólksfækkun á Vestfjörðum heldur áfram með sama hraða og gerst hefur síðustu sex ár verða íbúar Vestfjarða ekki 7.700 eins og þeir voru fyrir um ári síðan eftir sex ár heldur verða þeir komnir niður fyrir 7 þúsund manns því þeim fækkaði um 1.150 frá 1998. Það fer ekkert á milli mála að þessi þróun íbúafjölda á Vestfjörðum er okkur Vestfirðingum mjög erfið. Við skynjum það auðvitað sem þaðan erum. Það þarf að takast á við þetta mál. Ég geri mér auðvitað grein fyrir því, hæstv. forseti, að ég er ekki sá eini á hv. Alþingi sem hefur áhuga eða vilja til að lagfæra stöðu þessa landshluta sem því miður á undir högg að sækja. En ég vonast til að okkur takist að snúa þessari þróun við með mörgum samhliða aðgerðum, hvort sem þær heita breytingar á sjávarútvegsstefnunni, breytingar í samgöngumálum eða áherslur í samgöngumálum. Þess vegna get ég ekki annað en lýst þeirri skoðun minni að ég tel að það hafi verið afar misráðið að skera niður verklegar framkvæmdir hjá Vegagerðinni um 2 milljarða kr. Miklu nær hefði verið að auka framkvæmdir á þeim svæðum landsins þar sem atvinnulífið er veikast og þar sem mest þörf er á auknum samgöngubótum.

Ef menn halda að frestun á 2.000 milljónum til vegaframkvæmda á árinu 2006 ríði baggamuninn um hvernig mál þróast hér á landi þá held ég að það sé misskilningur. Nýleg útboð Vegagerðarinnar, annars vegar á framkvæmdum í Svínadal og hins vegar á Reykjanesbraut, sýna að Vegagerðin er að fá mjög góð tilboð í þau verk, um 70% eða eitthvað svoleiðis miðað við þá áætlun sem Vegagerðin gerði um hvað þessi verk kostuðu. Það sýnir ekki að það sé ofboðsleg þensla í framkvæmdum varðandi jarðvinnu og vegalagnir úr því að menn eru að bjóða undir áætluðum kostnaði Vegagerðarinnar. Þess vegna held ég að misráðið sé að fara í þetta með því lagi sem gert er ráð fyrir á næsta ári. Það má þá einnig spyrja, hæstv. forseti: Ef þessir 2 milljarðar ráða úrslitum, hvað með aðrar framkvæmdir? Við vitum jú öll að verið er að byggja af miklum krafti á Keflavíkurflugvelli og það er full nauðsyn á því. Ætli það verði ekki framkvæmt þar fyrir 5 milljarða á næstu tveimur árum? Við vitum vel að það er mikil þensla í byggingarmarkaðnum, sérstaklega á suðvesturhorninu. Mér er nær að halda að skynsamlegra hefði verið að skammta þessa 2 milljarða á þau svæði landsins þar sem atvinnusamdráttur er, þar sem íbúum fækkar og þar sem þarf virkilega að gera átak til að bæta búsetuskilyrðin. Ég held að allir landsmenn viti, eins og sá sem hér stendur, hvaða landsvæði þetta eru. Það eru Vestfirðir, Norðvesturland og norðausturhorn landsins. Síðan má auðvitað nefna einnig suðurhluta Austfjarða þar sem líka þarf að gera verulegt átak. Þetta vildi ég sagt hafa varðandi vegamálin.

Ég tek fram að ég lýsti því yfir í fjárlaganefnd og einnig í samgöngunefnd að ég væri andvígur stefnumörkun um niðurskurð á verklegum framkvæmdum á næsta ári upp á 2 milljarða kr. vegna þess að ég teldi að sú þensla sem menn væru að fást við væri ekki til staðar á stórum svæðum landsins og þangað bæri að beina fénu á næsta ári. Við getum svo líka spurt okkur að því hvað verður um framkvæmdirnar árin 2007, 2008 og 2009 þegar verulegar hækkanir verða á fjárveitingum til vegagerðar og mikil umsvif í framkvæmdum. Það skyldi þó ekki vera, hæstv. forseti, að á þeim árum verði tilboð í verklegar framkvæmdir ekki 70% af kostnaðarverði eins og fyrir næsta ár heldur hærri tala og að við séum í raun og veru að tapa fé í verklegar framkvæmdir með því að fara í þetta með því lagi sem gert er ráð fyrir í stefnu ríkisstjórnarinnar? Það mun allt koma í ljós. Það mun þá koma í ljós hvort ég hafi haft rétt fyrir mér í því eða þeir sérfræðingar sem lagt hafa upp með þá áætlun sem unnið er eftir.

Hæstv. forseti. Það er við ýmsa óáran að eiga. Það er m.a. svo að nú má ekki lengur veiða rækju í vestfirskum fjörðum. Það er sjálfsagt að minnast á að þessi atvinnuvegur er búinn að vera við lýði á Vestfjörðum nánast samfellt í 70 ár. Rækjuiðnaður á landinu hófst í raun og veru þegar bæjarsjóður Ísafjarðar tók þá ákvörðun 1936 að stofna til rækjuvinnslu á Ísafirði. Þar var sett á stofn rækjuvinnsla til að sjóða niður rækju. Sú niðurstaða að rækjuveiðar eru ekki lengur til staðar í þessum landshluta er auðvitað harkaleg. En það er kannski ekki við ríkisstjórnina að sakast í þeim efnum, frekar við þorskinn og ýsuna og hlýjan sjó sem veldur því að rækjan gefur eftir. En það kann hins vegar að vera að stefnumótun okkar í nýtingu sjávarstofnanna, m.a. uppsjávarstofnanna, hafi haft þau áhrif að nýting þorsksins og ýsunnar á innfjarðarætinu, rækjunni og öðru, verði með þeim hætti að þeir stofnar sem við gátum byggt atvinnu okkar á í 70 ár hverfi. Við búum hins vegar við það, hæstv. forseti, að þrátt fyrir að firðirnir og flóarnir fyllist af fiski má ekki auka veiði íbúanna sem hafa misst frá sér annan atvinnuveg í sama mæli í þessa fiskstofna vegna þess að þar kemur kvótakerfið til og menn eru búnir að kvótasetja þennan fisk. Það eru jafnvel íbúar sem búa allt annars staðar á landinu sem eru með þann veiðirétt í þorski og ýsu sem menn þyrftu til að fá að veiða inni í flóum og fjörðum miðað við núverandi lög. En það er hægt að breyta lögum, hæstv. forseti. Það er auðvitað eitthvað sem okkur ber skylda til að gera á hv. Alþingi, að skoða vandlega hvort útfærslan á kvótakerfinu sé það sem hentar hinum dreifðu byggðum landsins. Ég leyfi mér að efast um það. En það er nú önnur Ella eins og sagt er.

Mig langar að víkja að öðru, hæstv. forseti, í þessari ræðu minni. Það snýr að máli sem við í Frjálslynda flokknum höfum flutt nokkrum sinnum og mælt fyrir, þ.e. um textun sjónvarpsefnis. Ég kem ekki auga á það, hæstv. forseti, að gert sé sérstaklega ráð fyrir því í fjárlögunum að auka greiðslur til að hægt sé að texta íslenskt sjónvarpsefni. Við í Frjálslynda flokknum höfum mælt fyrir þessu máli á fyrri þingum og einnig á yfirstandandi þingi. Síðan hafa aðrir þingmenn úr stjórnarandstöðunni flutt málið með okkur, þingmenn úr öllum flokkum stjórnarandstöðunnar hafa stutt málið. Fáeinir stjórnarliðar hafa einnig lýst því yfir að þeir teldu að málið ætti að fá framgang og afgreiðslu í hv. Alþingi, það væri nauðsyn að lagfæra þá stöðu sem frumvarpið víkur að. Markmið frumvarpsins er einfaldlega að tryggja heyrnarskertum og heyrnarlausum aðgang að upplýsingum og afþreyingar- og fræðsluefni til jafns við þá sem hafa fulla heyrn. Ég hef hins vegar ekki komið auga á það í þessum fjárlagatillögum, hæstv. forseti, hvar eigi að taka fjármagn til að auka þessa textun, t.d. á sjónvarpsefni í ríkissjónvarpinu, sem væri svona fyrsti vísirinn að því að auka textun á efni til hagsbóta fyrir þann mikla fjölda Íslendinga sem hefur þörf fyrir textun efnis, en talið er að það séu um 25 þúsund manns. Það kann svo sem að vera, hæstv. forseti, að einhvers staðar í fjárlagafrumvarpinu sé gert ráð fyrir þessari greiðslu. Kannski getur hæstv. fjármálaráðherra upplýst okkur um það. Það kann að vera að í fjárveitingum til Ríkisútvarpsins sé gert ráð fyrir að auka textun á sjónvarpsefni eða að hæstv. menntamálaráðherra hyggist veita í það sérfé af einhverjum óskiptum liðum.

Hæstv. forseti. Fyrir tveimur árum síðan ákvað menntamálaráðherra að setja fé í að auka textun á efni í sjónvarpinu. Það var gert 23. apríl 2003 fyrir alþingiskosningar. Þá þótti sérstök ástæða til þess að leggja eitthvert fjármagn fram til þess að hægt yrði að auka textun og koma til móts við sjónarmið þess fjölmenna hóps sem þarf á því að halda. Ég varð hins vegar ekki var við þetta væri í fjárlögum þessa árs eða að neitt sérstakt kæmi fram um það. Ég vona vissulega að það sé þó og að mér hafi yfirsést þetta, en óska þá eftir að fá það upplýst, hæstv. forseti.

Er það kannski e.t.v. svo að næsta fjárveiting til að auka textun sjónvarpsefnis komi aftur í apríl 2007 fyrir alþingiskosningarnar? Er það kannski bara á fjögra ára fresti sem menn setja í þetta pening svona þegar málið er kosningavænt? Ég vona vissulega að þessi ályktun mín sé röng og að menn ætli sér að setja í þetta fjármuni. Eins og áður sagði þá snýr þetta að sennilega um 20–25 þúsund manns hér á landi. Þess vegna held ég að mjög nauðsynlegt sé að huga að því hvernig við ætlum að uppfylla þá skyldu að gera öllum Íslendingum kleift að fylgjast með því efni sem þeir borga fyrir eins og aðrir landsmenn. Við borgum jú fyrir Ríkisútvarpið og sjónvarpið. Ég vonast því til þess að ég verði upplýstur um það af fjármálaráðherra eða formönnum fjárlaganefndar eða þá þeim sem getur upplýst það hvernig á að standa að þessum málum í framtíðinni. Ef ekki þá tel ég að við eigum að taka þetta mál til meðferðar milli 2. og 3. umr., þ.e. ef gleymst hefur að setja í þetta fjármuni. Ég trúi því varla að sú stefnumótun sem menntamálaráðherra beitti sér fyrir á árinu 2003 um að auka fé til textunar um 4,5 milljónir — í það lögðu saman forsætisráðuneytið, félagsmálaráðuneytið og heilbrigðisráðuneytið — hafi bara verið sérstök kosningaaðgerð og menn ætli ekki að halda því áfram. Ég vona að það sé ekki þannig og menn ætli sér í raun og veru að lagfæra stöðu þessa hóps.

Hæstv. forseti. Ég vék aðeins áðan að samgöngum á landsbyggðinni sérstaklega. En til þess að ekki halli á í málflutningi mínum vil ég líka geta þess að ég sat nýlega mjög fróðlegan fund um Sundabrautina og framkvæmd hennar þar sem ræddar voru mögulegar leiðir sem hægt er að fara og vikið var að stefnu ríkisstjórnarinnar um að leggja til allt að 8 milljarða í þessa framkvæmd sem væri þó háð því að farin yrði hin svokallaða innri leið, eins og sagt var þarna á fundinum.

Nú þori ég ekki að fullyrða um hvort þeir sem fluttu það mál höfðu rétt fyrir sér með því að segja að það væri skilyrði að fara einhverja fyrir fram ákveðna leið til þess að þessir fjármunir gengju til framkvæmda við Sundabraut. En ég spyr hér hvort svo sé því á þessum fundi komu fram margar athugasemdir um staðarval fyrir Sundabraut og sérstaklega frá íbúum hverfa þar sem Sundabrautin mun liggja. Þeir gerðu við það verulegar athugasemdir og töldu að kannski væri nær að skoða aðrar leiðir og undruðust það, ef svo væri, að búið væri að negla þetta niður með sérstöku skilyrði frá ríkisstjórninni varðandi fjárveitinguna.

Ef nokkur hér veit meira um þetta en ég þá þætti mér gott að hann viki að því einhverjum orðum, þ.e. um þessa einstöku framkvæmd. Hún er svo sem ekkert alveg að detta yfir okkur og verður sennilega ekki komin í notkun fyrr en í fyrsta lagi árið 2011 eða 2012 ef að líkum lætur. Þessi sjónarmið komu mér á óvart því að ég hafði kannski ekki fylgst nægilega vel með áður og taldi að búið hefði verið að lenda þessu í sátt við þá sem við eiga að búa, íbúa höfuðborgarsvæðisins, sérstaklega í þeim hverfum þar sem Sundabraut liggur. En auðvitað skiptir Sundabrautin okkur öll verulegu máli. Hún er veruleg stytting á þjóðveginum til Reykjavíkur fyrir þá sem koma norðan af landi og vestan og það skiptir verulegu máli hvernig um þetta mál verður farið höndum í framtíðinni.

Hæstv. forseti. Ég fer nú að ljúka máli mínu. Þó væri hægt að tala um ýmislegt sem tengist fjárlögunum. Ég vil aðeins víkja að einu, hæstv. forseti. Við vorum að tala um hluta af símapeningunum, 8 milljarða kr. sem ætlaðir eru í Sundabraut. Ég verð að segja að ég varð fyrir nokkrum vonbrigðum með tillögur í heilbrigðis- og tryggingamálum í meirihlutaálitinu sem víkja sérstaklega að því að lækka tekjutryggingarauka ellilífeyrisþega um 191,3 milljónir og hins vegar tekjutryggingarauka örorkulífeyrisþega um 202 milljónir. Ég veit vel að þessa liði ætluðu menn að fjármagna með því að fella niður svokallaðan bifreiðastyrk. Ég tel samt að þeir hefðu átt að reyna að finna aðra fjármögnun á þessu dæmi. Á það hafa eldri borgarar réttilega bent að þeir hafi eins og aðrir landsmenn átt hlut í því að Síminn varð til hér á landi á sínum tíma og að þeir hafi verið notendur Símans og byggt upp það fé eins og aðrir landsmenn. Það hefði kannski verið hægt að finna 400 milljónir í þessa liði sem hér eru til niðurskurðar. Ég vonast til þess að það verði athugað milli 2. og 3. umr.

Hæstv. forseti. Nánast allir í þjóðfélaginu sem ég hef heyrt tala um menntamál hafa lagt mikla áherslu á að við Íslendingar stöndum vel að menntun í landinu og að í aukinni menntun og góðri menntun felist miklir framtíðarmöguleikar okkar þjóðar því að með því að standa vel að menntuninni og auka þekkinguna þá tryggðum við að þjóðin héldi velli og að hér yrðu góðir lífdagar fyrir komandi kynslóðir. Við í minni hlutanum höfum lagt til að lagðir verði auknir fjármunir í menntakerfið. Í breytingartillögum sem ég mæli hér fyrir er lagt til að Háskóli Íslands fái 500 milljónir til viðbótar við það sem gert er ráð fyrir í tillögum meiri hlutans. Vitað er Háskóli Íslands þarf meira fé og um það held ég að engar deilur séu í fjárlaganefnd að þannig sé málum komið að meira fjármagn þurfi að setja í Háskóla Íslands. En í raun var ekki tekist á við það nægilega að okkar viti. Þess vegna höfum við lagt til að þar verði aukið við og háskólanum gert kleift að halda áfram að þróa starfsemi sína og auka sína kennslu. Háskólinn er talinn mjög góð menntastofnun í samanburði við sambærilega skóla innan lands og erlendis og við í minni hlutanum teljum að auka verði fjármagn til hans.

Í áliti minni hlutans er sérstaklega gerð grein fyrir stöðunni í menntamálum og hvers vegna við viljum fylgja þessari tillögu eftir sem ég er hér að mæla fyrir og ætla ég ekki að lengja ræðu mína með því að endurtaka þann kafla sem í álitinu er. En það er ljóst, hæstv. forseti, að í stefnu allra stjórnmálaflokka hefur verið lögð mikil áhersla á að auka menntun í landinu og að í því felist það markmið að tryggja hagsæld til framtíðar. Við í minni hlutanum tökum undir það og leggjum þar að auki til að settar verði 100 milljónir í Háskólann á Akureyri og síðan 150 milljónir í Kennaraháskóla Íslands. Við teljum að á þessum fjárveitingum sé full þörf og að þetta sé fjárfesting sem þjóðin muni njóta góðs af í framtíðinni.

Ég læt svo máli mínu lokið í bili, hæstv. forseti, en óska eftir að fara á mælendaskrá síðar í dag.