132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[15:25]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Meginmistökin við gerð launasamninga ríkisins voru gerð árið 1997. Þá var fjármálaráðherra Friðrik Sophusson. Ég gagnrýndi mjög harkalega þá aðferðafræði sem var tekin upp þá og fór mjög ítarlega í gegnum það hvernig algildri aðferðafræði í samningum var þar snúið á haus, að semja fyrst um laun og eiga síðan að hnýta hnútana á eftir. Þetta er alveg öfugt við það sem allir þekkja sem til þessara mála kunna, fyrst hnýtum við alla hnútana og síðan semjum við. Þetta fór ég rækilega yfir og hef gert árum saman. Það voru ákveðnir embættismenn sem stóðu fyrir þessu. Þetta var mikið áfall fyrir ríkissjóð og ríkissjóður er ekki enn þá búinn að bíta úr nálinni með það hvernig hann á að standa að þessu. En sveitarfélögin hafa líka sýnt lausung í þessu. Almennur vinnumarkaður líka. Við höfum alltaf sýnt þennan veikleika í gegnum tíðina. En kórónuna á allri launastefnunni eiga bankar Íslands. (Forseti hringir.) Þeir hafa hækkað laun langsamlega mest enda að mati þeirra sjálfra eru þeir ekki af þessum heimi. (Forseti hringir.)