132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[15:35]
Hlusta

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Jón Bjarnason) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það fór sem mig grunaði að það væri nóg fyrir hv. þingmann að bara vita af þessu. Fyrir mér er ekki nóg að verið sé að fórna hagsmunum ríkisins í að semja um einkaframkvæmdir sem eru bæði fjárhagslega óhagkvæmar og líka félagslega rangar.

Varðandi síðan launamálin sem hv. þingmaður kom inn á þá bendi ég honum á að launabil, teknabil hefur aukist, svokallaður Gini-stuðull, úr 21 í 32 á innan við tíu árum á Íslandi. Hátekjufólkið sem sérstaklega hefur verið á jötu ríkisstjórnarinnar er að valda þenslu, ekki lágtekjufólkið, ekki starfsfólk leikskólanna, ekki starfsfólk sjúkrahúsanna. Það fólk hefur ekki fengið svo miklar launahækkanir. Það er ekki að valda þessari þenslu þannig að ég mótmæli þessum orðum hv. þingmanns ef hann er að meina það.

Hins vegar (Forseti hringir.) skammtar stór hópur sér nánast sjálfkrafa (Forseti hringir.) tekjur. Sá hópur stendur fyrir (Forseti hringir.) þenslunni í þjóðfélaginu.

(Forseti (DrH): Ég áminni enn þá einu sinni hv. þingmenn um að virða tímamörkin.)