132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[19:11]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Fjárlagafrumvarpið, sem við erum hér að ræða, er stefnumarkandi plagg og sýnir okkur hvað ríkisstjórnin ætlar að gera í öllum málaflokkum á næsta ári. Í því ljósi vil ég tæpa á nokkrum atriðum og í því ljósi er líka mjög forvitnilegt að lesa og skoða einstaka þætti þessa fjárlagafrumvarps, þ.e. út frá stefnu og yfirlýsingum hæstv. ríkisstjórnar.

Ég verð að byrja á því, virðulegi forseti, að nefna að hæstv. forsætisráðherra hefur orðið mjög tíðrætt um stöðu barnafjölskyldunnar á Íslandi og stofnað sérstaka nefnd um málefni hennar. Hef ég fagnað þessu allverulega vegna þess að á mjög mörgum þáttum þarf að taka. Þess vegna veldur það sárum vonbrigðum að í því fjárlagafrumvarpi sem hér er kynnt á að skera niður vaxtabætur. Þannig ætlar ríkisstjórnin að spara í meira en 300 milljarða fjárlögum tæplega 600 millj. kr. á næsta ári. Þetta, virðulegi forseti, eru mjög skrýtin skilaboð frá ríkisstjórn sem boðar fjölskyldustefnu og átak í málefnum barnafjölskyldna í landinu í hátíðarræðu. Þetta eru afar sérkennileg skilaboð, að boða eitt og skera síðan niður vaxtabætur þegar við vitum að sú skerðing mun koma verst niður á þeim sem mestar hafa húsnæðisskuldirnar. Við vitum að samsetning skulda er á þann veg að þeir yngstu hafa hlutfallslega mestar húsnæðisskuldir. Þessi skerðing kemur verst niður á þeim tekjulægstu og þeim sem mestar hafa húsnæðisskuldirnar og eru að reyna að koma sér þaki yfir höfuðið. Það eru að stórum hluta ungar barnafjölskyldur.

Virðulegi forseti. Með þessari skerðingu á vaxtabótunum er komið aftan að fólki. Það er komið aftan að fólki sem hefur gert áætlanir í samræmi við þær vaxtabætur sem eru lögum samkvæmt áætlaðar. Það er komið aftan að þeim hér með því að halda áfram þeirri skerðingu sem byrjað var á á síðasta ári. Og ekki nóg með það, það á að gefa í á þessu ári og lækka vaxtabæturnar enn frekar. Í fyrra lét hæstv. ríkisstjórn sér nægja að miða við að vaxtabætur við álagningu ársins 2005 yrðu 95% samkvæmt gildandi reglum. Ekki nóg með að það eigi að framlengja þessa ráðstöfun, og ef ég má með leyfi forseta, vitna í fjárlagafrumvarpið sjálft, stendur hér orðrétt:

„Ákveðið hefur verið að framlengja þá ráðstöfun í samræmi við áform um aðhald með útgjöldum ríkissjóðs.“

Þar segir einnig, með leyfi forseta:

„Við álagningu næsta árs verður einnig sú breyting að hámark vaxtagjalda til útreiknings á bótum miðast við 5,0% af heildarskuldum til öflunar húsnæðis í stað 5,5% áður.“

Eins og ég sagði, virðulegi forseti, er þarna verið að gefa enn í við skerðingar á vaxtabótum frá því sem var í fyrra og nóg var þá. Á þessu ári erum við að sjá himinhátt húsnæðisverð þannig að það er orðið mjög erfitt fyrir ungt fólk að koma sér upp þaki yfir höfuðið, bara að byrja, og þá kemur ríkisstjórnin aftan að því með því að skerða vaxtabæturnar sem gert var ráð fyrir við alla áætlanagerð.

Virðulegi forseti. Ég skil ekki þvílíka fjölskyldustefnu, ég bara skil hana ekki. Og ég skil ekki hvernig svona aðgerð getur rúmast innan fjölskyldustefnu sem boðuð er af hæstv. forsætisráðherra sjálfum. Maður hefði haldið í ljósi þeirrar stöðu sem hann er nú kominn í að tekið yrði raunverulega á fjölskyldumálunum en svo er greinilega ekki. Fjölskyldustefna Framsóknarflokksins er ekkert nema plat þegar fjárlagafrumvarpið er skoðað.

Virðulegi forseti. Ekki þarf að fara ítarlega yfir það, við vitum öll að á ungum barnafjölskyldum hvíla mjög miklar byrðar. Við erum með hátt matvælaverð og há skólagjöld í leikskóla og gjöld fyrir dagvistun yngri barna í grunnskólum. Við erum með háan læknakostnað og tannlæknakostnað og núna erum við með mjög háan húsnæðiskostnað, gríðarlega háan húsnæðiskostnað. Daglegur rekstur heimila þar sem börn búa er mjög kostnaðarsamur og margir þættir sem leggjast á eitt við það að þyngja þann róður. Og núna þegar húsnæðisverð hefur rokið upp og skuldir ungra barnafjölskyldna hafa aukist að sama skapi vegna húsnæðiskaupa ætlar ríkisstjórnin sem boðar fjölskyldustefnuna að kroppa í vaxtabæturnar. Á ungum barnafjölskyldum hvílir þung vaxtabyrði vegna húsnæðiskaupa og af heildarskuldum ungs fólks er stærstur hluti til kominn vegna húsnæðiskaupa.

Virðulegi forseti. Ungt fjölskyldufólk þarf að vinna mjög langan vinnudag til að ná endum saman og lítill tími er fyrir samverustundir fjölskyldunnar. Þetta vitum við, þetta er umtalað. Talað hefur verið um þetta á hinu háa Alþingi árum saman. Ríkisstjórnin boðar að grípa þurfi til aðgerða til að bæta hag barnafjölskyldunnar og auka samverustundir hennar. En hvað er gert? Ekki neitt.

Ungt fólk sem er í lánasamsetningu sinni með að stærstum hluta lán vegna húsnæðiskaupa er ekkert að bruðla eða taka óþörf lán. Það er einfaldlega að koma sér og fjölskyldu sinni upp þaki yfir höfuðið. Þess vegna skuldar ungt fólk. Skuldasamsetning ungs fólks hefur sýnt okkur þetta á undanförnum árum. Ef ungar barnafjölskyldur hafa einhvern tíma þurft fullar vaxtabætur er það einmitt núna þegar verð á húsnæði hefur náð áður óþekktum hæðum.

Ég verð að segja, virðulegur forseti, að boðskapur hæstv. forsætisráðherra um bættan hag barnafjölskyldna er í þessu ljósi vægast sagt ótrúverðugur og ekkert nema sýndarmennska. Það er skoðun mín að ríkisstjórn sem kroppar í vaxtabætur, sem í kjölfarið bitnar verst á tekjulægstu hópunum í samfélaginu sem eru að koma sér upp þaki yfir höfuðið, er komin í verulegt hugmyndalegt þrot ef þetta eru leiðirnar til niðurskurðar. Mér þykir það vægast sagt furðuleg fjölskyldustefna sem slíkar aðgerðir rúmast innan.

Varðandi samstarfsflokk hæstv. forsætisráðherra, Sjálfstæðisflokkinn, kemur þessi skerðing kannski ekki mikið á óvart í ljósi þess að skemmst er að minnast yfirlýsinga fyrrverandi fjármálaráðherra um að til greina kæmi að endurskoða vaxtabótakerfið og jafnvel afnema það. Því tel ég rétt að spyrja Framsóknarflokkinn og fulltrúa þeirra á Alþingi hvort þessi aðgerð, þessi skerðing, sem er endurtekin frá því í fyrra, og hin aukna skerðing sem nú á að ráðast í sé liður í því að þeir séu að hoppa á vagninn með Sjálfstæðisflokknum sem hefur rætt og viljað skoða vaxtabótakerfið og jafnvel afnema það. Við hljótum að spyrja okkur þeirrar spurningar.

Þegar hæstv. sjávarútvegsráðherra var óbreyttur þingmaður fjallaði hann líka um þetta í sumar, þetta hefur því heyrst úr fleiri en einum ranni í Sjálfstæðisflokknum. Við hljótum að spyrja okkur og þetta hlýtur að valda okkur áhyggjum ef þetta er leiðin sem fara á. Það er skrýtið að þurfa að standa í þeim sporum að verjast fjölskyldustefnu stjórnmálaflokks ef þetta er birtingarmynd á framkvæmdinni á fjölskyldustefnunni.

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnin hefur boðað og hafa þingmenn í dag barið sér á brjóst og fjallað um að nú sé verið að auka barnabætur. Gott og vel, það er verið að auka í í barnabótum en það er ekkert á við þær skerðingar á barnabótum sem átt hafa sér stað á undanförnum árum. Sú aukning nær ekki skerðingunni sem hefur átt sér stað á síðustu 15 árum að raungildi. Ríkisstjórnin er einungis að skila til baka um fjórðungi þess sem hún hefur hlunnfarið barnafólk um í barnabótum þegar hún loksins á árunum 2006 og 2007 skilar til baka þeim 2 milljörðum sem setja á nú í barnabæturnar. Að berja sér á brjóst eftir að hafa gengið til kosninga hvað eftir annað með loforð um barnakort og auknar barnabætur og tala um að verið sé að auka í barnabæturnar þegar búinn er að vera niðurskurður árum saman, finnst mér ekki trúverðugt og það finnst mér heldur ekki sannfærandi fjölskyldustefna, virðulegi forseti.

Ég sé þetta ekki öðruvísi en að skilaboðin til fjölskyldna séu þessi: Svona sker ríkisstjórnin niður. Hún sker niður í þeim tækjum sem við höfum ákveðið að nota til að létta róður barnafjölskyldna sem mikið leggst á, en svona sker núverandi ríkisstjórn niður, hún byrjar þar. Ég segi: Maður gerir ekki svona á sama tíma og fjölskyldustefna er boðuð. Eins og ég sagði áðan, það er illt í efni ef ungar barnafjölskyldur þurfa að verjast fjölskyldustefnu hæstv. ríkisstjórnar. Miðað við það sem við sjáum í fjárlagafrumvarpinu er fjölskyldustefna hæstv. forsætisráðherra plat.

Virðulegi forseti. Ég vil aðeins nefna fæðingarorlofið. Fjallað er um það í fjárlagafrumvarpinu að sjálfsögðu. Við í Samfylkingunni og í stjórnarandstöðunni höfum lagt fram breytingartillögu hvað fæðingarorlof varðar og boðað aukningu í Fæðingarorlofssjóð.

Samkvæmt útreikningum félagsmálaráðuneytisins er áætlað að halli verði á Fæðingarorlofssjóði um 688 millj. kr. á næsta ári og eigið fé í árslok verði neikvætt um 1.558 millj. kr. Þetta finnst mér verulegt áhyggjuefni. Við erum með góð fæðingarorlofslög og við eigum að vinna í því og leita allra leiða til að styrkja undirstöður þeirra laga.

Virðulegi forseti. Við vitum að staða sjóðsins er ekki góð og ekki á að gera neitt á næsta ári til þess að bæta hana. Það finnst mér líka áhyggjuefni vegna þess að það lýsir ákveðnu hugarfari. Menn ætla að sitja og bíða eftir því að afleiðingar breytinga á lögum um Fæðingarorlofssjóð sem gerðar voru á síðasta ári komi til framkvæmda. Og hverjar eru þær? Jú, skert fæðingarorlof vegna lengdra og breyttra viðmiðunarreglna um tekjur. Þær hafa lækkað fæðingarorlofsgreiðslurnar verulega, þannig að segja má að raungildi greiðslna sem áður var um 80% af tekjum getur farið niður í allt að 70% af tekjum.

Virðulegi forseti. Sú breyting sem hér um ræðir felur það í sér að nú er miðað við tvö síðustu tekjuár. Þegar barn fæðist er miðað við tvö tekjuár þar á undan þannig að tekjuviðmiðunin getur miðast við allt að þrjú ár. Það skal tekið fram að ekki er gert ráð fyrir að þær séu uppfærðar miðað við launavísitölu eða verðlagsbreytingar á viðmiðunartímabilinu. Því er alveg ljóst að mjög margir lenda í því að fá verulega skerðingu. Þessi 80% tala verður vægast sagt hlægileg í mörgum tilfellum vegna þess að þeir sem þetta hittir langmest fyrir er ungt fólk sem er að koma úr námi og hefur ekki haft tekjur og fólk sem eignast börn með skömmu millibili, það lendir í enn meiri skerðingum, fær 80% af tekjunum þá og síðan 80% af því o.s.frv. Svona mætti lengi telja.

Ég vil nefna að við þessu var verulega varað þegar verið var að fjalla um þá breytingu á lögunum á sínum tíma og kemur ágætlega fram í góðri ræðu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um málið á sínum tíma og í nefndaráliti minni hlutans frá þeim tíma. Þar kom fram að þetta atriði, hið breytta viðmiðunartímabil, hafði verið eitt af helstu gagnrýnisatriðum umsagnaraðila svo sem ASÍ, BSRB, BHM og SÍB. Þar kom einnig fram, t.d. í umsögn frá BHM, að þeir sögðu að rofið væri samráð við samtök launafólks um því sem næst 80% heildartekna í fæðingarorlofi. Á þetta var ekki hlustað heldur ákváðu menn að fara í að rýra gildi þeirra ágætu laga sem sett voru á sínum tíma. Þetta þykir mér miður. Þessu höfum við mótmælt vegna þess að við viljum hafa góð fæðingarorlofslög og til að hafa góð fæðingarorlofslög þurfum við að hafa góðar undirstöður. Góðar undirstöður eru sterkur sjóður og að staðið sé við þau viðmið og þær áætlanir sem gerðar eru en ekki endalaust að skerða. Við setjum ekki lög og byrjum síðan að skerða þau og rýra gildi þeirra.

Virðulegi forseti. Það er skoðun mín að þessa breytingu eigi að draga til baka og miða eigi við, eins og gert er á Norðurlöndunum og löndunum í kringum okkur, tólf mánaða tekjutímabil, þ.e. tólf mánuði fram að því fæðingarorlofið er tekið og hefst.

Virðulegi forseti. Það er vissulega margt í fæðingarorlofslögunum sem við verðum að skoða og að mínu mati er næsta skref eðlilegt að lengja fæðingarorlofið upp í tólf mánuði og skipta því þannig á milli foreldra að faðirinn fái fimm mánuði, móðirin fái fimm mánuði og síðan sé sameiginlegur tími tveir mánuðir. En það er efni í aðra ræðu og ekki lagt til í okkar tillögum núna en ég tel víst að við eigum að taka það sem næsta skref vegna þess að í samanburðarlöndunum á Norðurlöndunum sem standa okkur næst er fæðingarorlofið yfirleitt lengra eða sem nemur allt að 68 vikum í Svíþjóð, í Danmörku 52 vikum og í Finnlandi nær það 44 vikum, í Noregi 52 en hér á landi er það 39 vikur. Ég tel því að við eigum að skoða þetta sem næsta eðlilega skref.

Þetta snýst líka um fjölskyldustefnu svo ég komi inn á það aftur vegna þess að við vitum að það er erfitt að brúa bilið frá því að fæðingarorlofi lýkur og þangað til leikskólavist hefst sem getur verið allt að níu mánuðir, jafnvel meira, þ.e. níu til tólf mánuðir sem fólk þarf að bíða. Þetta hefur ekki góð áhrif á eitt af grunnmarkmiðum laganna sem er að stuðla að jöfnum rétti karla og kvenna á vinnumarkaði vegna þess að hætt er við að þegar brúa þarf þarna bil þá taki konan það hlutverk að sér og því miður er tilhneiging til þess í okkar samfélagi. Það rýrir svo aftur stöðu konunnar á vinnumarkaði.

Virðulegi forseti. Ég vil koma inn á fleiri mál sem og það eru menntamál. Það er því miður staðreynd að hér á landi hefur verið rekin sveltistefna þegar kemur að háskólastiginu og framhaldsskólastiginu. Við erum með tölur um að við séum í 14. sæti hjá OECD-ríkjunum þegar kemur að útgjöldum til framhaldsskólastigsins. Við vitum það líka og okkur hefur verið sýnt það með óyggjandi hætti að við erum í 17. sæti þegar kemur að samanburði OECD-ríkjanna í framlagi til háskólastigs. Við erum þar undir meðaltali OECD-ríkjanna. Allt tal um það sem hér hefur átt sér stað í okkar samfélagi af hálfu hæstv. menntamálaráðherra að undanförnu um að við stöndum okkur vel er því ekki rétt. Við stöndum okkur ekki vel. Sveitarfélögin standa sig vel. Það eru framlög sveitarfélaganna til grunnskólanna sem toga okkur upp í meðaltalinu þegar kemur að öllum skólastigunum. En þegar kemur að því að greina þá þætti sem eru á hendi hæstv. menntamálaráðherra og ríkisins þá erum við undir meðaltali OECD-ríkjanna í framlögum til háskólastigsins. Það kalla ég ekki og það kallar það enginn og getur enginn kallað að standa sig vel eða vera í menntasókn eins og þetta hefur verið kallað.

Virðulegi forseti. Maður verður að nefna hlutina sínum réttu nöfnum. Í stað þess að leggjast á eitt með okkur í stjórnarandstöðunni sem höfum talað um það árum saman að auka þurfi framlög til háskólastigsins og framhaldsskólastigsins þá eru menn að slá upp einhverjum sýndarveruleika í menntamálum. En hverjum gagnast það? Engum, það gagnast engum til framtíðar. Það þýðir ekki að ganga um með einhvern umslátt og reyna að telja fólki trú um að hér sé allt i himnalagi þegar við vitum að háskólastigið er svelt og hefur verið árum saman.

Virðulegi forseti. Á þessu ári hafa verið gerðar tvær mjög góðar úttektir á Háskóla Íslands og fjárhagsstöðu hans. Önnur er stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar á stöðu Háskóla Íslands.

Virðulegi forseti. Þessi stjórnsýsluúttekt er alveg ótrúleg. Hún sýnir okkur svart á hvítu að það verður að setja meira fjármagn í Háskóla Íslands ef hann á að geta staðið undir nafni sem breiður akademískur rannsóknarháskóli. Ég held að fólki sé hollt að heyra ákveðinn hluta úr þessari stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar. Vil ég, með leyfi forseta, grípa niður í einn kafla:

„Fjölgun nemenda og hækkun launakostnaðar, á sama tíma og skólinn hefur aukið námsframboð, ekki síst á framhaldsstigi, og ýtt undir rannsóknir, hefur t.d. haft áhrif á fjárhagsstöðuna. Við þessu þurfa bæði skólinn og stjórnvöld að bregðast. Getur skólinn aflað meiri ríkisframlaga eða ætti hann að auka tekjur sínar með skólagjöldum? Á hann að grípa til ráðstafana til að takmarka fjölda nýrra nemenda eða endurmeta áherslur í starfseminni og draga saman fjárframlög til sumra deilda og námsgreina til að geta aukið framlög til annarra? Hvorki skólinn né stjórnvöld geta vikist undan að taka af skarið um svo þýðingarmikil mál í starfsemi skólans. Í málum af þessu tagi hlýtur frumkvæðisskyldan að hvíla á báðum aðilum.“

Virðulegi forseti. Þetta er mjög skýrt af hálfu Ríkisendurskoðunar. Þarna þarf að gera eitthvað hvað fjármögnunina varðar. Fjármögnun er ekki nógu góð. Við vitum að Háskóli Íslands hefur gert allt sem hann hefur getað til að geta boðið upp á gott nám, góðar rannsóknir. Í nýlegri úttekt Evrópusamtaka háskóla kemur skýrt fram að Háskóli Íslands er í fremstu röð hvað gæði náms varðar og rannsókna en að hann á í fjárhagskreppu. Þetta kemur skýrt fram. Ég held að spurningu ríkisendurskoðanda frá því í vor um að frumkvæðisskyldan hvíli á báðum aðilum sé svarað þannig í þessari skýrslu að Háskóli Íslands hefur gert allt innan stofnunarinnar til að mæta þessum skertu framlögum frá ríkinu. Því er það ríkisins núna að taka af skarið um hvernig eigi að fjármagna þennan skóla til framtíðar. Það á ekki að vera að heldur á hendi Háskóla Íslands að ákveða hvort taka eigi upp skólagjöld. Það á að vera pólitísk ákvörðun sem er tekin hér. Það á ekki að svelta háskólann út í þá neyðaraðgerð að skera niður nám. Það á að mínu mati líka að vera pólitísk ákvörðun hvort við ætlum að hætta t.d. að vera með guðfræðideild. Enginn annar skóli í landinu, enginn af samkeppnisskólunum, býður upp á það. Tungumálakennsla er ekki í skólunum sem veita Háskóla Íslands samkeppni. Auðvitað verðum við að líta á þessa þætti. Því miður kemur það fram í báðum þessum skýrslum að næsta skref sé annaðhvort að auka fjármagn eða skera niður námsframboðið. Þetta eru staðreyndir sem hæstv. menntamálaráðherra verður að horfast í augu við. Það þýðir ekki bara að tala endalaust um menntasókn og að hér sé verið að auka fjármagn í háskólastigið þegar það er ekki rétt eða vera hér með fagurgala af því að við vitum að þessi aukning til háskólastigsins fylgir því að nemendum hefur fjölgað. Háskólarnir sem slíkir eru því ekki að fá aukið fjármagn.

Virðulegi forseti. Nýjasta dæmið um þetta er að Háskólinn á Akureyri hefur þurft að leggja niður tvær deilda sinna vegna fjárskorts. Hann tók þá ákvörðun að leggja niður tvær deildir vegna fjárskorts. Út í þann leiðangur er hæstv. menntamálaráðherra að senda skólana. Næst kemur að Háskóla Íslands ef ekkert verður að gert. Því leggjum við til, virðulegi forseti, í stjórnarandstöðunni að settar verði 500 millj. kr. til Háskóla Íslands til að mæta þeirri stöðu sem hann er í nú og til þess að alla vega að hefja hér raunverulega menntasókn. Við leggjum líka til að fjármagn til Háskólans á Akureyri verði aukið um 100 millj. kr. til að bæta stöðu hans. Varðandi Háskólann á Akureyri þá er auðvitað verulega vont að skera niður námsframboð úti á landsbyggðinni með þessum hætti vegna þess að við vitum að Háskólinn á Akureyri hefur gegnt lykilhlutverki í að mennta fólk úti á landi og fólkið hefur farið aftur í heimabyggð eftir að hafa lært í Háskólanum á Akureyri. Það er veruleg synd og skömm að draga svo úr háskólaþjónustu við landsbyggðina.

Virðulegi forseti. Annan háskóla vil ég nefna, Kennaraháskóla Íslands. Í breytingartillögum okkar leggjum við til að settar verði 150 millj. kr. til Kennaraháskóla Íslands. Á bak við þá tillögu liggur sú hugmynd að teknir verði fleiri inn í Kennaraháskólann, að auka heimildir til inntöku nemenda vegna þess — ég get tekið dæmi — að við vitum að í leikskólakennaradeildinni er verið að taka allt of fáa inn ef anna á eftirspurn eftir leikskólakennurum í leikskólum landsins. Árið 2004 var helmingi umsækjenda vísað frá. Við sjáum að það er gríðarleg starfsmannavelta í leikskólum landsins og sú starfsmannavelta er aðallega í hluta ófaglærða hópsins sem á leikskólunum starfar. Ófaglærði hópurinn er um 60% af þeim sem starfa við kennslu á leikskóla. Leikskólakennarar eru um 34% af þeim sem starfa við kennslu á leikskólann. Starfsmannaveltan hjá ófaglærða hópnum er um 30% á meðan hún er um 7% hjá leikskólakennurum. Því er augljóst að við þurfum að stækka þann hóp sem ætlar að gera starf á leikskólum að ævistarfi með því að fjölga þeim sem hafa lært til leikskólakennara. Þegar munurinn er svona og þegar ekki er hægt að manna leikskóla á helstu þéttbýlisstöðum landsins, þegar það er ekki hægt og foreldrar þurfa að vera heima nokkra daga í mánuði vegna þess að ekki er hægt að manna allar stöður og gríðarlegt álag er á því starfsfólki sem er fyrir þá á auðvitað að ráðast í það verkefni að fjölga þeim sem ætla að gera störf á leikskólum að atvinnu sinni. Það er verkefnið fram undan.

Í umræðum á Alþingi um daginn þar sem ég átti orðastað við hæstv. menntamálaráðherra um þetta mál sá hún þetta ekki heldur benti einungis á sveitarfélögin og að þau þyrftu að hækka launin til að halda fólki á leikskólum. Auðvitað er það að vissu leyti rétt. Auðvitað þarf að hækka launin. Þau eru skammarlega lág laun fyrir leikskólakennslu. En þetta er ekki bara verkefni sveitarfélaganna. Sveitarfélögin munu að sjálfsögðu vinna í því og það hafa komið yfirlýsingar frá forustumönnum sveitarfélaga um að þetta verði verkefnið næsta haust, að það verði að skoða launakröfur leikskólakennara 2006. Fram að því er það verkefni hæstv. menntamálaráðherra að hleypa fleirum inn í leikskólakennaranámið. Það er eftirspurn eftir því. Það er umframeftirspurn eftir náminu. Við vitum það. Við erum með tölur um það hversu mörgum er vísað frá. Þessu verðum við að taka á vegna þess, eins og ég sagði, að vandinn felst í of mikilli starfsmannaveltu. Til að minnka hana þurfum við að fjölga leikskólakennurum. Það þurfum við að gera til að lenda ekki í þessari stöðu aftur og aftur, lenda í þessu um áramótin, á haustin. Þá eru sveitarfélögin að lenda í þessu og leikskólarnir að lenda í þessu. Þetta er algerlega ótækt bæði fyrir börnin og foreldrana. Þess vegna verður hæstv. menntamálaráðherra að skoða sinn þátt í málinu. Og hver er hann? Hvað er á hennar ábyrgð? Það er að fjölga leikskólakennurum.

Virðulegi forseti. Áður en ég yfirgef alveg Kennaraháskólann þá verð ég líka að nefna að heyrst hefur úr skólasamfélaginu að á næstu árum gæti komið upp töluverð vöntun á grunnskólakennurum í skólum landsins vegna þess að meðalaldur grunnskólakennara er mjög hár og búist er við að töluvert margir fari á eftirlaun á svipuðum tíma. Þetta er hlutur sem verður að skoða. Við vitum að umfram eftirspurn er eftir bæði grunnskólakennaranámi og leikskólakennaranámi. Það verður að hleypa þarna inn fleiri einstaklingum sem þetta vilja læra, sækja sér þessa góðu menntun, þessa nauðsynlegu menntun í tveimur af þeim skólastigum sem eiga að vera kjarninn í menntastefnu okkar. Þó svo að þessir málaflokkar séu á hendi sveitarfélaganna þá er hæstv. menntamálaráðherra ekkert stikkfrí og ríkisvaldið er ekkert stikkfrítt í þessum efnum þegar það er ríkisvaldið sem sér um menntunina. Við vitum líka að tekjuskipting milli ríkis og sveitarfélaga er ranglát. Ríkisvaldið er því ekki stikkfrítt í þessum efnum og það verður að fara að líta til þess að veita sveitarfélögunum sjálfstæðari og sterkari tekjustofna.

Virðulegi forseti. Ég vil nefna annað varðandi menntamál og það er tillaga okkar þingmanna Samfylkingarinnar og Guðjóns Arnars Kristjánssonar. Við leggjum til að 35 millj. kr. verði settar í Listdansskóla Íslands. Þetta gerum við vegna þess að ákvörðun hæstv. menntamálaráðherra Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um að leggja Listdansskóla Íslands niður er illa ígrunduð. Hún er fljótfærnisleg og hún er afar illa ígrunduð. Við teljum ekki rétt að Listdansskóla Íslands verði lokað næsta vor miðað við þær forsendur sem fyrir liggja og því leggjum við til að veittar verði 35 milljónir til þess að skólinn geti starfað út næsta ár. Þetta gerum við vegna þess að sú ákvörðun um að leggja niður Listdansskóla Íslands er með miklum ólíkindum og aðdragandinn að henni afar sérstakur vægast sagt. Þessi ákvörðun var tekin án nokkurs samráðs við fagaðila eða þá sem koma að þessu námi eða listdansi í landinu yfirleitt. Yfirlýsingin kom okkur öllum í opna skjöldu og þeir sem að listdansnáminu standa og að listdansi standa hafa mótmælt vinnubrögðum ráðherrans harkalega.

Virðulegi forseti. Það er afar sérkennilegt að taka ákvörðun um að leggja niður slíkan skóla án þess að hafa nokkurt samráð við fagaðila. En það virðist vera orðið dálítið leiðarljós í starfsháttum hæstv. menntamálaráðherra að taka ákvarðanir og segja síðan fólki sem á að standa undir því og lifa með þeim frá því eftir á. Þetta eru engin vinnubrögð. Þetta gerðist með Listdansskólann. Þetta gerðist með styttingu náms til stúdentsprófs. Þetta eru vinnubrögð fyrir neðan allar hellur, það verður að segja. Svona vinnubrögðum hlýtur maður að mótmæla og við mótmælum þeim.

Virðulegi forseti. Listdansskólinn hefur gegnt mikilvægu hlutverki í menntun listdansara hér á landi og þangað hafa dansarar framtíðarinnar getað sótt sér menntun frá unga aldri. Það hefur enginn og hæstv. menntamálaráðherra hefur ekki sagt þessum ungu krökkum sem eru á grunnskólaaldri og hafa ákveðið að leggja fyrir sig listdans, eða foreldrum þeirra, hvert þau eigi að sækja menntun sína á þessu sviði á næsta ári. Þetta er ömurleg staða fyrir þessa krakka sem eiga sér stóra drauma og hafa fundið sig í listdansinum. Þessir krakkar verða að fá svör frá ráðherranum um hvert þau eigi að halda á næsta ári þegar búið verður að loka skólanum. Þessi svör hafa ekki enn þá fengist og það eru komin lok nóvember. Það eru ekki nema níu mánuðir í að lokunin komi að fullu til framkvæmda og sé orðin raunveruleg. Þessari spurningu verður því að svara.

Það er mjög ruglingsleg framtíðarsýn, virðulegi forseti, fyrir listdansnámið ef það á að koma því fyrir innan veggja grunn- og framhaldsskólanna eins og þeir eru í dag. Í fyrsta lagi er svo vegna þess að kraftar stéttarinnar mundu dreifast óþarflega, í öðru lagi vegna þess að námið krefst sérhæfðrar æfingaaðstöðu og faglegrar kennslu. Í þriðja lagi hefur Listdansskólinn sinnt þeim einstaklingum sem hafa getað og viljað gera þetta „auka“ sem til þarf til þess að leggja listdansinn fyrir sig. Venjulegt dansnám í skólakerfinu er allt annars eðlis því að þar er það hluti af þroskaferli barnanna og ætlað til að efla líkama þeirra og sál, þ.e. hreyfing. Listdansskóli Íslands hefur hins vegar sinnt þeim sem hafa viljað sérhæfa sig á þessu sviði og jafnvel gera listdansinn að ævistarfi. Á þessu er klárlega munur. Meðan þessi staða er uppi er skóla ekki bara lokað án þess að fyrir liggi hvernig eigi að koma þessu fyrir á grunn- og framhaldsskólastigi. Það hafa bara komið einhverjar ódýrar yfirlýsingar um að þetta verði sett inn í framhaldsskólann með einhverjum hætti. Útfærslan liggur ekki fyrir.

Þetta gengur ekki, virðulegur forseti. Þessi vinnubrögð eru menntamálayfirvöldum til fullkominnar skammar að mínu mati og að mörgu leyti lýsandi um margt. Ég tel að þessa niðurlagningu eigi að draga til baka. Ég vona svo sannarlega að tillaga okkar fái stuðning hér. Þetta eru 35 milljónir. Ég vona svo sannarlega að stjórnarliðar taki undir þessa tillögu og veiti henni liðsinni.

Virðulegi forseti. Ég gæti tæpt á fjölmörgum atriðum en ég ætla að láta félögum mínum eftir að fara yfir fleiri breytingartillögur sem við höfum kynnt í ræðum hér á eftir. En ég get ekki farið úr þessum stóli nema að lýsa því yfir enn og aftur að ég hef orðið fyrir ofboðslega miklum vonbrigðum. Ég veit að barnafjölskyldur í landinu hafa orðið fyrir ofboðslegum vonbrigðum með aðgerðir þessarar ríkisstjórnar í málefnum barnafjölskyldna. Það að berja sér á brjóst eins og gert hefur verið, koma síðan hingað og skera niður vaxtabæturnar, er bara — fyrirgefðu, frú forseti — þetta er bara „lásí“ svo vægt sé til orða tekið.