132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[19:57]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Við vitum að þær skattalækkanir sem þessi ríkisstjórn hefur ráðist í koma þeim best sem hæstar hafa tekjurnar og þeim verst sem minnstar hafa tekjurnar. Þær eru því ekki besta tækið til þess að koma til móts við ungt fólki sem er að koma sér upp þaki yfir höfuðið og er með ung börn á framfæri.

Við höfum sagt að betri leið sé að lækka matarskatt því það jafni aðgengi og hafi miklu meiri jöfnunaráhrif en þær skattalækkanir sem þessi ríkisstjórn hefur ráðist í. Við höfum líka sagt að frekar eigi að hækka persónuafsláttinn vegna þess að hann kemur sér hlutfallslega best fyrir þá sem lægstar hafa tekjurnar. Þarna greinir okkur í Samfylkingunni á við unga sjálfstæðismenn. Það er svo sem ekkert nýtt. Þannig hefur það verið um nokkurt skeið. Vaxtabótakerfið hvetur ekki til skuldsetningar. Húsnæðisverð er himinhátt. Vextir eru háir og hafa verið hér um langt skeið með verðtryggingu ofan á. Því er vaxtabótakerfið einmitt ein af bestu leiðunum sem við höfum til þess að koma til móts við ungar barnafjölskyldur sem eru að reyna að koma sér upp þaki yfir höfuðið.

Ég sagði í ræðu minni áðan að ungt barnafólk væri ekkert að taka lán að óþörfu. Það er að koma sér upp þaki yfir höfuðið og við eigum að létta því róðurinn. Fjöldamörg gjöld leggjast á ungt fólk, mörg í einu. Það hittir það þungt fyrir og við eigum að létta því róðurinn eins og hægt er og vaxtabótakerfið er stór hluti af því.

Af því að hér var áðan talað um að við stæðum fyrir skattahækkunum þá er það bara ekki rétt. Ég hvet hv. þingmann til þess að lesa skattatillögur okkar og fara í gegnum það sem sagt hefur verið hér í dag vegna þess að þá sér hún að þetta er alls ekki rétt. Við erum ekki að leggja til skattahækkanir.