132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[21:35]
Hlusta

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hafði ekki verið lengi á Alþingi þegar ég uppgötvaði að ég réð ekki einn. Ég varð að gera málamiðlanir og ég varð að láta minni hagsmuni fyrir meiri. Það held ég að flestir þingmenn og allir þurfi að gera.

Ég samþykki ýmislegt frá ríkisstjórninni þó að ég sé ekki sáttur við það vegna þess að ríkisstjórnin er að mínu mati að gera afskaplega góða hluti í heildina. (Gripið fram í.) Ég gagnrýni það, og ég er mjög ánægður með að heyra eins og í dag gagnrýni hv. stjórnarandstæðinga á ýmislegt í framkvæmdinni því að það er aðhaldið sem ráðherrarnir og forstöðumenn viðkomandi stofnana þurfa. Þess vegna mun ég samþykkja fjárlögin í heild sinni þó að ég sé t.d. óánægður með að fíkniefnahundurinn skuli ekki heyra undir dómsmálaráðuneytið. Ég er óánægður með listamannalaun af því að ég tel að listamannalaun eigi ekki að vera til o.s.frv. Það er eitt og annað sem ég er ekki sáttur við. En í heildina, eins og ég gat um, er ég afskaplega ánægður með þessi fjárlög, það er góður afgangur á þeim. Og þó að það sé ekki alveg nógu góður agi í framkvæmdinni, eins og hv. þingmaður benti á, þá er það að lagast mjög mikið að ég tel. Ég tel að það sé miklu betra núna og miklu meiri agi en t.d. fyrir tíu árum þegar ég kom inn á þing.

Ég held að þetta horfi allt til betri vegar og ég mun sannarlega samþykkja endanleg fjárlög þó að ég sé ósáttur við eitt og annað smálegt.