132. löggjafarþing — 29. fundur,  24. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[23:14]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það þurfti að taka grunnskólann allan úr höndum Sjálfstæðisflokksins til þess að hann færi að blómstra. Arfleifðin sem við glímum við er enn sýnileg. Hún birtist í því að íslenskir grunnskólakrakkar eru langtum aftar í sumum efnum, sérstaklega drengir, en þær þjóðir sem við höfum nú ekki verið að bera okkur saman við, þjóðir sem við teljum að við höfum staðið miklu framar hvað varðar velsæld og ýmiss konar menntun. Þetta er arfleifð Sjálfstæðisflokksins og það var ekki fyrr en grunnskólinn var tekinn úr höndum hans og færður til sveitarfélaganna sem hann fór að blómstra.

Hv. þingmaður Sigurður Kári Kristjánsson, sagði að samkvæmt OECD rynni mest fjármagn til menntakerfisins á Íslandi af öllum þeim þjóðum. Hv. þingmaður ætti að lesa sér betur til með tilliti til þess að hann er formaður menntamálanefndar. Í þeim skýrslum sem ég hef verið að vitna hér til kemur fram að Ísland er í 17. sæti hvað varðar opinberar fjárveitingar. Hér er enginn mannfellir fram undan í háskólakerfinu eða menntakerfinu en ef við verjum ekki jafnmiklu og aðrar þjóðir höldum við áfram að vera fyrir aftan þær og þá glötum við samkeppnishæfninni. Við þurfum meiri samkeppnishæfni en aðrar þjóðir vegna þess að við erum svolítið úrleiðis og við þurfum að keppa við umheiminn um blóma kynslóðanna. Það gerum við ekki nema við getum boðið þeim upp á vellaunuð störf sem byggjast á mikilli menntun því að ella fer blómi kynslóðanna og hann finnur sér jarðveg annars staðar og skýtur rótum þar. Þetta er byggðastefna, þetta er alvörubyggðastefna. Hún snýst um menntun og fjárveitingar í skólakerfinu sem aftur snýst um það að búa hér til fjölbreytt atvinnulíf sem verður segull á kynslóðirnar sem ella fara.