132. löggjafarþing — 29. fundur,  25. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[00:26]
Hlusta

Arnbjörg Sveinsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það hefur m.a. komið fram að t.d. voru niðurstöður skýrsluhöfundar hvorki bornar undir endurskoðanda Byggðastofnunar né yfir höfuð leitað upplýsinga til hans. Því verður mjög áhugavert að sjá hvað löggiltur endurskoðandi segir um mat skýrsluhöfundar. En það er önnur saga.

Það sem ég tel að megi segja að sé ánægjulegt við einn helsta vanda Byggðastofnunar eru þær uppgreiðslur sem hafa orðið á lánum. Það eru að sjálfsögðu mjög ánægjuleg tíðindi vegna þess að fyrirtækin sem Byggðastofnun á sínum tíma þurfti að lána til eru orðin svo stöndug að þau eru orðin góðir kúnnar viðskiptabankanna. Ég held að við getum fagnað því að þetta eru heilbrigð og samkeppnishæf fyrirtæki sem viðskiptabankarnir vilja nú fá í viðskipti við sig og þá erum við að ná árangri. Ég held að við getum verið sammála um það. En það að við skulum ná þessum árangri lýsir sér í einum helsta vanda Byggðastofnunar nú því þegar það gerist svona skyndilega á lánamarkaði að bankarnir vilja fá þessi fyrirtæki mjög hratt í viðskipti við sig þá eru þessi lán greidd mjög fljótt upp þannig að tekjur Byggðastofnunar hrapa mjög hratt. Þetta hefur gerst á mjög skömmum tíma og við skulum vona að efnahagsástandið verði slíkt að bankarnir vilji fá þessi góðu fyrirtæki í viðskipti við sig. En eins og ég held að hv. þingmaður hafi farið vel yfir þá eru það mörg fyrirtæki sem viðskiptabankarnir munu ekki skipta við og (Forseti hringir.) þá er það hlutverk Byggðastofnunar að sinna þeim.