132. löggjafarþing — 30. fundur,  25. nóv. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[11:14]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Frú forseti. Hér erum við að greiða atkvæði um tiltölulega litla viðbótarupphæð til Landspítalans sem nemur um 40 millj. kr. Þessi aukning er hugsuð fyrir svokallaða hágæsludeild á Barnaspítala Hringsins sem er ekki þar að finna núna. Það hefur komið í ljós að vegalengdin milli Barnaspítalans og gjörgæsludeildarinnar á Landspítalanum er talsvert löng. Þess finnast jafnvel dæmi að þessi vegalengd reyndist of löng. Við leggjum því til að hafinn verði rekstur á sérstakri hágæsludeild á Barnaspítalanum og þannig verði þjónustustig spítalans aukið. Plássið er fyrir hendi og kostnaður af slíkri deild er ekki mikill í ljósi þeirra hagsmuna sem eru í húfi.

Ef meiri hlutinn treystir sér ekki til að styðja þessa tillögu núna vil ég hins vegar hvetja okkur öll hér inni til að skoða þetta mál sem fyrst á næsta ári. Ég segi já.