132. löggjafarþing — 31. fundur,  28. nóv. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[15:20]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það hefur tekið þrjú ár að reka hæstv. félagsmálaráðherra til réttar í þessu máli, en þangað er hann kominn og ég held að við getum öll fagnað því. Frumvarpið sem hér liggur fyrir er a.m.k. stórt skref í áttina en þó kannski ekki að öllu leyti fyllilega fullnægjandi.

Mig langar hins vegar til að spyrja hæstv. ráðherra eftirfarandi spurninga: Er það frumvarp sem hér liggur fyrir algjörlega í samræmi við vilja Alþýðusambands Íslands? Í öðru lagi, af því að hæstv. ráðherra sagði að nauðsynlegt hefði reynst að breyta öðrum lögum langar mig til að spyrja hann hvort það sé þá líka fyrirhugað að breyta lögum til að tryggja að sveitarfélög fái það sem þeim ber í skattheimtu, og ríkið sömuleiðis. Það hefur brugðið við og verið kvartað yfir því að keisaranum sé ekki goldið það sem keisarans er. Raunar er það einn af ágöllum þessara erlendu starfsmannaleigna að þær grafa á vissan hátt undan velferðarkerfinu vegna þess að þær skila ekki inn í hina sameiginlegu sjóði því sem þeim ber. Ég spyr hæstv. ráðherra: Hefur hann ekki áhyggjur af þessu? Og er fyrirhugað að ríkisstjórnin beiti sér fyrir lagabreytingum á því sviði?

Ég geri mér grein fyrir að það er sennilega ekki á hans sviði, en spyr hvort þetta hafi verið rætt í hæstv. ríkisstjórn.