132. löggjafarþing — 31. fundur,  28. nóv. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[16:14]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Því ber að fagna að þetta frumvarp skuli vera komið fram og vissulega vonast maður til þess að málið gangi fljótt í gegnum þingið, en þó ekki fljótar en svo að menn lagi það sem þarf að laga í frumvarpinu. Vil ég þá sérstaklega víkja að því sem er náttúrlega meginefni og meginstoð íslensks vinnumarkaðar en það er það fyrirkomulag að atvinnurekendur ráði sjálfir til sín starfsmenn. Það fyrirkomulag hefur viðgengist hér lengst af og ég tel að meginmarkmið okkar sé að tryggja að það verði ekki brotið niður eða eyðilagt, m.a. með því að of rúmt sé opnað fyrir það fyrirkomulag sem hér hefur verið að ryðja sér til rúms sem starfsmannaleigur.

Meginreglan um að starfsmenn séu ráðnir hjá ákveðnum fyrirtækjum hefur verið framkvæmd þannig hvað erlenda starfsmenn varðar að atvinnurekendur hafa sótt um að fá að ráða til sín erlent starfsfólk og jafnan þurft að færa fyrir því einhver rök að ekki væri nægilegt framboð af starfsfólki í viðkomandi atvinnugrein á viðkomandi atvinnusvæði eða á viðkomandi stöðum eftir því sem verkast vill. Vinnumálastofnun hefur haft það hlutverk að kanna að ástandið sem atvinnurekandinn hefur lýst væri réttmætt og stæðist, að skortur væri á vinnuafli og þrátt fyrir tilraunir til að ráða hæft vinnuafl í starfsgreinina hefði það ekki fengist. Þetta hefur verið meginreglan hingað til og ég held að okkur Íslendingum hafi farnast nokkuð vel á okkar vinnumarkaði með því að hafa þessi skilyrði um að það sé atvinnurekandinn sem leiti eftir vinnuafli og ráði það til sín. Þar af leiðandi væru það í meginatriðum launþegar sem kæmu í vinnu hjá viðkomandi atvinnurekanda með ráðningarsamningi og hefðu þar af leiðandi þau kjör sem almennt giltu á vinnumarkaði.

Við höfum verið svo gæfusöm í vinnumarkaðsmálum að hafa sveigjanleg ákvæði varðandi uppsagnarfrest og annað slíkt og ýmis réttindi sem tengjast starfsaldri. Fólk öðlast mikið af réttindum með því að vinna lengi hjá sama atvinnurekanda, t.d. lengist uppsagnarfrestur, veikindaréttur og jafnvel orlofsréttur, eins og þekkt er, og ýmis önnur réttindi sem fólk öðlast með því að vera stabíll vinnukraftur á vinnustað og í þeirri atvinnugrein sem það hefur starfað. Oft hafa réttindin því miður verið takmörkuð um of, það er að segja að þau hafa stundum verið takmörkuð við sama atvinnurekanda í einstaka tilfellum eins og þekktist áður fyrr. Það atriði hefur mikið vikið fyrir því að fólk kunni til starfa í atvinnugreininni og sé ekki bundið af því að starfa hjá sama atvinnurekanda heldur hafi ákveðinn starfsaldur og fái þar af leiðandi ákveðinn rétt sem bæði tengist menntun þeirra, þjálfun eða starfsaldri eftir atvikum.

Þetta hefur verið meginreglan og ég tel mjög mikilsvert, hæstv. forseti, að við reynum að halda okkur við hana í veigamestum atriðum og að við séum hér í raun og veru að fjalla um undantekningartilvik sem sé alveg óhætt að setja eins stífar skorður og okkur er framast leyfilegt og unnt. Ég held því að of vægt sé til orða tekið í 11. gr. um það hvernig megi koma fram við þær starfsmannaleigur sem hafa farið á svig við lögin og brotið þær skyldur sem viðkomandi starfsmannaleigur eiga að vinna eftir. Ég held að hægt væri að lagfæra þessa grein mjög mikið með tiltölulega einföldum hætti. Það mætti t.d. byrja á að strika út orðin „með hæfilegum fyrirvara“. Þá væri fyrsta setning greinarinnar: Hafi Vinnumálastofnun krafist þess að starfsmannaleiga fari að lögum og úrbætur hafa ekki verið gerðar o.s.frv. Síðan gætu menn horft á orðið getur og sleppt því og sagt: Skal Vinnumálastofnun krefjast þess að lögregla stöðvi vinnu tímabundið eða loki starfsemi starfsmannaleigunnar tímabundið þangað til úrbætur hafa verið gerðar.

Ég held að menn þurfi að horfa á þetta nokkurn veginn með þessum hætti vegna þess að það er engan veginn ásættanlegt að hægt sé að veita langan frest út á að starfsmannaleigur hafi ekki farið að lögum. Fyrirtækin hafa kærurétt samkvæmt 12. gr. og ef mönnum finnst að Vinnumálastofnun hafi farið hart að viðkomandi fyrirtæki geta menn auðvitað kært og látið á það reyna en ég tel að ekki sé ástæða til annars en að hafa tiltölulega stíf ákvæði um það hvernig brugðist skuli við ef starfsmannaleigur brjóta lög. Við erum almennt í frumvarpinu að marka lög um starfsmannaleigur, laga grunninn og móta þau skilyrði sem þær eiga að gangast undir. Þar af leiðandi held ég að við megum ekki ganga mjög langt í því að vera með ákvæði eins og í 11. gr. þar sem hægt er að finna því stað að þó menn hafi brotið sé í fyrsta lagi hægt að aðvara þá með hæfilegum fyrirvara og síðan eftir ákveðinn frest o.s.frv. Ég held að það sé ekki gott að hafa þetta í lagatexta með þeim hætti sem hér er og geri athugasemd við það.

Varðandi 4. gr. finnst mér að í a-liðnum eigi að koma fram meira en þar stendur. Þar stendur, með leyfi forseta:

,,… yfirlit yfir starfsmenn sem starfa á vegum fyrirtækisins hér á landi þar sem fram kemur fjöldi þeirra, nöfn, heimilisföng í heimaríki, ríkisfang og starfsréttindi eftir því sem við á … “

Ég held að það sé spurning um að velta því fyrir sér hvar eigi að setja kröfuna um það sem kemur fram í d-liðnum, hvað varðar afrit af þjónustu- og ráðningarsamningum. Mér finnst að það þurfi helst að koma fram í fyrsta lið. Það þyrfti að breyta uppröðun á greininni um hverjir þeir samningar eru og lög sem ber að uppfylla varðandi starfsmennina og hverjar greiðslur til starfsmannanna eru. Það þarf að liggja fyrir að þær upplýsingar eigi að gefa svo menn þurfi ekki að velkjast í vafa um á hvaða kjörum menn eru ráðnir. Mér finnst því að breyta þurfi uppröðun á þessu efni varðandi tilkynningarskylduna og það hljóti að þurfa að ætlast til þess strax í upphafi að það komi fram á hvað kjörum menn eru ráðnir o.s.frv.

Þetta vildi ég gera að umræðuefni við 1. umr. og vonast til þess að þegar farið verður að skoða þetta í nefnd geri menn það vel og vandlega. Ég held að við hljótum öll að vera sammála um að eðlilegt sé að setja þau lög sem hér er komið frumvarp að en tel hins vegar, hæstv. forseti, að í þeim lögum eigi að vera tiltölulega stíf ákvæði um hver réttindin og skyldurnar eru.