132. löggjafarþing — 31. fundur,  28. nóv. 2005.

Starfsmannaleigur.

366. mál
[17:07]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil ítreka, þannig að það verði ekki misskilið, að auðvitað mun ég leggja mitt af mörkum til að félagsmálanefnd geti afgreitt málið fyrir jólaleyfi þingmanna. Ég legg hins vegar áherslu á að þessi lög séu þannig úr garði gerð þegar við afgreiðum þau að við getum verið sæmilega viss um að þau gagnist í baráttunni sem háð hefur verið á síðustu missirum, þar sem troðið hefur verið á erlendu vinnuafli.

Löggjöfin þarf að nýtast sem tæki í þeirri baráttu og gagnast til að koma í veg fyrir að erlent vinnuafl sé misnotað. Þess vegna spurði ég um ástæður þess að afgreiða málið fyrir jólaleyfi þingmanna. Ég legg mitt af mörkum til að svo geti orðið en ítreka að vanda þarf til verka. Þótt við þurfum að vera eitthvað lengur fram í desember en ráð er fyrir gert í starfsáætlun þingsins þá er ég tilbúin að taka þátt í því.