132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Almenn hegningarlög.

365. mál
[16:50]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Já, það er sannarlega hægt að taka undir með hv. þm. Ágústi Ólafi Ágústssyni að það er komin hreyfing á þessi mál í dómsmálaráðuneytinu. Það ber að þakka. Sú hreyfing teygir sig reyndar yfir til ríkisstjórnarinnar allrar því, eins og getið hefur verið um og komið hefur fram í fjölmiðlum og reyndar verið vakin athygli á hér úr þessum ræðustóli, þá hefur ríkisstjórnin ákveðið að fara út í þá vinnu sem frjálsu félagasamtökin hafa óskað eftir að farið verði í, þ.e. að útbúa heildstæða aðgerðaáætlun sem verði til þess fallin að vinna á hinu kynbundna ofbeldi sem við þekkjum í samfélagi okkar og búum við og við viljum öll gera allt sem hægt er til að koma í veg fyrir eða útrýma.

Það var í miðjum síðasta mánuði sem ríkisstjórnin gaf út fréttatilkynningu þess efnis að nú skyldi farið í þessa vinnu og í fyrirspurnatíma hér á Alþingi í síðustu viku, þar sem ég átti orðastað við hæstv. félagsmálaráðherra, kom í ljós að vinna við að undirbúa aðgerðaáætlun gegn kynbundnu ofbeldi væri komin vel í gang. Ég fagnaði því sérstaklega hversu greinilegt það er að félagasamtökin sem stigu fyrstu skrefin og eru í raun og veru upphafsmenn að þessari vinnu skuli eiga að fá að vera með í ráðum. Ég tel að það sé akkúrat í þeim heimi, þ.e. hjá hinum frjálsu félagasamtökum sem mest vitneskja er til staðar varðandi kynbundið ofbeldi og heimilisofbeldi þannig að ég tel það alveg sjálfgefið og fagna því að ríkisstjórnin skuli ætla að taka á þessum málum í félagi við félagasamtökin og leita til þeirra og hafa við þau náið samstarf.

Ég fagna því líka að nú skuli verklagsreglur lögreglu um meðferð og skráningu mála er varða heimilisofbeldi hafa litið dagsins ljós. Eins og fram hefur komið eru þær birtar sem fylgiskjal með frumvarpi þessu og það er satt að segja afar athyglisvert að fara í gegnum þessar reglur. Ég sé ekki annað en þær séu vel samdar og ítarlegar. Þær eru í tíu greinum í heildina og taka að því er virðist á öllum meginatriðum þeirra mála eða atriða sem lögreglan þarf að hafa í huga þegar mál af þessu tagi eru skoðuð og tekist á við þau á vettvangi.

Það er alveg ljóst að það þarf heildstæða áætlun til þess að vinna á þessum málum. Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að dómsmálaráðuneytið, félagsmálaráðuneytið, heilbrigðisráðuneytið og menntamálaráðuneytið hafi samstarf um þessi mál. Ég held að það sé verulega mikilvægt að ekki sé tekið einangrað á hverju atriði fyrir sig heldur sé litið heildstætt á málaflokkinn allan, þó svo að við séum hér og nú að fjalla um frumvarp sem varðar eingöngu heimilisofbeldið og það hvernig því er fyrir komið í almennum hegningarlögum.

Það er kunnara en frá þurfi að segja að það er vandkvæðum bundið að fást við heimilisofbeldið eða ná utan um það af hendi löggjafans og ákæruvaldsins, löggæsluvaldsins og dómsvaldsins. Það er ekki sjálfsagt mál að fá konu sem hefur mátt þola ofbeldi af hendi maka síns til þess að ganga fram fyrir skjöldu og viðurkenna ofbeldið, að ekki sé talað um að kæra það. Í fyrsta lagi eru konur sem hafa búið við langvarandi ofbeldi alltaf hræddar, þær eru stöðugt hræddar um líf sitt. Þær hafa mjög brotna sjálfsmynd, geta varla staðið undir sjálfum sér hvað þá undir því að fara í formleg opin átök við maka sinn sem hefur beitt þær ofbeldi kannski árum saman. Svo verður að hafa í huga að það sem þær óttast kannski mest af öllu er að missa börnin sín og þess vegna þegja þær um ofbeldið frekar en að gefa sig fram. Það vita það allir sem á hafa tekið og skoðað hafa þessi mál ofan í kjölinn hversu erfið og viðkvæm þau eru og þess vegna tel ég að það skref sem er stigið með þessu frumvarpi, þ.e. að skilgreina heimilisofbeldi sérstaklega í almennum hegningarlögum sé sannarlega til þess fallið að beina sjónum dómara t.d. að því að um heimilisofbeldi geti verið að ræða í tilfellum þegar það er ekki augljóst.

Ég tel líka að samhliða þessu væri mjög þýðingarmikið að lögregla fengi frekari heimildir í þessum efnum. Af því að hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson benti á frumvarp sem ég hef flutt hér og liggur nú fyrir þinginu á þskj. 53, sem varðar breytingu á lögum um meðferð opinberra mála og reyndar almenn hegningarlög líka, mál er varðar brottvísun og heimsóknarbann, þá tel ég þar vera á ferðinni tæki sem lögregla þyrfti að hafa í sínum höndum líka til þess að auðvelda meðferð þessara mála. Hugmyndin eru fengin frá Austurríki, eins og hv. þingmaður gat um. Þetta eru ákvæði sem voru leidd í austurrísk lög 1997 og hafa gefið góða raun þar. Það er búið að leiða þetta í lög í Skandinavíu, bæði í Noregi og Svíþjóð, þ.e. að lögreglan hafi í höndunum heimild til þess að vísa ofbeldismanni burt af heimili og banna honum endurkomu eða heimsóknir þangað í ákveðinn tíma. Þetta er auðvitað mjög gróft úrræði í sjálfu sér en Austurríkismenn hafa útfært það þannig að það er ekki mjög flókið að beita því. Það veitir lögreglunni þá heimild að vísa brott þeim manni sem beitir ofbeldi á heimili og það veitir lögreglunni líka heimild til þess að banna heimsóknir hans á heimilið í tiltekinn tíma. Lögreglunni er heimilt að nota þetta úrræði við ákveðnar kringumstæður þegar fjölskylda ofbeldismannsins eða öðrum stafar bein og augljós hætta af veru hans á heimilinu. Þannig er lögreglu gert að meta hagsmuni einstaklinganna á heimilinu, á staðnum, það hvort viðkomandi komi til með að valda öðru heimilisfólki skaða, hvort sem það væri sambúðarmaki, börn eða aðrir sem gætu þá beðið alvarlegt líkamlegt eða andlegt tjón af áframhaldandi veru ofbeldismannsins inni á heimilinu.

Austurríkismenn leiddu þetta í lög vegna þess að þeir veittu því athygli að það leysti ekki vandann inni á heimilunum að setja konur og börn ofbeldismanna í athvörf. Kvennaathvörfin sem voru orðin mörg í Austurríki á þessum árum fengu breytt hlutverk, þau urðu athvörf fyrir ofbeldismennina. Það vill svo til að Rosa Logar sem hefur verið einn af megintalsmönnum Austurríkis fyrir þessari leið var hér á ferð fyrir skemmstu. Hún var á fundi sem UNIFEM gekkst fyrir í háskólanum þann 21. október síðastliðinn þar sem fjallað var um konur í hnattvæddum heimi og talaði á málstofu um konur og ofbeldi og gerði grein fyrir nýjustu niðurstöðum og reynslu Austurríkismanna af þessari aðferð. Rosa Logar sagði að búið væri að beita þessu nálgunarbanni 30 þúsund sinnum á síðustu sjö árum í Austurríki. Hún sagði að þetta virtist koma í veg fyrir endurtekningu brota, þannig að það væri einungis í 10% tilfella sem sami einstaklingurinn fengi dæmt á sig slíkt nálgunarbann og heimsóknarbann, og því sé augljóst að ákvæðið hafi talsvert mikinn fælingarmátt.

Ljóst er að ákæruvaldið í Austurríki var nokkuð seint að taka við sér varðandi þetta mál, að það mundi virka og sama vandamál er vissulega þekkt mjög víða. Ákæruvaldið og dómsvaldið hefur átt í erfiðleikum með að greina heimilisofbeldi og þeir áttu erfitt með það í Austurríki að átta sig á að þetta nýja ákvæði hefði þann kraft eða fælingarmátt sem virkaði á þeim nótum sem það virtist gera. Frjálsu félagasamtökin sem hvöttu mjög til að þetta yrði leitt í lög voru ævinlega mjög sátt við þetta og á endanum virðist ákæruvaldið hafa sætt sig við þetta líka.

Þeir erfiðleikar sem hafa komið upp varðandi beitingu ákvæðisins í Austurríki virðast fyrst og fremst vera fólgnir í hvað það er umfangsmikið að annast umönnun eða aðhlynningu þeirra barna sem í hlut eiga í ofbeldissamböndum, því að hverjum hjónum geta fylgt mörg börn. Það sem þarf að gera þegar upp koma mál af þessu tagi og þegar viðvarandi heimilisofbeldi uppgötvast er að styðja börnin til einhvers konar hjálpar. Það er það verkefni sem Austurríkismenn segjast vera að horfa fram á núna að reyna að taka betur á því að skilja ekki börnin eftir umönnunarlaus eða fylgja ekki eftir meðferð þeirra til ákveðinnar framtíðar.

Við áttum okkur á að heimilisofbeldi er gríðarlega vandmeðfarinn málaflokkur. Hann er ekki einangraður við hjónin sem deila eða ofbeldismanninn og þá meðferð sem hann fær. Verulega mikil þörf er á að skoða þetta mál heildstætt, skoða hvað við getum boðið ofbeldismanninum sjálfum upp á af meðferðarúrræðum. Ég fagna því að nú skuli eiga að endurvekja verkefnið Karlar til ábyrgðar því ég tel það vera eitt virkasta vopnið í baráttunni að karlar stígi fram og standi jafnfætis konum sem hafa verið í framlínu þessarar baráttu hingað til. Ég tel að verkefnið Karlar til ábyrgðar hafi skilað ákveðnum árangri meðan það var við lýði fyrir fáum árum og fagna því þess vegna sérstaklega að nú skuli eiga að endurvekja það. Það er gert í tengslum við það verk sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að fara í til að vinna af alvöru gegn kynbundnu ofbeldi.

Getið hefur verið um það hér að fyrir fáum dögum, þ.e. 25. nóvember, var hleypt af stokkunum í annað sinn á Íslandi 16 daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi. Fjöldinn allur af félagasamtökum stendur á bak við það átak og verulega þess virði að gefa gaum ýmsum viðburðum sem verður boðið upp á fram til 10. desember. Í dag fengum við sendan póst um ályktunina 1325, þá frægu ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna sem varðar öryggi, konur og frið, mikið fræðsluefni sem við fengum frá UNIFEM á Íslandi tengt þeirri ályktun og áfram verður haldið næstu daga að fræða okkur um ofbeldismál, kynbundið ofbeldi og þar á heimilisofbeldi sinn sess.

Það sem þarf að hafa í huga þegar aðgerðaáætlun af þessu tagi er útbúin eru auðvitað ótal þættir. Við þurfum að taka til rækilegrar skoðunar þá þjónustu sem Neyðarmóttaka vegna nauðgunar veitir. Tryggja þarf að hún hafi nægan styrk til að veita fórnarlömbum alls kynbundins ofbeldis aðstoð. Við þurfum að horfa á heilbrigðiskerfið og eitt af því sem hefur verið talað um í þessum efnum er að uppfræða þurfi heilbrigðisstéttirnar, uppfræða þurfi hjúkrunarfólk, sjúkraliða, lækna, slökkviliðsmenn, sjúkraflutningamenn, lögreglu og dómara. Og eitt af því sem félagasamtökin í 16 daga átakinu ætla að hefja núna er markviss vinna í að bæta hlustunarskilyrði heilbrigðisstétta og annarra stétta sem koma að heimilisofbeldi og kynferðisofbeldi til að auka líkurnar á að uppræta megi vandamálið og í fyrsta lagi greina það, að greina heimilisofbeldi rétt og geta þannig gripið til réttari úrræða.

Setja þarf vinnureglur fyrir allar heilbrigðisstofnanir, ekki bara lögreglu heldur líka heilbrigðisstofnanirnar hvernig svona tilvik eru skráð, hvers konar skráningu heimilisofbeldi fær í kerfinu. Auka þarf verulega alla fræðslu þess fólks sem starfar í réttarkerfinu. Talað er um starfsfólk dómstóla, saksóknara og það fólk sem starfar í löggæslunni og nauðsynlegt er að vinna að áframhaldandi þróun á þeim heildstæðu reglum sem hafa nú litið dagsins ljós og eru í fylgiskjali með frumvarpinu, eins og greint hefur verið frá.

Gera þarf nálgunar- og heimsóknarbann virkt. Ástæðan fyrir því að nálgunarbannið virkar ekki á Íslandi í dag er fyrst og fremst sú að fórnarlamb ofbeldisins þarf að óska eftir nálgunarbanninu. Eins og ég greindi frá í upphafi máls míns er ekki hægt að ætlast til þess að konur sem hafa mátt búa við ofbeldi árum saman, jafnvel áratugum saman, leggi í það að óska eftir nálgunarbanni á maka sinn. Eins og Austurríkismennirnir hafa farið að þessu hafa þeir sett valdið í hendur lögreglunnar sem metur stöðuna á staðnum og lögreglan tekur ákvörðun um að vísa viðkomandi út af heimilinu. Úrræðið er því í höndum lögreglunnar og dómari staðfestir síðan beitingu úrræðisins. Því er nauðsynlegt, held ég, að endurskoða nálgunarbannið með það í huga að það eigi að vera í höndum lögreglu og dómara en ekki í höndum fórnarlambsins sjálfs því þar virðist það vera harla máttlaust tæki.

Eitt af því sem þarf að gera til að við komum betur auga á heimilisofbeldið, greint það og fundið leiðir út úr því og leiðir til að hjálpa fórnarlömbunum er að markvisst verði unnið að fjölgun kvenna í starfsstéttum sem vinna við meðferð ofbeldismála. Fjölga þarf konum í lögreglunni og það þarf að fela þeim þessi mál í auknum mæli, sérstaklega þegar við erum að feta okkur inn á nýjar brautir í meðferð slíkra mála. Fjölga þarf konum hjá ákæruvaldinu og dómstólunum og sjá til þess að þær komi að þessum málum í jafnríkum mæli og karlar gera.

Ég tel líka nauðsynlegt að hið opinbera og opinberir aðilar stuðli að ákveðinni samvinnu á milli þeirra sem koma að þessum málum. Þar er ég að tala um réttarkerfið, heilbrigðiskerfið, ýmsa fagaðila og málsvara fórnarlamba. Ég held að það sé eitt af því sem við verðum að fara að skoða á næstu stigum, þ.e. á hvern hátt getum við komið þessu fólki til aðstoðar, bæði fórnarlömbum ofbeldisins og hinum líka sem beita ofbeldinu. Á hvern hátt hafa meðferðarúrræði gagnast sem reynd hafa verið? Ég held að það sé lykilatriði að ná að styðja við þetta fólk svo það geti þá komist aftur almennilega á fæturna og fórnarlömbin náð fyrri styrk, náð að styrkja sjálfsímynd sína, náð að standa undir sjálfum sér og taka ábyrgð á lífi sínu á sama hátt og skoða verður möguleikana sem ofbeldismennirnir geta haft í gegnum meðferðarúrræði.

Tengt þessu máli er auðvitað mansal og hæstv. ráðherra nefndi það í upphafsræðu sinni á hvern hátt ríkisstjórnin væri að skoða þau mál. Ég er í starfshópi þeim sem hann nefndi sem starfar innan ráðuneytisins og er að reyna að skoða vændismálin sérstaklega. Vændi og mansal er mjög nátengt og þarf að skoðast í því ljósi. Ég er þeirrar skoðunar að líta þurfi á lagaákvæði varðandi klám. Við þurfum að virða þau lagaákvæði sem við búum við og hnykkja á þeim. Við þurfum að skoða ákvæði í almennum hegningarlögum, í útvarpslögum, í lögum um póstþjónustu, í samkeppnislögum og lögum um prentrétt og við þurfum að fara almennilega ofan í saumana á því á hvern hátt þeim lagaákvæðum er framfylgt eða hvort þeim er kannski alls ekki framfylgt í landi okkar.

Ég held líka að í þessari vinnu þurfi að hafa ákveðið samstarf á milli sveitarfélaganna og ríkisins. Ég held að ekki sé annað hægt en að færa sveitarfélögin að borðinu til að skoða á hvern hátt þau og félagsþjónusta þeirra getur komið að þessum málaflokki, á hvern hátt þeir aðilar geta staðið saman í því að höndla þessi viðkvæmu mál sem hafa raskað tilveru svo ótal margra í samfélaginu, kvenna, karla og barna. Ég tel að við séum að stíga mjög mikilvægt skref sem þó megi ekki taka úr samhengi við annað sem verið er að gera líka og við höfum fagnað í þessari umræðu. Auðvitað mun allsherjarnefnd Alþingis fara ofan í saumana á frumvarpinu, skoða það tæknilega og athuga hvort á því eru nokkrir vankantar. Ég sé það svo sem ekki í fljótu bragði. Ég tel að greinargerðin með málinu sé mjög skýr og markmið stjórnvalda sé mjög skýrt. Ég fagna því að þetta mál skuli vera hér fram komið.