132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Tekjustofnar sveitarfélaga.

364. mál
[19:12]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kvaddi mér hljóðs áðan til að leita álits ráðherra á ýmsu sem mér finnst ástæða til að ræða við þessa umræðu en hæstv. ráðherra er ekki í salnum og þykir mér það miður. Ég spyr hvort hægt sé að gera ráðstafanir til þess að ráðherra komi í salinn. Ég skal lofa því að ég mun ekki tala nema í örfáar mínútur en það veltur auðvitað á því hvað hæstv. ráðherra verður fljótur inn í salinn.

Við ræðum hér frumvarp um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga sem er þáttur í samkomulagi ríkis og sveitarfélaga sem gert var og fjallar um hækkun á undanþágu frá greiðslu fasteignaskatts einkum er varðar fasteignir í eigu ríkisins. Þegar um er að ræða fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga kippist maður aðeins við og fer að skoða málið og frumvarpið sem lýtur að því þegar slík mál eru til umfjöllunar, vegna þess að brugðið hefur við að fjárhagsleg samskipti ríkis og sveitarfélaga séu ekki sem skyldi. Það er augljóslega trúnaðarbrestur í samskiptum ríkisvalds og sveitarfélaga að því er varðar fjárhagsleg samskipti. Maður skilur það vel þegar horft er til reynslunnar og liðinna ára, af því að þegar menn hafa sest yfir tekjustofna sveitarfélaga nú og reynt að horfa kannski frekar til varanlegra tekjustofna þeirra og á aukinn hlut þeirra í verkefnum og tekjum sem þeim eiga að fylgja þá koma sveitarfélögin ekki að hreinu borði. Þar standa út af, að því er sveitarfélögin telja og við ræddum m.a. á fjármálaráðstefnu ríkis og sveitarfélaga, a.m.k. um 2 milljarðar þar sem lagabreytingar sem ríkisvaldið hefur staðið fyrir án samráðs við sveitarfélögin hafa skert verulega tekjustofna sveitarfélaga. Þar er m.a. um að ræða einkahlutafélög þar sem hallar verulega á sveitarfélögin þeim í lagabreytingum sem gerðar voru varðandi starfsgrundvöll einkahlutafélaga. Sveitarfélögin fóru verulega halloka gagnvart ríkinu í þeim samskiptum sem urðu vegna uppgjörs á húsaleigubótum. Húsaleigubætur hafa vaxið alveg gríðarlega, m.a. vegna hækkunar á húsaleigu í kjölfar breytinga sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir á fasteignamarkaðnum með þeim afleiðingum að húsaleigubætur eða kostnaður við þær hefur þrefaldast frá því sem menn gerðu ráð fyrir. Allt þetta er auðvitað innlegg í það að trúnaðarbrestur varð í samskiptum þessara aðila.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann sér fyrir sér framtíðarsamskipti þessara aðila varðandi varanlega trausta tekjustofna sem sveitarfélögin geta reitt sig á. En ég held að við stöndum á þeim krossgötum núna að það þýði ekkert að ræða frekari verkefni til sveitarfélaganna. Við erum strand í því þar til farið verður að ræða frekar um framtíðartekjustofna sveitarfélaganna og menn setjast yfir þá hlið á málinu en setja þá aðeins til hliðar verkefnatilfærsluna vegna þess að menn eru nokkuð klárir á því og það ríkir bærileg sátt um hvaða verkefni ættu heima hjá sveitarfélögunum ef því fylgdu þá nauðsynlegir tekjustofnar. Það hefur ekki verið gert, við vorum komin vel áleiðis með að flytja málefni fatlaðra yfir til sveitarfélaganna en það strandaði á því að ekki náðist samstaða um tekjustofnana þannig að ég spyr ráðherrann: Megum við vænta þess að farið verði í, af fullum heilindum, að skoða frekari breytingar á fjárhagslegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga?

Við sjáum það t.d. varðandi grunnskólana þegar þeir fóru yfir til sveitarfélaganna að við það jókst hlutur sveitarfélaganna í staðgreiðslunni og var meira en helmingur af staðgreiðslunni sem fór við þá breytingu yfir til sveitarfélaganna. En örfáum árum síðar, sennilega 6–7 árum síðar hafði þetta snúist við og ríkið var aftur komið með meiri hluta í staðgreiðslunni. Og ég hef reitt fram tölur því til stuðnings að í þeim auknu skatttekjum sem hafa orðið á umliðnum 4–5 árum, sem er 15% aukning, þá hefur ríkið fengið 14% af því en sveitarfélögin ekki nema 1%. Í þeirri gósentíð sem er núna hjá ríkissjóði þar sem allt veltur í peningum og varaformaður fjárlaganefndar hefur sagt að það sé of mikið af þeim, þá hefur ríkissjóður haft í auknar tekjur t.d. á þessu ári um 100 milljarða meðan sveitarfélögin fá um 6 milljarða. Þessu er því ekki bróðurlega skipt milli þessara opinberu aðila, ríkisins annars vegar og sveitarfélaganna hins vegar.

Varðandi þá breytingu, af því að ég ætla að stytta mál mitt, virðulegi forseti, sem hér er til umræðu þá vil ég spyrja af því að hér stendur í umsögn fjárlagaskrifstofu fjármálaráðuneytisins: „Afnám undanþágna frá greiðslu fasteignaskatts mun hafa í för með sér aukinn kostnað fyrir ríkissjóð þar sem t.d. framhaldsskólar og sjúkrastofnanir hafa verið undanþegin skattinum.“

Ég spyr: Er gert ráð fyrir þessu í rekstri þessara stofnana á næsta ári, t.d. í rekstri framhaldsskólanna, rekstri sjúkrastofnana eða hvernig eiga þessir aðilar að standa straum af þessu eða mun ríkissjóður greiða þetta undir einum hatti eða er þetta sett á viðkomandi stofnanir? Ég held að það sé nauðsynlegt að við fáum það fram. Við erum að ræða fjárlögin og ekki er búið að loka þeim þannig að það þarf að fá fram hvort gert sé ráð fyrir þessu í rekstri þessara stofnana.

Það er hægt að ræða margt um þetta frumvarp en ég vil spyrja um þá heimild sem er í 4. gr. Þar stendur:

„Heimilt er sveitarstjórn að lækka eða fella niður fasteignaskatt sem tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum er gert að greiða. Skylt er sveitarstjórn að setja reglur um beitingu þessa ákvæðis, svo sem um tekjumörk, tekjuflokka og hvort lækkun er í formi fastrar krónutölu eða hlutfalls af fasteignaskatti.“ Ég hygg að það síðasta sem ég var að lesa sé nýtt, frú forseti, þarna er verið að skylda sveitarstjórnir til að setja reglur þar að lútandi og í viðamikilli greinargerð sem fylgir kemur fram ágæt úttekt um hve sveitarfélögin framkvæma þetta mjög misjafnlega gagnvart elli- og örorkulífeyrisþegum. Hérna stendur: „Flest sveitarfélög veittu bæði elli- og örorkulífeyrisþegum afslátt […] en þó veitti hluti þeirra aðeins ellilífeyrisþegum afslátt (16%).“ Síðan er misjafnt hvort þetta er eins og hér segir í fastri krónu eða hlutfall af fasteignaskatti. Ég spyr: Er hugmyndin að samræma reglurnar þannig að þetta verði eins hjá öllum sveitarfélögunum eða á einungis að skylda hvert sveitarfélag fyrir sig til að setja slíkar reglur?

Ég hef stundum nefnt það úr þessum ræðustól að mér finnst það umhugsunarvirði hvað ýmis þjónusta sem íbúar sveitarfélaganna fá er misjöfn og svo misjöfn að manni finnst stundum að jafnræðis íbúanna sé ekki gætt hér á landi, að það sé ekki jafnræði með þeim. Ég nefni t.d. leikskólagjöldin sem eru mjög misjöfn eftir sveitarfélögunum og þann afslátt sem sveitarfélögin veita af þeim. Sama má segja um fjárhagsaðstoð sveitarfélaga o.s.frv., þannig að manni finnst vanta mikið upp á að þarna sé ákveðið jafnræði en auðvitað togast á líka sjálfstæði sveitarfélaganna annars vegar og síðan jafnræði þegnanna eða íbúanna hins vegar.

En má gera ráð fyrir einhverjum grundvallarbreytingum að því er varðar fasteignaskatt hjá tekjulitlum elli- og örorkulífeyrisþegum eða tekjulágum hópum eða þeim hópum sem ég hef nefnt við þessa breytingu? Ég spyr um það og hvernig framkvæmdin á þessu sé hugsuð og skal svo ekki lengja mál mitt frekar, virðulegi forseti.