132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Tekjustofnar sveitarfélaga.

364. mál
[19:24]
Hlusta

félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur farið fram um þetta mál. Nokkrar spurningar hafa komið fram hjá hv. þingmönnum og ég mun gera mitt besta til að svara þeim við þessa umræðu.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir viku að ýmsum atriðum sem varða samskipti ríkis og sveitarfélaga, ekki síst út frá tekjuskiptingu þeirra. Í því ljósi vildi ég rekja, hæstv. forseti, ákveðin atriði sem snerta tillögur tekjustofnanefndar og þar með einmitt þessi samskipti en tillögur nefndarinnar voru alls sex talsins og litu ljós í mars á þessu ári.

Það er allt útlit fyrir að okkur takist að ljúka við að hrinda þeim í framkvæmd fyrir áramót ef störf þingsins ganga með þeim hætti sem ég helst vonast til. Í þessum tillögum er lögð áhersla á að taka á vanda þeirra sveitarfélaga sem búa við erfiðar ytri aðstæður. Í fjárlagafrumvarpinu hefur þegar verið gert ráð fyrir 700 millj. kr. viðbótarframlagi ríkissjóðs í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Þetta eru peningar sem ætlaðir eru til að jafna aðstöðumun þeirra sveitarfélaga sem eru í mestri þörf, m.a. vegna erfiðra ytri aðstæðna og þessa dagana er verið að vinna að gerð reglna um úthlutun þeirra fjármuna í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Það er gert ráð fyrir að jafnhá fjárhæð komi á fjárlögum áranna 2008 og 2007 í þessu sama skyni og þarna er þá um að ræða ríflega 2 milljarða kr.

Ég hef þegar mælt fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lögum um húsnæðismál auk þess frumvarps sem hér er til umræðu og felur í sér tvær breytingar að auki. Jafnframt hefur umhverfisráðherra lagt fram frumvarp sem kveður á um framlengingu á gildistíma laga um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum en samkvæmt þeim styrkir ríkissjóður fráveituframkvæmdir sveitarfélaganna um allt að 200 millj. kr. á ári og er gert ráð fyrir að gildistími þeirra laga verði framlengdur um þrjú ár eða frá 2006 til og með 2008.

Að síðustu hef ég í samræmi við 6. tillögu tekjustofnanefndarinnar, en það hefur komið til umræðu og umtals í dag, skipað nefnd til að endurskoða lög um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga og gert er ráð fyrir að hún ljúki störfum sínum fyrir 1. apríl 2006 en nefndina skipaði ég í september síðastliðinn. Hlutverk nefndarinnar er að meta kosti og galla núverandi jöfnunarkerfis og kanna hvort það tryggi réttláta jöfnun meðal sveitarfélaganna. Verði niðurstaða nefndarinnar sú að þörf sé á breytingum á núverandi kerfi, hvort sem það er á kerfinu í heild sinni eða einstökum þáttum þess er gert ráð fyrir að hún skili tillögum um þær breytingar.

Í þessari endurskoðunarnefnd eiga sæti alþingismenn, bæjarfulltrúar og sveitarstjórar en stjórnarformaður ráðgjafarnefndar jöfnunarsjóðsins er Herdís Sæmundardóttir varaþingmaður sem er formaður nefndarinnar. Með nefndinni starfa m.a. sérfræðingar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, félagsmálaráðuneytinu, jöfnunarsjóðnum, iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti og fjármálaráðuneyti og ég vonast til að nefndin ljúki störfum sínum fyrir 1. apríl á næsta ári.

Hér hefur sömuleiðis, hæstv. forseti, verið tæpt á reglum um sameiningarframlög. Reglur um fjárhagslega aðstoð Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til að greiða fyrir sameiningu sveitarfélaganna eru frá árinu 2003 og þær fela m.a. í sér að sjóðurinn tekur verulegan þátt í þeim kostnaði sem hlýst af undirbúningi og framkvæmd sameiningar sveitarfélaga. Svo er veitt margvísleg aðstoð á næstu árum eftir sameiningu, t.d. til skuldajöfnunar ef sveitarfélag sem sameinast er illa statt fjárhagslega. Ef reglur sjóðsins að öðru jöfnu mundu leiða til að framlög til sameinaðs sveitarfélags skerðist eftir sameininguna er mælt fyrir um það í reglunum að sú skerðing komi ekki til framkvæmda á sameiningarári né á næstu fjórum árum eftir sameiningu.

Hvað varðar 2,4 milljarða sameiningarframlög eða allt að 2,4 milljörðum eins og rætt var um í aðdraganda sameiningarkosninga, þá voru tryggðir fjármunir í gegnum jöfnunarsjóð til aðstoðar sveitarfélögum við sameiningu allt að 2,4 milljörðum á fimm árum í þeirri viljayfirlýsingu sem félagsmálaráðherra, fjármálaráðherra og formaður Sambands ísl. sveitarfélaga undirrituðu 17. september 2004. Þeir peningar voru ekki síst ætlaðir til að aðstoða við endurskipulagningu stjórnsýslu í kjölfar sameiningar. Í ljósi niðurstöðu kosninganna er hins vegar augljóst að ekki verður þörf fyrir allt þetta fjármagn til að greiða framlög til þeirra sveitarfélaga sem hafa ákveðið að sameinast. Það liggur í augum uppi. Hve hár stuðningur jöfnunarsjóðs verður við þau sveitarfélög sem hafa ákveðið að sameinast eða munu gera á næstu mánuðum liggur hins vegar ekki fyrir á þessari stundu. Niðurstaða um það veltur m.a. á því hve mikla áherslu nýjar sveitarstjórnir leggja á að þróa stjórnsýslu sína og þjónustu sveitarfélagsins.

Það hefur margoft komið fram, hæstv. forseti, og um það eru allir sammála að rekstrarafkoma sveitarfélaganna á árinu 2003 var í heildina langt í frá nógu góð. Niðurstöður ársreikninga 2004 og fjárhagsáætlana fyrir árið 2005 sýna hins vegar verulegan viðsnúning í rekstri sveitarfélaganna þegar á heildina er litið. Samanlagður rekstrarafgangur á árinu 2004 var 2,3 milljarðar kr. og samkvæmt fjárhagsáætlunum 2005 er gert ráð fyrir 1,2 milljörðum í afgang. Reyndar er þegar ljóst í kjölfar endurskoðunar á fjárhagsáætlunum hjá fjölmörgum sveitarfélögum að afgangurinn verður umtalsvert meiri á þessu ári.

Ég geri mér hins vegar fulla grein fyrir því að mestur hluti rekstrarafgangs sveitarfélaganna er til kominn á höfuðborgarsvæðinu og byggðarlögunum í kring og það liggur fyrir og því hef ég ekki andmælt að rekstrargrundvöllur, tekjuöflunarmöguleikar og fjárhagsleg staða sveitarfélaga er ákaflega mismunandi. Þróun í tekjustofnum sveitarfélaga þar sem íbúum fjölgar ört og lítið lát er á hækkun fasteignaverðs er verulega frábrugðin þeirri þróun sem hefur allvíða orðið á landsbyggðinni þar sem íbúum hefur fækkað og erfiðleikar verið í atvinnulífi.

Eins og fram hefur komið í umræðunni, hæstv. forseti, sendi eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga 11 sveitarfélögum bréf í októbermánuði þar sem óskað var eftir greinargerð viðkomandi sveitarstjórnar vegna neikvæðrar rekstrarniðurstöðu á árinu 2004. Með því bréfi var ekki verið að gera athugasemdir við ársreikningana, einungis verið að minna á að með breytingu á reglugerð var sett inn nýtt ákvæði sem felur í sér skyldu sveitarstjórnar til að senda nefndinni greinargerð með ársreikningi, fjárhagsáætlun og þriggja ára áætlun, ef rekstrarniðurstaða ársreiknings eða áætlunar er neikvæð.

Það er ánægjulegt að geta getið þess að eftirlitsnefndin hefur nýlega lokið athugun á ársreikningum sveitarfélaga 2004 og sá ekki ástæðu til að gera sérstakar athugasemdir við niðurstöðu þeirra hjá neinu sveitarfélagi. Það undirstrikar auðvitað það sem ég hef fyrr sagt, hæstv. forseti, að um er að ræða viðsnúning í rekstri sveitarfélaganna, sem betur fer.

Af öðru því sem hér var tínt til þá spurði hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hvort Landskrá fasteigna væri þannig í stakk búin að hún gæti tekið við því verkefni sem henni er ætlað með frumvarpinu. Starfsmenn Fasteignamatsins telja svo vera, samanber fylgiskjal II með frumvarpi þessu. Að öðru leyti hvet ég hv. félagsmálanefnd til að kynna sér það mál, bæði með lestri þeirrar greinargerðar og samtölum við starfsmenn Fasteignamatsins, ef nefndarmenn telja ástæðu til.

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon spurði sömuleiðis hvort álagningarprósenta sú sem nefnd er í frumvarpinu og lýtur að álagningu á fasteignum ríkissjóðs væri föst og ákveðin, og svo er. Um það var samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga, þ.e. samkomulag um tiltekna fjárhæð, að tiltekin fjárhæð skilaði sér til sveitarfélaganna af hálfu ríkisins vegna þessara fasteigna innan þriggja ára, 600 millj. kr. Út frá því er álagningarprósentan reiknuð.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir nefndi hér ítrekaðar lagabreytingar án samráðs við sveitarfélögin sem hefðu orðið til verulegs kostnaðarauka fyrir sveitarfélögin. Þá er auðvitað ástæða til að halda því til haga að í tengslum við niðurstöðu tekjustofnanefndarinnar var ákveðið að eftirleiðis verði öll lagafrumvörp sem varða sveitarfélögin tekin til kostnaðarmats, sérstaklega með tilliti til hagsmuna þeirra. Kostnaðarmat af þessu tagi hefur verið framkvæmt til reynslu í nokkrum ráðuneytum en samkomulagið felur það í sér að nú verður það gert á sviði allra ráðuneytanna.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttur spyr sömuleiðis hvort áform séu uppi um það nú að skoða sérstaklega tekjuleg samskipti ríkis og sveitarfélaga. Því er til að svara að á þessu stigi eru ekki frekari áform um það. Tekjustofnanefndin komst að niðurstöðu, sem ég rakti áðan, í mars sl. og þær tillögur sem nefndin komst að niðurstöðu um koma til framkvæmda á næstu þremur árum, síðast á árinu 2008. Ekki er áformað að taka upp frekari viðræður milli ríkis og sveitarfélaga um þessi tekjulegu samskipti fyrr en þá að þeim tíma liðnum eða í lok hans. Hv. þingmaður spyr sömuleiðis hvort gert sé ráð fyrir kostnaði við fasteignaskattana af hinum opinberu fasteignum. Ég verð að játa það, hæstv. forseti, að ég get ekki svarað hv. þingmanni þeirri spurningu. Ég þekki það einfaldlega ekki og það er þá viðkomandi ráðherra, eða fjármálaráðherra, að svara því en ég er ekki í stakk búinn til þess hér og nú.

Varðandi spurningu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur um 4. gr. frumvarpsins, og sérstaklega þann lið þess sem fjallar um reglur vegna undanþágu elli- og örorkulífeyrisþega og ákvæði þess efnis að sveitarfélögunum verði hér eftir skylt að setja reglur um þær undanþágur og hvort það feli einungis í sér skyldu þeirra til reglusetningarinnar en ekki samræmingar, þá er það rétt skilið hjá hv. þingmanni að þarna er einfaldlega um það að ræða að sveitarfélögunum verður eftirleiðis skylt að setja þessar reglur en ekki er verið að skylda þau til að samræma þær. Ég tel að ég geti fullyrt að mikil andstaða yrði við það meðal sveitarstjórnarmanna því þeir líta svo á að þarna sé höggvið nærri sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaganna og sömuleiðis að sveitarfélögunum eigi að vera kleift að hafa á milli sín ákveðna samkeppni um íbúana og þetta kunni að vera liður í því.

Hæstv. forseti. Ég held að ég hafi rakið flest þau efnisatriði sem komið hafa til tals við þessa umræðu í dag og vona að svo sé. Ég ítreka síðan ósk mína um að málinu verði vísað til hv. félagsmálanefndar til umfjöllunar.