132. löggjafarþing — 32. fundur,  29. nóv. 2005.

Fjáraukalög 2005.

144. mál
[19:41]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Við þingmenn Samfylkingarinnar höfum farið yfir það í umræðum og í álitum okkar hvernig farið er á svig við fjárreiðulög í ýmsum atriðum fjáraukalaganna. Það er því miður orðið að hvimleiðu munstri hjá hæstv. ríkisstjórn að nota fjáraukalögin til að breyta myndinni af ríkisrekstrinum. Það er orðið að hvimleiðu munstri hjá ríkisstjórnarmeirihlutanum að slá upp glansmyndum í stað þess að fram fari raunveruleg áætlanagerð. Umgengni ríkisstjórnarinnar og meiri hluta Alþingis á lögum um fjárreiður ríkisins hefur ekkert farið fram eins og sést í þessu frumvarpi til fjáraukalaga. Á meðan svo er munu fjárlög og fjáraukalög ekki vera sá rammi sem þau eiga að vera um ríkisreksturinn ef farið væri að fjárreiðulögum í einu og öllu. Við þessar aðstæður er því ekki hægt að búast við að stjórntæki á borð við fjárlög og fjáraukalög nýtist við efnahagsstjórnina eins og þeim ber ef rétt væri á málum haldið.

Í skýrslu Ríkisendurskoðunar um endurskoðun ríkisreiknings ársins 2004 er slök framkvæmd fjárlaga gerð að umtalsefni. Þar kemur fram sú skoðun stofnunarinnar að það verði að teljast mjög óheppilegt að stór hluti útgjaldaákvarðana sé ekki ræddur í tengslum við afgreiðslu fjárlaga ár hvert.

Einn stærsti galli þessa fjáraukalagafrumvarps er hvernig tekið er á vanda einstakra fjárlagaliða vegna þess að ekki er hægt að sjá neina reglu í því hvernig tekið er á einstaka vanda heldur virðist vera um dapurlega tilviljunarkennt úrtak að ræða á hverju tekið er hverju sinni.

Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að í nokkrum tilfellum sé lagt til að uppsafnaður rekstrarhalli stofnana eða verkefna verði bættur að hluta eða öllu leyti. Hér er um fáar stofnanir að ræða sem þannig fá leiðréttingu núna sem vekur upp spurningar um þann fjölda annarra stofnana sem eru í svipaðri stöðu. Hvað það er sem ræður vali á stofnunum eða hvaða reglur gilda innan á milli ráðuneyta er óljóst. Því er hér, eins og oft áður, hrein tilviljun sem ræður því hvaða stofnanir eru leiðréttar í frumvarpi þessu. Í þessu sambandi er mikilvægt að benda á að samkvæmt fjárreiðulögum eiga þessar leiðréttingar hins vegar að afgreiðast í tengslum við fjárlög næsta árs en ekki fjáraukalög yfirstandandi árs eins og hér er gert.

Virðulegi forseti. Ríkisstjórnarmeirihlutinn ber alla ábyrgð á þessum vinnubrögðum og þar með á málinu öllu. Samfylkingin getur ekki tekið þátt í þeirri gjörð og mun sitja hjá við afgreiðslu málsins.