132. löggjafarþing — 34. fundur,  5. des. 2005.

Skýrsla um stöðu öryrkja.

[15:14]
Hlusta

forsætisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (F):

Frú forseti. Það væri fróðlegt við þessa umræðu að fá upplýsingar um hver sé skattstefna Samfylkingarinnar. Það hefur allt saman verið út og suður í þeim efnum. Það er alveg rétt að núverandi ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir því að lækka skattprósentuna og þar með hafa skattleysismörkin hækkað. Það hefur verið alveg skýr stefna af hálfu stjórnvalda að lækka skattleysismörkin með þeim hætti.

Hv. þingmaður segir að ekkert hafi gerst í málefnum öryrkja hér á landi. Ég vil t.d. minna á að árið 2000 var tekinn upp sérstakur tekjutryggingarauki og það var líka farið út í mikið átak í sambandi við örorku ungra öryrkja og lífeyrir til þeirra hækkaði verulega. Nauðsynlegt er að halda þessu öllu til haga á sama tíma og ber að viðurkenna að hægt er að gera betur. En það er alveg ljóst að það hefði ekki tekist ef stefna Samfylkingarinnar í efnahags- og velferðarmálum hefði gilt hér á landi.