132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[14:20]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við 3. umr. um fjárlög næsta árs langar mig að fjalla um vinnubrögðin við gerð fjárlaga og fjáraukalaga. Því miður er það orðið hvimleitt mynstur hjá hæstv. ríkisstjórn að bregða upp glansmynd af ríkisrekstrinum og nota fjáraukalögin til þess ár hvert. Á meðan fjáraukalögin eru notuð til þess að lagfæra hina raunverulegu stöðu í ríkisrekstrinum og breyta þar með fjárlögum hvers árs verða fjárlög og fjáraukalög ekki sá rammi um ríkisreksturinn sem þau væru ef farið væri að fjárreiðulögum í einu og öllu.

Virðulegi forseti. Ríkisendurskoðun gaf út skýrslu um endurskoðun ríkisreiknings ársins 2004. Þar er slök framkvæmd fjárlaga einmitt gerð að umtalsefni. Þar kemur sú skoðun stofnunarinnar fram að það verði að teljast mjög óheppilegt að stór hluti útgjaldaáætlunar sé ekki ræddur í tengslum við afgreiðslu fjárlaga ár hvert.

Þá vil ég líka nefna, virðulegi forseti, að bæði í fjáraukalögum, sem við eða öllu heldur ríkisstjórnin samþykkti hér í síðustu viku, og í þessum fjárlögum er merkilegt að sjá hvernig tekið er á vanda einstakra fjárlagaliða og á vanda einstakra stofnana. Ekki er hægt að sjá að nein regla sé í því hvernig tekið er á einstaka vanda, einungis er um tilviljunarkennt úrtak að ræða hverju sinni. Þetta, virðulegi forseti, er vont. Það er vont fyrir þær stofnanir sem í hlut eiga auk þess, eins og fram kemur í nefndaráliti okkar í 1. minni hluta í fjárlaganefnd, hv. þm. Helga Hjörvars og þeirrar sem hér stendur, sem margar stofnanir eru með það mikinn rekstrarhalla að vonlaust er að ætla þeim að leiðrétta með hagræðingu í rekstri án þess að skerða þjónustu verulega. Virðulegi forseti, fjölmargar menntastofnanir eru í þessari stöðu og varað er við því í ítarlegum skýrslum sem ég mun fara betur yfir í ræðu minni hér á eftir.

Virðulegi forseti. Í nefndaráliti okkar kemur einnig fram að samkvæmt fjárreiðulögunum beri að taka á vanda stofnana í fjárlögum næsta árs en framkvæmdarvaldið kýs að halda þessum blekkingarleik fjárlaganna áfram og óhjákvæmilega læðist að manni sá grunur að ætlunin sé að ná í viðbótarheimildir í næstu fjáraukalögum eða lokafjárlögum. Þetta horfum við upp á ár hvert. Þannig gefa fjárlögin ekki raunsanna mynd af því sem á eftir að gerast í ríkisrekstrinum á næsta ári. Það, virðulegi forseti, er vont. Ríkisendurskoðun hefur gagnrýnt að hér sé ekki farið fyllilega að fjárreiðulögum. Þessu tel ég að verði að breyta til þess að þær stofnanir sem í hlut eiga geti starfað eðlilega árið um kring án þess að þurfa ýmist að skerða þjónustu sína eða vona að þær fái eitthvað í fjáraukalögum. Hæstv. forseti, þetta gengur ekki til lengdar.

Virðulegi forseti. Það er fjölmargt í þessu fjárlagafrumvarpi sem er vert að koma inn á og er mjög gagnrýnisvert. Ég var að vonast til þess, virðulegi forseti, að eiga samtal við hæstv. menntamálaráðherra. Ég var að vonast til að hún yrði hér í salnum við 3. umr. Hún var ekki viðstödd 2. umr. og ég hefði viljað fá svör við fjölmörgum spurningum um menntamál. Mér þætti vænt um að kallað yrði á hana.

(Forseti (JBjart): Forseti gerir hæstv, menntamálaráðherra viðvart um að nærveru hennar sé óskað í salnum.)

Takk kærlega fyrir það.

Virðulegi forseti. Áður en ég fer í menntamálin langar mig að ræða örlítið um vaxtabætur. Það kom fram í 1. umr. og í 2. umr. um fjárlögin og það kemur fram í fjárlagafrumvarpinu að það eigi að skerða vaxtabætur á næsta ári. Virðulegi forseti. Sá grunur læðist að manni að þetta séu fyrstu skrefin í því að leggja vaxtabótakerfið niður. Við vitum að í umræðunni hefur vaxtabótakerfið átt verulega undir högg að sækja. Margir hv. þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa ekki dulið þá skoðun sína að þeir telji að leggja beri þetta kerfi niður, meira að segja hæstv. ráðherrar í ríkisstjórninni hafa fjallað um þann möguleika. Í 2. umr. um fjárlög kom sú skoðun fram hjá hv. þingmanni sem hér sat í fjarveru hæstv. menntamálaráðherra. Vaxtabæturnar voru skertar í fyrra og það á enn að skerða þær, það á enn að gefa í. Ekki er að undra að maður hugleiði hvort hv. þingmenn og hæstv. ráðherrar Framsóknarflokksins hafi horft á þann vagn sem þeir draga með félögum sínum í Sjálfstæðisflokknum. Sá grunur hlýtur að læðast að manni að þetta sé fyrsta skrefið í því að leggja vaxtabótakerfið niður, í það minnsta að draga úr virkni þess og áhrifum fyrir unga fólkið í landinu sem er að koma sér þaki yfir höfuðið — draga úr þeim mikilvæga tilgangi sem það hefur. Ég vonast til að það komi skýrar fram af hálfu hv. þingmanna Framsóknarflokksins í dag á hvaða ferðalagi þeir eru með vaxtabæturnar. Því hefur ekki verið svarað í þessari umræðu. Framsóknarmenn hafa farið undan í flæmingi um það sem stendur skýrum stöfum í því fjárlagafrumvarpi sem þeir eru aðilar að — þeir eiga líka forsætisráðherrann í ríkisstjórninni sem leggur frumvarpið fram. Ég hef nú lesið þetta upp hér áður en ég held að það sé þörf á því að gera það einu sinni enn og menn svari hér á hvaða ferðalagi þeir eru með vaxtabæturnar.

Í fjárlagafrumvarpinu stendur, virðulegi forseti, skýrum stöfum, með leyfi forseta:

„Við breytingar á vaxtabótum á síðasta ári var miðað við að vaxtabætur við álagningu ársins 2005 yrðu 95% af því sem gildandi reglur skv. b lið 68 gr. l. nr. 90/2003 kveða á um. Ákveðið hefur verið að framlengja þá ráðstöfun í samræmi við áform um aðhald með útgjöldum ríkissjóðs. Við álagningu næsta árs verður einnig sú breyting að hámark vaxtagjalda til útreiknings á bótum miðast við 5,0% af heildarskuldum til öflunar húsnæðis í stað 5,5% áður.“

Virðulegi forseti. Þetta verður ekki skýrara og ég óska eftir svörum við því á hvaða vegferð menn eru vegna þess, og ástæðan fyrir því að að ég vil að hv. þingmenn Framsóknarflokksins, sem ekki eru staddir hér í salnum, svari því þar sem þeir komu fyrir síðustu kosningar og lofuðu ungu fólki í þessu landi því að aðstoða það við að koma sér upp þaki yfir höfuðið og beinlínis hvöttu til þess að ungt fólk réðist í fjárfestingar í húsnæði. Með þessari aðgerð, virðulegi forseti, eru þeir að koma aftan að þessu unga fólki því við vitum að vaxtabæturnar eru verulegt liðsinni við þá sem eru að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Því skýtur það mjög skökku við á tímum þegar húsnæðisverð hefur farið upp úr öllu valdi og sífellt erfiðara verður að koma sér upp þaki yfir höfuðið fyrir þá sem eru að koma inn í kerfið í fyrsta sinn að vaxtabótakerfið sé veikt, enn veikt frá því sem áður var.

Virðulegi forseti. Ég óskaði eftir því að hæstv. menntamálaráðherra væri viðstödd þessa umræðu þar sem ég hefði gjarnan viljað eiga við hana orðastað um fjölmarga þætti menntamálanna.

(Forseti (JóhS): Forseti, sem hér sat í stól áður, gerði ráðstafanir til að fá hæstv. menntamálaráðherra hingað og það verður enn ítrekað að athuga hvort hún komi ekki og verði viðstödd og hlýði á mál hv. þingmanns.)

Virðulegi forseti. Ég þakka þær upplýsingar og vona að svo verði. En ástæðan fyrir því að ég hefði viljað að hæstv. menntamálaráðherra væri hér viðstödd er sú að það er töluverð ólga í skólasamfélaginu og sama á hvaða skólastigi það er, þó ekki síst í framhaldsskólum og á háskólastiginu. Fjölmargar skýrslur hafa komið fram á undanförnum mánuðum sem sýna að sú mynd sem hæstv. menntamálaráðherra kýs að draga hér upp, að hér sé allt í himnalagi og hér sé verið að auka verulega í, er ekki rétt. Þetta er stór og mikilvægur málaflokkur hvað varðar framtíð þjóðarinnar og því tel ég að ekki sé seinna vænna að við fáum tækifæri til að ræða þetta við hæstv. menntamálaráðherra við 3. umr. fjárlaga sem er stefnumarkandi fyrir skólana í landinu á næsta ári. Ég hefði því kosið að eiga við hana samræðu um þessi mál.

Virðulegi forseti. Eins og ég kom inn á hriktir í stoðum háskólastigsins og framhaldsskólastigsins hér á landi. Það er svo að Ísland kemur vel út í samanburði við OECD-ríkin varðandi menntun t.d. á grunnskólastiginu vegna þess að þar hafa sveitarfélögin gefið töluvert í hvað varðar útgjöld til þessa skólastigs, en þegar kemur að útgjöldum til framhaldsskólastigsins erum við rétt undir meðallagi meðal OECD-ríkjanna eða í 14. sæti. Þegar kemur að háskólastiginu erum við vel undir meðallagi og erum þar í 17. sæti. Ég tel, virðulegi forseti, að við hljótum að vera töluvert uggandi yfir þessu vegna þess að við vitum að hér er menntunarstig líka töluvert lægra en í samanburðarríkjum.

Í andsvari við hv. þm. Helga Hjörvar talaði hæstv. menntamálaráðherra mikið um það að hér töluðu staðreyndir sínu máli. Því vil ég líka ræða hér nokkrar staðreyndir í menntamálum. Í gær sendi Félag framhaldsskólakennara frá sér mjög merkilega ályktun um stöðu framhaldsskólanna, um fjárveitingar til framhaldsskólanna og fjárhagsstöðu þeirra. Ég vil gjarnan fá að fara aðeins yfir nokkra mikilvæga þætti í henni. Þar gagnrýnir stjórn Félags framhaldsskólakennara stjórnvöld mjög harðlega fyrir að vanáætla gróflega, eins og sagt er í ályktuninni, og árvisst fjárveitingar til framhaldsskóla miðað við nemendafjölda og heildarfjárþörf. Þar er sagt að stjórnvöld hafi brugðist við þessari árlegu vanáætlun á nemendafjölda og heildarfjárþörf framhaldsskóla með því að sækja viðbótarframlög í fjáraukalög sem hrökkvi þó hvergi nærri til. Þarna komum við enn að því sem ég ræddi áðan, hvernig fjáraukalögin eru notuð til að …

(Forseti (JóhS): Forseti hefur þær spurnir af hæstv. menntamálaráðherra að hún verði hér í húsi í síðasta lagi korter yfir þrjú. Forseti getur boðið þingmanni upp á að ljúka ræðu sinni þegar henni hentar nú. Við þurfum að taka a.m.k. eitt andsvar sem þegar hefur verið óskað eftir, en þingmaðurinn yrði þá sett á mælendaskrá aftur í síðari ræðu sinni strax þegar menntamálaráðherra kemur í hús. Svo nú er valið hv. þingmanns.)

Virðulegi forseti. Ég ætla að þiggja það þar sem ég hef ekki áhuga á að standa hér enn eina ferðina og tala út í vindinn um menntamál og fá ekki svör. Ég þigg það og flyt þá seinni hluta ræðu minnar á eftir þegar menntamálaráðherra er komin í hús.