132. löggjafarþing — 35. fundur,  6. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[18:35]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er dálítið merkilegt að hæstv. fjármálaráðherra sem ætti nú að fylgjast sæmilega vel með því sem gerist hér í þingsalnum þegar fjárlagaumræðan er á dagskrá, skuli byrja á því að koma í ræðustól og halda því blákalt fram að þetta sé í fyrsta sinn sem ég taki til máls í þessari fjárlagaumræðu. Hvað hrjáir hæstv. fjármálaráðherra? Einhver óskapleg minnisglöp eða vísvitandi ósannindi? Það er alveg ótrúlegt að koma hér og segja þetta í 3. umr. um fjárlögin. Er þingmaðurinn eða ráðherrann hæstv. ekki í salnum þegar verið er að ræða málin? Ég hlýt að spyrja. Hann gæti að minnsta kosti flett upp í þingtíðindum til að leita af sér allan vafa. En ég bið hæstv. ráðherra að fara ekki með svona staðlausa stafi hér í ræðustól Alþingis.

Varðandi ójöfnuðinn þá segir ráðherrann að það sé hugsanlegt að hér hafi einhvers staðar aukist ójöfnuður. Það er ekkert hugsanlegt. Það er búið að leiða fram staðreyndir eftir staðreyndir um aldraða, öryrkja og almenna tekjuþróun í landinu, ójöfnuður hefur aukist í tíð núverandi ríkisstjórnar sem hefur haft úr miklum fjármunum að moða vegna þess að það hefur verið stefna hennar.

Varðandi félagsþjónustuna í Reykjavík þá er sá eðlismunur á félagsþjónustunni í Reykjavík annars vegar og svo tryggingabótum hjá Tryggingastofnun ríkisins hins vegar að bæturnar hjá félagsþjónustunni eru ekki ætlaðar til að fólk lifi af þeim árið út og árið inn, ár eftir ár. Þær eru í rauninni hugsaðar sem neyðaraðstoð við ákveðnar aðstæður. En þið, hæstv. ráðherrar í ríkisstjórninni, eruð að skammta fólki kjör í gegnum tryggingabæturnar sem því er gert að lifa á árum saman. Sá er munurinn.