132. löggjafarþing — 36. fundur,  7. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[13:52]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Í orði eru allir sammála um að fjárfesting í góðri menntun og þar með betri framtíð Íslands verði að fá forgang í nútímaþjóðfélagi ef við ætlum að vera samkeppnisfær í atvinnulífinu á alþjóðavísu. Hér eru greidd atkvæði um auknar fjárveitingar til Háskóla Íslands, Háskólans á Akureyri og Kennaraháskóla Íslands. Við þessa atkvæðagreiðslu sést hvort hugur fylgir máli um að mæta fjárþörf þessara háskóla svo að þar megi starfa af auknum krafti fyrir betri framtíð landsins. Ég segi já.