132. löggjafarþing — 36. fundur,  7. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[13:58]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það hefur orðið veruleg aukning í nemendafjölda í framhaldsskólum á undanförnum árum. Er það vel og gleðilegt að margir eldri nemar eru að snúa aftur í framhaldsskólanám. Þessu hefur því miður ekki verið mætt með skilningi af hálfu stjórnvalda og það eru viðvarandi verulegar vanáætlanir á nemendafjölda í framhaldsskólum landsins. Þetta kemur skýrt fram í góðri ályktun frá stjórn Félags framhaldsskólakennara sem var send okkur 5. desember sl. en þar kemur fram að halli nokkurra framhaldsskóla sé á þessu ári 4–35% af framlögum ársins í ár. Þessi viðvarandi rekstrarvandi vegna vanáætlana stjórnvalda á nemendafjölda og galla í því reiknilíkani sem áætlar framlög til framhaldsskólanna er auðvitað óþolandi fyrir þessa skóla og margir eiga við alvarlegan rekstrarvanda að stríða. Afleiðingar af þessu eru að námsframboð verður stöðugt einhæfara. Þessu viljum við mæta af myndarskap. Við verðum að viðurkenna þennan vanda og við gerum það, Samfylkingin, ólíkt hæstv. ríkisstjórn. Því leggjum við til 250 millj. kr. framlag. Ég segi já.