132. löggjafarþing — 36. fundur,  7. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[14:19]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Eftir mikla umræðu á Alþingi, eftir áskoranir frá öllum helstu almannasamtökum í landinu og öllum launþegasamtökum í landinu um að Mannréttindaskrifstofa Íslands fái sérgreinda fjárveitingu á fjárlögum þá situr ríkisstjórnarmeirihlutinn hér og greiðir atkvæði gegn tillögu hv. þingmanna um að mannréttindamálin, Mannréttindaskrifstofa Íslands og Mannréttindastofnun Háskóla Íslands fái sérgreindar fjárveitingar. Það er mál til komið að tekið verði almennilega á málum Mannréttindaskrifstofu Íslands. Það er smánarblettur á ráði þessarar ríkisstjórnar að neita henni um þá fjárveitingu sem hún sótti um núna á þessu ári. Ég sé ekki nokkurn skapaðan hlut í spilunum sem gæti gefið okkur einhverjar vonir um að ríkisstjórnin styðji Mannréttindaskrifstofu Íslands á næsta ári. Þess vegna er þessi tillaga flutt og ég segi já.