132. löggjafarþing — 36. fundur,  7. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[14:24]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur haft gjaldfrjálsan leikskóla sem eitt af sínum helstu baráttumálum á sviði velferðarmála. Í samræmi við það höfum við flutt tillögu í þinginu um samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga um að koma á gjaldfrelsi í leikskólum í áföngum. Við leggjum til að veitt verði fé á fjárlögum til að hefja þetta samstarfsverkefni og fyrsti áfangi upp á 700 millj. kr. geti komið til framkvæmda á árinu sem í hönd fer.

Allmörg sveitarfélög eru þegar tekin að fikra sig í þessa átt þar á meðal Reykjavíkurborg, sem mun taka annan áfanga nú um næstu áramót í þessum efnum, og milli 10 og 20 sveitarfélög önnur hafa ýmist þegar tekið skref í þessa átt eða eru með það í undirbúningi. Mörg fleiri mundu vilja stefna í þessa átt og væntanlega sveitarfélögin almennt og öll, væri þeim það fjárhagslega kleift. Þess vegna er ljóst að koma þarf til sameiginlegt átak ríkis og sveitarfélaga til að þetta megi ná fram (Forseti hringir.) að ganga og við leggjum til að það hefjist með þessari fjárveitingu.