132. löggjafarþing — 36. fundur,  7. des. 2005.

Fjárlög 2006.

1. mál
[14:39]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Sem betur fer er rekstur Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja að komast á betra ról á nýjan leik og stofnunin sinnir auðvitað ört stækkandi svæði. Þar eru miklar íbúðabyggingar og fólksfjölgun. Það sem háir sérstaklega rekstri stofnunarinnar nú er að þar eru ekki sólarhringsvaktir tryggðar þannig að fæðingum t.d. verður að vísa annað um helgar og á nóttunni og sömuleiðis hafa byggingarframkvæmdir eða innrétting á óinnréttaðri álmu, efstu hæð D-álmu sem þar stendur, stöðvast sökum fjárskorts. Þetta snýst ekki um mjög háar upphæðir til að þessi stofnun geti nýst og sinnt hlutverki sínu með öflugri hætti en henni er kleift í dag vegna þess að þetta skortir á. Við leggjum því til að fé verði veitt til að unnt verði að taka upp sólarhringsvaktir á árinu sem í hönd fer og sömuleiðis megi hefjast handa við að innrétta efstu hæð D-álmunnar þannig að rakni úr húsnæðisvanda stofnunarinnar.